148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

gjaldtaka í ferðaþjónustu.

[15:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er auðvitað rétt, þegar horft er á gjaldtökuna sérstaklega með almennum hætti, að komugjöld leggjast fyrir það fyrsta bæði á erlenda ferðamenn en einnig á Íslendinga sjálfa og samkvæmt flestum athugunum á innanlandsflugið líka. Það er áhugavert að heyra sjónarmið ráðherra um það en tillögur um breytingu í virðisauka hefðu einmitt nýst almenningi hér á landi þar sem almenna þrepið hefði lækkað á móti.

En mér þykir athugunarvert, og hefði áhuga á að heyra nánar sjónarmið ráðherra um það, að sjá þá gjaldtöku sem á sér stað í Keflavík núna. Það er eins og einokunarfyrirtækið Isavia hafi ákveðið að grípa fram í fyrir stjórnvöldum, eða kannski gafst fyrirtækið upp á því að bíða, um gjaldtöku í ferðaþjónustu, ég veit það ekki. En þetta er alla vega sú gjaldtaka sem þarna er á ferðinni varðandi útboð á leyfum eða aðstöðu fyrir þau tvö fyrirtæki sem fá að njóta þess — og eru að greiða held ég um 30–40% af tekjum sínum í aðstöðugjald — og svo þau fyrirtæki sem eiga að greiða 19.900 kr. (Forseti hringir.) fyrir að fá að leggja rútum við Leifsstöð, sem er langt umfram alla þá gjaldtöku sem við sjáum í nágrannalöndum okkar. Ég hygg að annars staðar á Norðurlöndum (Forseti hringir.) sé þetta meira og minna gjaldfrjáls þjónusta. Þetta hlýtur að vekja spurningar um það hvor ráði för, stjórnvöld eða einokunarfyrirtækið Isavia.