148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:12]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Skýrslur greiningardeildar ríkislögreglustjóra eru mikilvægar og við þeim verður að bregðast. Þær niðurstöður sem birtast í skýrslunni sýna okkur skýrt þær auknu áskoranir sem birtast stjórnvöldum og lögreglunni í landinu í auknum mæli í skipulagðri brotastarfsemi, eins og mansali, fíkniefnaviðskiptum, peningaþvætti, auðgunarbrotum, netglæpum og kynferðisbrotum.

Það fækkar alltaf landamærum í þessari starfsemi. Því þurfum við að tryggja gott samstarf við nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndunum sem búa við sömu áskoranir og styrkja áfram starf okkar við Evrópuþjóðir og á alþjóðavísu. Við þurfum því nægan sérhæfðan mannafla sem er menntaður og þjálfaður í skipulagðri brotastarfsemi, þannig náum við að manna næg sérhæfð rannsóknarteymi sem geta tekist á við þessa glæpahópa og tryggt að skipulag lögreglunnar geti fljótt aðlagað sig að breyttum veruleika.

Þó að enn sé mikið verk óunnið höfum við verið á réttri leið undanfarin ár. Þegar niðurskurður til lögreglunnar var stöðvaður árið 2014 og fyrsta aukaframlagið til lögreglu kom, þá upp á 500 milljónir, var horft til þágildandi skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, við forgangsröðun fjármunanna og meðal annars komið á ákveðinni þjálfunaráætlun fyrir lögreglumenn. Löggæsluembættin voru aðskilin frá sýslumönnum og stækkuð til að gera þau öflugri og betur í stakk búin til að setja upp sérhæfðari teymi í að takast á við stærri verkefni. Fyrirkomulagi löggæslunáms var breytt með því að bæta aðkomu háskólanna að náminu og menntasetur lögreglunnar var sett á fót. Ég held að þetta eigi eftir að verða gæfuríkt spor fyrir löggæsluna til framtíðar.

Þá má ekki gleyma því að embætti héraðssaksóknara var sett á fót og málaflokkum eins og peningaþvætti, efnahagsbrotum og rannsóknum kynferðisbrota gert mun hærra undir höfði. Samvinna stofnana var einnig aukin. Það hefur því margt verið gert til að bregðast við breyttum heimi en áfram er mikið verk óunnið og mikilvægt er að löggæsluáætlun taki gildi sem allra fyrst.