148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það fer ekki hjá því að maður blygðist sín ögn vegna nýlegra frétta af því að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi kvartað við erindreka ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, hér á landi yfir fréttaflutningi fjölmiðla af lögbanni á fréttir af fjármálaumsvifum þáverandi forsætisráðherra hérlendis og erlendis, en einkum þó aflendis í aðdraganda hrunsins.

Flátt er fagurt, fagurt flátt, segja nornirnar í Macbeth. Svipaðan útúrsnúning sjáum við hjá ýmsum af ófyrirleitnustu stjórnmálamönnum nútímans úti í heimi sem kalla sannar fregnir af sjálfum sér jafnan lygafréttir og grafa sífellt undan trúverðugleika fjölmiðla sem starfa í almannaþágu frekar en að ganga erinda eigenda sinna eða pólitískra afla.

Fulltrúar ÖSE fara um lönd og hlýða á frásagnir af margvíslegum ofsóknum. Þeir heyra af fangelsunum og líkamsmeiðingum og margvíslegum hótunum, skertu fundafrelsi, hindrunum sem settar eru upp til að koma í veg fyrir að fólk fái að kjósa. Þeir heyra um skerðingu á málfrelsi, þeir heyra um ritskoðun og þar fram eftir götunum. En þegar þessir fulltrúar koma til Íslands fá þeir hins vegar að heyra umkvartanir stjórnarflokks yfir umfjöllun fjölmiðla sem þeim flokki finnst óþægileg.

Virðulegi forseti. Í ýmsum löndum Evrópubúa búa blaðamenn við ofsóknir ríkjandi stjórnvalda en hitt er fáheyrt, að ríkjandi stjórnvöld búi við ofsóknir blaðamanna.