148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að eyða hér nokkrum orðum á Mílu og fleiri fyrirtækjum sem ég ætla að nefna hér, Gagnaveitu, Farice, stinga upp hugmyndum, en öll snúa þau að netmálum.

Þannig er um háttað í löndum sumum í kringum okkur að allt er við kemur þessu neti, sem er að segja annars vegar ljósleiðara, aðgangi að internetinu og hins vegar netinu er snýr að raforku, er skilgreint sem öryggismál, sums staðar sem hluti af þjóðaröryggisstefnu einfaldlega, að það sé mikilvægt að tryggja öllum íbúum hvers lands aðgang að þessum nauðsynlegu fyrirbærum í nútímasamfélagi.

Ég velti því upp hvort hæstv. ríkisstjórn ætti ekki að fara að huga að þessum málum. Það eru metnaðarfull áform uppi um að klára ljósleiðaravæðingu landsins og er það vel, en ég held að það gæti verið einnar messu virði að setjast yfir þessi mál, skoða hvort þurfi ekki að setja undir sama hatt fyrirtæki sem ég taldi hér upp á undan, sem myndi kalla á víðtækt samráð við þá aðila sem að rekstri og eignarhaldi þeirra fyrirtækja koma. Nú erum við að fara að taka hér til umræðu á næstunni breytingar á lögum um Landsnet. Þar þarf að skýra mjög sjálfstæði eiganda oig væri alveg þess virði að setja undir sama hatt að skoða í þessu samhengi.

Öryggismál hefur þetta verið skilgreint víða. Þetta er náttúrlega ekki síst mál sem snýr að lífsgæðum að tryggja það að allir íbúar landsins hafi tryggt öryggi að annars vegar interneti og hins vegar raforku.