148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í Kastljósi í gær sagði hv. þm. Páll Magnússon ýmislegt áhugavert en mig langar til að nefna tvennt sem ég hnaut um. Í fyrsta lagi hvatti hann stjórnarandstöðuna til þess að bíða með vantrauststillögu því ráðherrar ríkisstjórnarinnar ættu örugglega eftir að gera stærri mistök en að klúðra skipun dómara í heilt nýtt dómstig. Ef traust hv. þingmanns á ráðherrum ríkisstjórnarinnar er ekki meira en það þá hlýtur hann að grípa tækifærið að fyrra bragði, kannski of seint núna, að leggja til vantraust á ríkisstjórnina til að koma í veg fyrir að þau mistök verði að veruleika. Þetta er mjög áhugaverð hótun til þjóðarinnar. Stærri mistök eru á leiðinni. [Hlátur í þingsal.]

Í öðru lagi sagði hv. þingmaður að ábyrgðin væri ráðherra. Ég velti því fyrir mér: Hver er sú ábyrgð? Ekki er ráðherra að greiða þær miskabætur sem hún olli úr eigin vasa. Þær eru greiddar úr ríkissjóði, vasa allra landsmanna. Þar geldur almenningur fyrir persónulega geðþóttaákvörðun ráðherra. Hér hefur nefnilega áður verið spurt: Hvað væri öðruvísi ef ráðherra bæri ábyrgð? Væri þá kannski annar ráðherra en þingmaðurinn Sigríður Á. Andersen? Axlar þingmaðurinn Sigríður Á. Andersen ábyrgð með því að taka aftur að sér embætti dómsmálaráðherra? Hvernig virkar það eiginlega?

Við þingmenn þurfum að spyrja okkur mjög einfaldra spurninga. Þegar ráðherra fer gegn áliti sérfræðinga, viðvörunum þingmanna, brýtur lög um jafn alvarlegt mál og skipun dómara og viðurkennir að það hafi verið hennar ákvörðun og að ábyrgðin sé hennar en gerir svo ekkert til að axla þá ábyrgð, verður þingið þá ekki að stíga inn í? Ef það er ekki vantraustsvert að klúðra skipun heils dómstigs, hvað er það þá? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)