148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í stefnu ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, hæstv. forsætisráðherra, segir svo um EES-samninginn, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin telur það vera eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands að sinna framkvæmd EES-samningsins vel og Alþingi þarf að vera virkara á því sviði.“

Í síðustu skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um utanríkismál segir svo, með leyfi forseta:

„Ef miklar tafir verða á innleiðingu EES-reglna í íslenska löggjöf er afleiðing sú að ekki er hægt að ganga að því sem vísu að sömu reglur gildi á Íslandi og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Slíkt grefur undan meginmarkmiði EES-samningsins.“

Fyrir þingi liggja allnokkur EES-mál þar sem verið er að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara án þess að fyrir liggi frumvörp til innleiðingar í íslenskan rétt. Ætli það þýði að hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin líti svo á að innleiðingin skipti ekki máli?

Er það þá vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa fallist á bein réttaráhrif EES-gerða eða er þeim alveg sama um hugsanlega bótaskyldu vegna skorts á innleiðingu?

Nú er verið að bæta verulega við innleiðingarhallann sem ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, mælir með reglulegum hætti. Hvernig rímar það við stefnu stjórnvalda um betri framkvæmd EES-samningsins? Þrátt fyrir sett markmið um að ná innleiðingarhallanum inn fyrir 1% er staðreyndin sú að ekkert hefur gengið að ná þessum halla niður og ef fram fer sem horfir mun hann enn aukast.

Herra forseti. Það er ekki nóg að tala um mikilvægi EES-samningsins og þau réttindi sem honum fylgja, tækifæri og réttaröryggi, en sinna því starfi ekki betur en raun ber vitni. Það er því holur hljómur í starfi hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum. (Forseti hringir.) Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að hysja upp um sig og láta verkin tala.