148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fyrir nokkrum dögum vorum við að ræða um ferðakostnað þingmanna, aksturskostnað. Þar vorum við að tala um hundruð þúsunda á mánuði, milljónir á ári. Á sama tíma borgum við fötluðum einstaklingi 16.583 kr. í ferðakostnað, bensínkostnað. Af þeirri upphæð fær einstæðingur til baka aðeins 1.746 kr. Þetta er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi. Annar einstaklingur sem borgar tæpar 7.000 kr. í lyfjakostnað fær ekki krónu til baka.

Hvernig getum við réttlætt það að setja lög á Alþingi sem brjóta mannréttindi? Hvernig getum við leyft þessum lögum að standa áfram þar sem þau geta ekki staðist stjórnarskrána? Það sem er eiginlega furðulegast við þetta er að þegar liggur fyrir frumvarp sem á að taka á þessu máli. Það hefði átt að afgreiða það bara einn, tveir og þrír miðað við annað sem afgreitt hefur verið héðan fljótt og vel.

Síðan er annað alveg stórfurðulegt mál, króna á móti krónu skerðingin sem allir lofuðu að taka í burtu. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Jú, hún ætlar að senda þessa krónu á móti krónu skerðingu í starfsgetuendurhæfingu. Hvað á að gera við hana þar? Efla hana þannig að hún komi tvöfalt til baka?

Það er ekkert samhengi á milli krónu á móti krónu skerðingar og starfsgetuendurhæfingar. Við gerum kröfu um það, og sérstaklega þeir öryrkjar sem eru á lægstu bótum, skrimta á 200.000 kr. — og þeir einstaklingar, eins og sá sem talað var um og er að missa allan bílastyrkinn, fær 300.000 kr. útborgaðar, og hann borgar 70% af tekjunum í húsnæði. .