148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[17:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að það er mér ekki sérstakt gleðiefni að stíga í ræðustól Alþingis að þessu sinni. Því miður verður ekki betur séð en að ráðherra hafi orðið á umtalsverð mistök í málsmeðferð sinni við skipan 15 dómara við Landsrétt. Fyrir liggja tveir dómar Hæstaréttar, frá 19. desember 2017. Umboðsmaður Alþingis rekur í bréfi sínu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis frá 2. mars sl. að komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að rannsókn dómsmálaráðherra hefði verið ófullnægjandi til að upplýsa málið nægilega svo að ráðherra væri fært að taka aðra ákvörðun um hæfni umsækjanda en dómnefndin hafði áður tekið. Var málsmeðferð, segir umboðsmaður, ráðherra að þessu leyti andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem hann rekur þennan dóm. Þá segir í endursögn umboðsmanns að í dóminum segi að það leiddi af sjálfu sér að annmarki hafi verið á meðferð Alþingis á tillögu dómsmálaráðherra þar sem ekki var bætt úr annmörkum á málsmeðferð ráðherra þegar kom til atkvæðagreiðslu á Alþingi.

Í 20. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, er lögð á ráðherra sú skylda að leita álits ráðuneytis til að tryggja að öll stjórnsýsla ráðherra og ráðuneytis sé í samræmi við ólögfesta réttmætisreglu stjórnsýsluréttar, þ.e. að ákvarðanir og athafnir séu byggðar á málefnalegum sjónarmiðum eða lögmætum sjónarmiðum sem taki mið af þeim opinberu hagsmunum sem um ræðir hverju sinni.

Ekki verður annað séð, frú forseti, en að ráðherra hafi borið skylda til að upplýsa Alþingi um efni þeirrar ráðgjafar sem henni barst úr Stjórnarráðinu. Alþingi verður að geta treyst því að ráðherra leyni ekki upplýsingum sem gætu haft áhrif á meðferð mála og niðurstöður þeirra. Þegar út af þessu er brugðið hlýtur það að hafa afleiðingar fyrir hvaða traust Alþingi getur borið til ráðherrans. Þetta atriði vegur þyngst í mínum huga í þessu máli.

Ég vil nota þetta tækifæri, frú forseti, og gera alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð dómnefndar í landsréttarmálinu. Nefndin kaus að leggja fram tillögu um 15 einstaklinga, jafn marga og átti að skipa, á grundvelli stigamats í excel-skjali þar sem munur á mönnum mælist í þúsundustu pörtum. Þessi háttur vekur upp alvarlegar spurningar um hvaða hlut lýðræðislega kjörnum fulltrúum er ætlaður við skipan dómara. Eiga lýðræðislega kjörnir fulltrúar aðeins að vera stimplar á ákvarðanir andlitslausra nefnda sem hafa ekkert lýðræðislegt umboð og sem engri ábyrgð verður komið yfir? Ég fagna ákvörðun umboðsmanns Alþingis um að hefja frumkvæðisrannsókn um þetta efni.