148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:27]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta á þessar umræður hérna í dag. Þær hafa, eins og aðrir hafa nefnt, komið úr margvíslegum áttum. Mig hefur undrað að heyra farið dálítið frjálslega með sannleikann og staðreyndir í ljósi þess að ég sat í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd með sumum sem hér hafa talað, líka í ljósi þess að í kjölfarið á þessari umfjöllun í þinginu fóru stuðningsmenn og fulltrúar síðustu ríkisstjórnar fram, til að mynda hv. þingmenn Viðreisnar, og sögðust hafa komið í veg fyrir að hæfnislisti dómnefndarinnar yrði lagður fram. Þeir kannast síðan ekkert við það að þeir beri ábyrgð á því að tillaga hafi komið frá hæstv. ráðherra sl. sumar eða vor þar sem tekið var meira tillit til kynja, sem ég var reyndar sammála að væri skynsamleg og góð tillaga.

Hér hefur líka margt verið mistúlkað, menn hafa til að mynda fjallað um meinta réttaróvissu, en sú lausn sem hér er lögð til mun ekki leysa úr henni. Hér er einhvern veginn talsvert sett í einhvern pott, hrærigraut, og umræðan verður nokkuð óljós um það hvert þingið er í raun að beina þessari vantrauststillögu og út af hverju.

Ég bíð spenntur eftir atkvæðagreiðslunni. Ég hef ekki breytt um skoðun við það að hlusta á umræðurnar hérna í dag. Ég vísa aftur til þeirrar umræðu sem við tókum í fyrrasumar, þess nefndarálits sem ég skrifaði upp á og þeirra ræðna og skoðana sem við Framsóknarmenn héldum þá fram í þinginu. Ég mun ekki styðja þessa vantrauststillögu. Næsta ræ