148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:47]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fyrir rúmum mánuði mætti breskur ráðherra of seint í fyrirspurnatíma og missti af spurningu sem var beint til hans. Ráðherrann bað um orðið í kjölfarið og lýsti því yfir að hann hefði orðið sjálfum sér og embætti sínu til skammar og baðst lausnar þá þegar. Þetta var afskaplega lítilvægt atriði til að segja af sér út af og afsögninni var hafnað en þetta er glæsilegt dæmi um mann sem setur virðingu fyrir embætti sínu ofar sínum persónulega metnaði.

Það er erfitt að ímynda sér hvernig ráðherrar í öðrum löndum myndu bregðast við ef þau væru dæmd af æðsta dómstól landsins fyrir að brjóta lög á algerlega óafturkræfan hátt. Við getum hins vegar öll gefið okkur að viðbrögðin yrðu annað en valdhroki og þráseta.

Við höfum rakið þetta mál mjög ítarlega, við höfum staðfest að hér var um að ræða meðvitaða ákvörðun dómsmálaráðherra um að brjóta lög. Nú er þingsins að taka afstöðu. Sé það raunverulega markmið okkar að auka virðingu Alþingis er grundvallaratriði að við berum nægilega mikla virðingu fyrir sjálfum okkur til að segja stopp þegar fólk fer illa með völd sín og ábyrgð og ber ekki nægilega mikla virðingu (Forseti hringir.) fyrir embætti sínu til að segja stopp sjálft. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)