148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hafa nú alla vega ein mistök verið viðurkennd í dag og þau voru að treysta hæstv. dómsmálaráðherra á sínum tíma. Nefnt var áðan af fleiri en einum að þetta snerist um ríkisstjórnina og ríkisstjórnarsamstarfið. Ég segi bara: Nei. Það er þess vegna sem þessi tillaga fjallar um hæstv. dómsmálaráðherra en ekki ríkisstjórnina í heild og vonandi útskýrir það undran hæstv. fjármálaráðherra á því að hér sé tillagan um einn tiltekinn ráðherra. Vegna þess að málið snýst um einn tiltekinn ráðherra. Það varpar vonandi ljósi á málið.

Ég get sagt við sjálfan mig: Ég er hæstánægður með ýmsa ráðherra hérna. Mér finnst mjög gleðilegt að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sé hæstvirtur forsætisráðherra. Mér finnst mjög gleðilegt að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sé hæstvirtur heilbrigðisráðherra, mér finnst það mjög gleðilegt, ég er mjög ánægður með það og hlakka til að vinna með þeim í framtíðinni. En framganga hæstv. dómsmálaráðherra er ekki í lagi og við eigum ekki að láta eins og hún sé í lagi.

Mig langar að biðja hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans að ímynda sér eina sekúndu, eða nokkrar sekúndur, að þeir séu í stjórnarandstöðu að horfa upp á þetta og meta málið líka frá því sjónarhorni, bara svona í gamni, þótt ég efist reyndar um að það sé mjög skemmtileg lífsreynsla fyrir hv. þingmenn.