148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

siglingavernd og loftferðir.

263. mál
[17:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. 5. gr. fjallar auðvitað ekki eingöngu um laumufarþega heldur um alla aðila sem brjótast inn á þessi svæði eða hafa ekki heimild til að fara þangað inn. Staðreyndin er einfaldlega sú að önnur ríki taka mjög hart á því ef laumufarþegi finnst um borð í skipi, svo að dæmi sé nefnt, og slíkt gæti haft umtalsverð áhrif og þá ekki eingöngu á skipafélögin heldur á allan útflutning frá útflutningshöfnum á Íslandi eða flugvöllum, komi þetta ítrekað upp. Við erum meðal annars að bregðast við ábendingum um að þessar reglur okkar séu ekki nægilega skýrar og að mikilvægt sé að þær séu skýrar og að samræmi sé á milli loftferða og sjóferða.

Það eru miklir hagsmunir í húfi. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að slík dæmi hafa komið upp og hér er verið að nálgast þetta mál á tiltekinn hátt. Það er sjálfsagt mál og nauðsynlegt að nefndin fari ítarlega ofan í þetta, hvort þetta sé ekki í samræmi við það sem gildir alþjóðlega, sem við viljum meina að sé, og að tekið hafi verið tillit til þess frá framlagningu málsins í fyrra skiptið. Það sneri reyndar aðallega að bakgrunnsupplýsingum en hér er þá búið að taka tillit til þess. Ég tel að frumvarpið eins og það lítur út núna sé mjög sambærilegt við þær reglur og refsiheimildir sem menn hafa í nálægum löndum, að við séum ekki að ganga neitt lengra og alls ekki af neinu tilteknu tilefni eða vegna tiltekinna hópa.