148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[13:44]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég eiginlega áttaði mig ekki almennilega á því af hverju upphafsmaður þessarar umræðu talaði eins og hann talaði. Hann á hvað mestan heiður af því hvað allt hefur vel gengið í þessum málum með þessa banka alla saman. Það sem skiptir okkur máli eru auðvitað hagsmunir almennings og áhættan. Við höfum náð ótrúlegum árangri, ekki síst vegna þess að ríkisstjórn sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stýrði fór í þetta ferli og sem betur fer minnkaði áhættuna með því að taka ekki báða bankana sem framlag, stöðugleikaframlag, heldur bara annan bankanna, Íslandsbanka, og ekki þennan, og tryggja svo í bak og fyrir með afkomuskiptasamningi að ef einhver sérstakur hagnaður verður umfram, sem við gátum ekki séð, fáum við hlutdeild í þeim hagnaði. Þetta finnst mér algjör snilld sem hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson stóð fyrir auðvitað ásamt fleirum. Sú ríkisstjórn stóð sig frábærlega í þessum málum og náði betri árangri heldur en nokkur gat ímyndað sér.

Nú er eiginlega verið að þvæla umræðuna um að við hefðum hugsanlega getað grætt eitthvað meira með því að nýta einhvern forkaupsrétt sem aldrei var virkur. Ég veit ekkert um það. Kannski hefðum við getað grætt meira hefðum við tekið alla áhættuna og keypt bankann eða bara tekið hann til okkar. En mér finnst það ekki áhættunnar virði. Ég held að það hefðu verið stórkostleg mistök. Við erum að fá gífurlega mikla ávöxtun, meiri en við gátum nokkurn tímann vonast til. Nú er umræðan kannski farin að snúast dálítið um það hverjir það eru sem eiga bankann. Eru það vondir eigendur? Ég veit ekkert um það, en við erum þó (Forseti hringir.) með það fyrirkomulag að það er ákveðið stjórnvald sem ákveður hvort eigendur uppfylla skilyrði til þess.