148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

Arion banki.

[13:46]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Lengi hefur margan grunað að það sé eitthvað misjafnt í gangi með Arion banka. Leynd hefur ríkt yfir stöðugleikasamningnum og yfir raunverulegum eigendum Arion banka. Enn einu sinni eykur skortur á gagnsæi á tortryggni og leyndarhyggja dregur úr getu samfélagsins til að uppræta innanmein.

En eftir mikla yfirlegu beinast áhyggjur Pírata að hættunni á eignaundanskotum eða, með leyfi forseta, „tunelování“ á tékknesku. Hugtakið var fundið upp í Tékklandi á tímum kommúnismans vegna þess að þar var bara daglegt brauð að flytja eignir og hagnað út úr fyrirtækjum í þágu meirihlutaeigenda fyrirtækjanna á kostnað minnihlutaeigenda og skattyfirvalda, eins og ríkasta fólkið í blokkinni fái að hirða allt úr sameigninni án eftirmála.

Forseti. Það er galli á stöðugleikasamningnum frá 2015 sem nýta má til þess að hola Arion banka að innan, greiða út arð í formi óskráðra hlutabréfa og skuldabréfa í eigu Arion, bestu bitana á borð við Valitor o.fl. Þegar söluverðmæti bankans er orðið nægilega lítið mun enginn söluhagnaður verða til skiptanna. Þá fær ríkið einfaldlega ekkert í sinn hlut. Og í samningnum er eingöngu talað um arð greiddan í íslenskum krónum.

Fleiri fjármálafyrirtæki hafa séð sér svipaðan leik á borði eins og við sjáum núna með útgreiðslu á hlutabréfum Kviku eða frá VÍS. Þetta væri margfaldur þjófnaður frá almenningi á grundvelli gallaðs samnings og hvort sem þetta var vísvitandi eða ekki er mikilvægt núna að huga að björgunaraðgerðum. Þegar arðgreiðslur til tengdra aðila félagsins og hluthafanna eru annars vegar þarf félagið að greiða út reiðufé, laust fé, taka lán, selja eignir til þriðja aðila til að tryggja að hagsmunir kröfuhafa, svo sem lífeyrissjóða, minnihlutaeigenda eða skattyfirvalda, verði ekki fyrir borð bornir. Það þarf bara að setja skilyrði í lögum um að arður sé greiddur í reiðufé en ekki í eignum félagsins.

Ég hef lagt fram frumvarp sem snýst um að koma í veg fyrir þessa áhættu með því að takmarka útgreiðslu arðs frá fjármálafyrirtækjum við reiðufé í uppgjörsmynt félagsins. Það er algjört grundvallaratriði núna að það nái fram að ganga.