148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[14:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegi forseti. Það eru tvö atriði sem mig langar til að koma inn á í framhaldi af þeim málum sem bryddað hefur verið upp á í fyrri ræðum um þetta mál. Nú skilur aðeins á milli eftir smáhlé á umræðunni. Annars vegar vil ég nefna það sem snýr að vöxtum lána og hvernig þeir myndu þróast í breyttum aðstæðum. Hins vegar langar mig að ræða mál sem ég veit ekki til að hafi verið tekið hér upp áður, þ.e. angi af því, það eru sérstaklega áhrif verðtryggingar á landsbyggðina og þá með svokölluð köld svæði í huga.

Það sem gerst hefur í gegnum áratugina með húsnæðisliðinn jafn sterkan í vísitölunni og raunin er, ef við horfum á langtímatilhneiginguna, er að verðtryggð lán sem fylgja vísitölu neysluverðs hafa hækkað í þeim takti sem við þekkjum á sama tíma og fasteignaverð á köldum svæðum hefur lækkað jafnt og þétt. Tökum bara sem dæmi svæði á Vestfjörðum. Við getum líka tekið Sauðárkrók og Vestmannaeyjar sem dæmi. Flestöll landsbyggðarsvæði hafa verið með miklu lægri virðisaukningu fasteigna á sínu svæði en vísitalan tekur mið af, sem keyrist upp af þróun fasteignaverðs, fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru undirliggjandi fleiri samningar og þróun fasteignaverðs er allt önnur, eins og við þekkjum.

Það hefur síðan orsakað það að eigið fé fjölskyldna, íbúðareigenda og fyrirtækja á landsbyggðinni hefur minnkað. Fasteignaverð hefur staðið í stað að nafnvirði eða jafnvel lækkað, á sama tíma og verðtryggðar skuldir viðkomandi fyrirtækis eða heimilis hækka vegna þróunar fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Það er atriði sem ég held að ætti að koma til sérstakar athugunar því að það hefur haft veruleg áhrif á landsbyggðinni yfir lengri tíma. Okkur ber skylda til að skoða það vel því að ég held að það hafi ekki verið gert með nægilega ígrunduðum hætti eða jafnvel ekki yfir höfuð á fyrri stigum.

Hitt atriðið sem mig langaði að koma inn á í ræðu minni er það sem hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi í andsvari. Það voru áhyggjur hans af því að ef húsnæðisliðurinn yrði tekinn út úr vísitölunni myndu lánveitendur bara hækka vaxtaálagið sem einhverri reiknaðri tölu nemur, hann nefndi 0,5%, til að vega upp á móti þessu.

Hvergi í heiminum er sá verðbréfamarkaður þar sem fjárfestum stendur til boða viðlíka pappír og hér á Íslandi, þar sem sá pappír, það verðbréf sem er algengast og aðgengilegast er verðtryggt lán með raunvöxtum, álagi ofan á verðtryggingu, að meðaltali í námunda við 4% með fyrsta veðrétt í steypu. Slíkur pappír er hvergi til, alla vega ekki í því magni að þetta sé algengasti lánapappírinn sem fjárfestum stendur til boða. Staðreyndin er sú að ef þessi pappír hættir að vera til þá finna fjárfestar sér bara næstbesta pappírinn, því að fjárfestar kaupa auðvitað þann pappír sem þeim hugnast best að vegnum þremur meginatriðum: Það eru vextir, það er áhætta og lengd endurgreiðslutíma. Svo er auðvitað skuldaraáhætta og það allt saman. En þetta eru þessir þrír meginþættir.

Við skulum bara kalla þetta besta pappírinn fyrir fjárfesti. Ef hann er ekki lengur til þá fer fjárfestirinn í næstbesta pappírinn, síðan þann á eftir þangað til eitthvert nýtt jafnvægi myndast. Fjárfestirinn mun ekki stinga þessum peningum undir koddann eða eitthvert annað, þannig virkar lífið bara ekki. Þannig er það ekki í raunheimum. Fjárfestirinn mun alltaf kaupa þann pappír sem hann metur bestan hverju sinni.

Hér á Íslandi er boðið upp á pappír í því magni sem hvergi þekkist heiminum, verðtryggt lán með að jafnaði í námunda við 4% raunvöxtum með veði í fyrsta veðrétti í fasteign. Það er pappír sem fjárfestar erlendis skilja hreinlega ekki að sé til. En þetta er sá algengasti sem boðið er upp á Íslandi.

Þessi tvö atriði vildi ég nefna hér, annars vegar það sem snýr að því að fjárfestar munu áfram leita í besta pappírinn sem þeim stendur til boða, og hins vegar mikilvægi þess að tekin verði til sérstakrar skoðunar þau áhrif sem verðtryggingin hefur haft á eiginfjárstöðu heimila á landsbyggðinni með sérstaka áherslu á köld svæði þar sem fasteignaverð hefur ekki hækkað í neinum takti við þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Þannig hefur eigið féð mjatlast út af þessum svæðum og var orðið sjálfstætt vandamál ofan á önnur byggðavandamál sem hafa á löngum köflum verið mikil víða um landið allt.