148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni kærlega fyrir seinni ræðu hans í þessari umferð. Mig langar að nefna nokkuð sem hann kom inn á í umræðunni án þess að það væri í sjálfu sér rætt af neinni dýpt. Það var mál sem hann velti upp í andsvörum við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson og sneri að afstöðu hv. þingmanns til þess að fella niður alla tolla gagnvart innflutningi. Þá kom hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson inn á það í andsvari við hann hver afstaða hans væri til innflutts vinnuafls af svæðum sem væru t.d. þessi minna þróuðu ríki, í því samhengi að vinnuafl fengi að koma inn á markaðinn á heimamarkaðskjörum, ef ég skildi það rétt, félli sem sagt ekki undir innlenda kjarasamninga. Mér leikur hugur á að vita hvernig það horfir við hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í samanburði við það að erlendri niðurgreiddri matvælaframleiðslu sé sópað, því hv. forseti gerði athugasemd við það í kvöld að ég notaði orðið „dömpað“, inn á markaðinn af niðurgreiddum svæðum á verði sem innlend framleiðsla ætti aldrei möguleika á að keppa við þrátt fyrir umtalsverða niðurgreiðslu.