148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að þetta er tækifæri fyrir okkur til þess að styðja við bágan efnahag þessara landa. Þótt við séum kannski fá og smá þá munar þessi ríki um það, þar sem árstekjur á mann eru kannski örfáir tugir eða jafnvel 100 dollarar, eitthvað slíkt. Það munar náttúrlega um þetta til að lyfta möguleikum þessa fólks til að verða sjálfbjarga. Við skiljum þetta vel vegna þess að við vorum öldum saman undir fjalaketti nýlendukúgunar og vitum hvað frjáls verslun gerði fyrir okkur Íslendinga. Það er kannski þess vegna sem við erum að halda upp á 100 ára fullveldi landsins þetta ár, að frjáls verslun var undirstaðan að því.

Nákvæmlega hvaða lönd þetta eru, ég er ekki með þann lista, hann fylgir ekki með í greinargerðinni. Ég geri mér í hugarlund að þetta séu lönd í Asíu og Afríku. En það er hins vegar forvitnilegt og þegar hv. þingmaður spyr þessarar spurningar þá ætti maður náttúrlega að gera sér það að vinnu að fletta því upp til þess að vera með það algjörlega á hreinu, einnig til þess að fá það á hreint hvaða framleiðsluvörur það eru sem við ætlum að flytja inn.

Hv. þingmaður nefndi að það væru á þessu örfá tollnúmer sem hefðu borið toll, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Svo vill til, þvert á það sem menn hafa haldið fram lengi, að nánast öll landbúnaðarvara hefur verið tollfrí á Íslandi árum saman. Menn hafa bara ekki áttað sig á því og klifað sífellt á því að við séum með ofurtolla á landbúnaðarvörur. Það er bara einfaldlega ekki rétt. (Forseti hringir.) Það eru fleiri, fleiri númer sem hafa verið tollfrjáls árum saman.