148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Svo mikið er víst að ég las eða heyrði fyrir nokkru að næststærsta eða þriðja stærsta, að ég held, mjólkurbú Danaveldis, risinn Arla, er með framleiðslu í öllum skandinavísku löndunum, í Svíþjóð, Noregi og Danmörku a.m.k. Þó að þar séu ekki samkeppnislög í gangi fyrir þessa framleiðslu frekar en hér er þetta 3% fyrirtæki í Danmörku heldur stærra en MS er hér. Þetta 3% fyrirtæki í Danmörku gæti sem best, ef það fengi tækifæri til, mettað markaðinn hér verulega og að öllu leyti ef út í það væri farið.

Auðvitað er það sérstakt áhyggjuefni, sem hv. þingmaður bendir á, sem fram kemur í fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar, að það virðist eiga að festa sauðfjárbændur í viðvarandi fátæktarklafa. Það er hins vegar í sjálfu sér mjög öfugsnúið og meiri háttar markaðsleg mistök að geta ekki gert úr framleiðslu á Íslandi — sem er einstök að gæðum og einstök í veröldinni hvað varðar bragð og slíkt — vörur til útflutnings. Sá sem hér stendur hefur í hyggju að kanna hvað varð um þá 29,3% lækkun sem sauðfjárbændur urðu fyrir síðastliðið haust. Ég sé ekki að sú lækkun hafi komist alla leið á diskinn minn. Ég kem til með að kanna hvað varð um þriðjungslækkunina, eða tæplega það, sem bændum var boðið upp á. Og nú á að festa bændur viðvarandi, að því er virðist, í fátæktargildru.