148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

565. mál
[20:04]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006, með síðari breytingum. Frumvarpið er samið í þeim tilgangi að draga úr hættu á ólögmætri misnotkun sýndarfjár og hindra að tækniframfarir og frumkvöðlastarf sé misnotað í refsiverðum tilgangi. Sú starfsemi sem frumvarpið lýtur að er nú þegar í boði á Íslandi.

Með frumvarpinu er lagt til að þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla og þjónustuveitendur stafrænna veskja verði tilkynningarskyldir aðilar. Jafnframt er lagt til að þessir aðilar verði skráningarskyldir hjá Fjármálaeftirlitinu og lúti eftirliti þess hvað varðar lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fleira.

Með því að fella þessa þjónustuveitendur undir gildissvið laganna sem tilkynningarskylda aðila er þeim gert skylt að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum sínum, tilkynna lögreglu um öll grunsamleg viðskipti og lúta þeim skyldum sem lög um aðgerðir gegn peningaþvætti kveða á um. Með skráningar- og eftirlitsskyldu þessara aðila er tryggt að til staðar sé yfirsýn yfir fjölda þessara þjónustuveitenda og að haft sé eftirlit með því að þeir fylgi ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Þrjár nýjar orðskýringar eru í frumvarpinu. Hugtakið sýndarfé er skilgreint sem hvers konar stafrænt fé sem er hvorki rafeyrir í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris né gjaldmiðill. Þá er hugtakið gjaldmiðill skilgreint, að ég held í fyrsta sinn í íslenskri löggjöf. Hann er skilgreindur sem seðlar, mynt og aðrir gjaldmiðlar sem seðlabankar eða aðrir til þess bærir opinberir aðilar gefa út og er viðurkenndur lögmætur gjaldmiðill. Að lokum er þjónustuveitandi stafrænna veskja enn eitt hugtakið. Það er skilgreint sem einstaklingur eða lögaðili sem býður upp á vörsluþjónustu á auðkennum sýndarfjár, hvort sem er með hugbúnaði, kerfi eða annars konar miðli til að halda utan um, geyma og flytja sýndarfé.

Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að þjónustuveitendur sem frumvarpið nær til hafi einn mánuð frá gildistöku þeirra til að óska eftir skráningu hjá Fjármálaeftirlitinu sem ber að taka afstöðu til umsóknarinnar innan 30 daga. Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum. Lagt er til að þjónustuveitendur sem frumvarp þetta fjallar um greiði árlegt eftirlitsgjald til Fjármálaeftirlitsins að fjárhæð 700.000 kr. en það er sama gjald og gjaldeyrisskiptastöðvar og peninga- og verðmætasendingarþjónustur greiða til eftirlitsins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú þegar gert grein fyrir aðalatriðum þessa frumvarps. Starfsemi sú sem fjallað er um í frumvarpinu er nú þegar í boði á Íslandi og að mínu mati er mikilvægt að bregðast skjótt við til að draga úr hættu á ólögmætri notkun sýndarfjár og hindra að tækniframfarir og frumkvöðlastarf sé notað í refsiverðum tilgangi. Ég vísa að öðru leyti til greinargerðar, athugasemda með frumvarpinu, en legg þá til að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og þóknanlegrar 2. umr. hér í þingsal.