148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:37]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ríkisfjármálaáætlun 2019–2023 sýnir styrkleika efnahagslífsins, að hægt er að auka útgjöld með þeim hætti sem gert er en halda þeim samt sem áður óbreyttum sem hluta af vergri landsframleiðslu. Með öðrum orðum tekur ríkið ekki stærri sneið af þjóðarkökunni. Hún sýnir líka áherslur ríkisstjórnarinnar um að setja aukna fjármuni í heilbrigðiskerfið, til öryrkja og aldraða. Auk þess bætum við töluvert í vegamál og aðrar samgöngur í landinu.

Hún sýnir líka stöðugleika og afkomu ríkissjóðs og allt er það gert án þess að fórna stöðugleika í efnahagsmálum eða því að reka ríkissjóð hallalausan, sem skiptir ekki síst unga fólkið máli til framtíðar. Við erum ekki að safna skuldum heldur að leggja traustari grunn að fjármálum ríkisins til framtíðar. Við erum líka að lækka álögur í landinu og á fyrirtæki. Við styrkjum heimilin í landinu og atvinnulífið.

Þegar litið er í ríkisfjármálaáætlun og við skoðum tölfræðina, hvað stendur á bak við það sem við erum að fara að bæta í í rekstrargjöld, kemur fram að miðað við árið 2017 og út árið 2023 hækkum við útgjöld ríkisins um 19%. Hér er um gífurlega útgjaldaaukningu að ræða og áframhaldandi stöðugleiki er forsenda þess að hún geti gengið upp.

Útgjaldaaukning til velferðarmála er meiri en dæmi eru um hérlendis, sérstaklega í byrjun áætlunar. Ef miðað er við árið 2017 verða rekstrarútgjöld til velferðarmála samtals um 85 milljörðum kr. hærri árið 2023 en í fjárlögum 2017. Það er 78% á heildarhækkun allra málefnasviða og sýnir því glögglega forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þágu velferðarmála. Í fjárhæðum talið hækka framlög til eftirfarandi málefna mest: Til málefna aldraðra hækka framlög um 17,7 milljarða og munar þar langmest um miklar hækkanir í fjárlögum 2018 þegar áhrifin af heildarendurskoðun bóta almannatrygginga komu fram. Fjölgun aldraðra umfram aðra aldurshópa vegur einnig mjög þungt í því samhengi. Gjöld vegna örorku og málefna fatlaðs fólks vega næstþyngst, eru um 17 milljarðar kr., og kemur stór hluti aukningarinnar fram á þessu ári, m.a. vegna mikillar fjölgunar í hópi öryrkja. Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa hækkar um 14,8 milljarða kr. sem skýrist einkum af styrkingu heilsugæslunnar og stórauknum fjárframlögum til sjúkraþjálfunar. Framlög til sjúkrahúsþjónustu hækka um 13,1 milljarð þar sem gert er ráð fyrir hækkun rekstrarframlaga til spítala umfram verðlag. Til viðbótar eru síðan framlög til byggingar á nýjum Landspítala sem gerð er grein fyrir í kafla um fjárfestingar hins opinbera, sem eru nokkuð ítarlegar í ríkisfjármálaáætluninni og ég kem kannski betur inn á á eftir ef tími gefst til.

Hlutfallslega er mesta hækkunin á lyfjakostnaði í áætluninni, eða 66%, sem kemur að langmestu leyti fram strax á fyrsta ári, þ.e. 2018, og skýrist af því að upphafleg áætlunargerð um raunkostnað 2017 og 2018 gekk engan veginn eftir. Hlutfallslega hækka framlög til umhverfismála næstmest, eða um 47%. Kemur hækkunin einkum fram á síðari hluta tímabilsins í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa hækkar um 34% og er það þriðja mesta hækkun bæði í fjárhæðum og sem hlutfall af framlögum ársins 2017.

Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar kemur fram tafla um fjárfestingarstigið, sem er nýtt þar sem í áætluninni er tekið sérstaklega út fjárfestingarstigið á komandi fjárlagaáætlun og gert ráð fyrir fjárfestingum upp á 338 milljarða á tímabilinu. Þar eru töluvert auknar upphæðir settar í samgöngumál og styrkingu samgönguinnviða landsins. Vega þeir um 37% af þeirri upphæð, þ.e. rúmir 124 milljarðar. Þetta er náttúrlega ekki nóg. Það er af nógu að taka. En þetta er þó byrjunin á einhverju og aukning frá því sem hefur verið á síðustu árum. Þess má geta að auðvitað hefur mest af fjármagninu undanfarið farið í velferðarmál, heilbrigðismál og menntamál en við erum að hefja átak í að byggja upp samgönguinnviðina.