148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég vil koma hér aðeins inn á, í seinni ræðu minni, málaflokka sem ekki gafst tími til að tala um í fyrri ræðu. Þá vil ég fyrst víkja að almannatryggingum. Það er jákvætt að ráðast eigi í innleiðingu starfsgetumats og einföldun bótakerfis almannatrygginga. Í fjármálaáætlun er gengið út frá því að hækkun lífeyris almannatrygginga verði einungis á bilinu 3,1% til 4,3% næstu fimm árin. Hér er ansi naumt skammtað að mati 3. minni hluta. Bilið á milli örorkulífeyrisþega og annarra hópa í samfélaginu mun halda áfram að breikka. Því miður. Lágar prósentuhækkanir sem þessar á lágar bætur skila lágum krónutöluhækkunum.

Með fjármálaáætluninni eru lífskjör fólks, eins og öryrkja, sem oft og tíðum býr við fátækt, ekki bætt nægilega að mati minni hluta og er það miður. Boðuð hækkun á bilinu 3,1% til 4,3% fimm ár í röð myndi þýða að óskertur lífeyrir almannatrygginga væri árið 2023 um 278 þús. kr. til 295 þús. kr. á mánuði og þetta eru tölur fyrir skatt. Fyrir síðustu kosningar lofuðu Vinstri grænir „umtalsverðri hækkun lægstu launa“. VG sagði að málið yrði forgangsverkefni í kjarasamningagerð næstu ára og hækkun bóta elli- og örorkulífeyris ætti að fylgja slíkum hækkunum. Hækkanir þær sem ég hef nefnt hér, 3,1% til 4,3%, eru ekki umtalsverðar hækkanir, það sjá allir.

Ekki er hægt að lesa annað út úr fjármálaáætluninni en að hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir og ríkisstjórn hennar hafi ekki í hyggju að leiðrétta kjör örorkulífeyrisþega og tryggja þeim mannsæmandi framfærslu á næstu árum eins og lofað hafði verið.

Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. — Þetta eru kunnugleg orð sem hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir lét falla í september á síðasta ári. Hún skammaði þáverandi ríkisstjórn fyrir að gera ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir hokruðu áfram og byggju við skammarleg kjör. Nú er Katrín Jakobsdóttir sest í stól forsætisráðherra og hefur ákveðið að öryrkjar og aldraðir eigi að bíða áfram eftir réttlætinu næstu fimm árin. Í fjármálaáætlun er lagt mikið kapp á að fleiri örorkulífeyrisþegar geti framfleytt sér sjálfir, að hluta til eða að öllu leyti, með þátttöku á vinnumarkaði. Því er óskiljanlegt hvers vegna ekki er strax ráðist í að afnema krónu á móti krónu skerðingu þar sem slík ráðstöfun mundi hvetja til atvinnuþátttöku auk þess að vera brýnt lýðheilsumál. Ekki er hægt að lesa út úr fjármálaáætluninni að afnema eigi krónu á móti krónu skerðingu á næstu árum.

Herra forseti. Að lokum er það nú þannig, samkvæmt lögum um opinber fjármál, að fjármálaáætlun á að sýna markmið, mælikvarða og aðgerðir á greinargóðan hátt. Það gerir hún hins vegar ekki nægilega vel að mati 3. minni hluta. Það er mikill annmarki að fjármálaáætlun er ekki sett fram með nægilega sundurgreindum hætti. Þetta hefur komið fram hjá, held ég, öllum í minni hluta fjárlaganefndar. Hún er því ekki gagnsæ þótt það sé eitt af þeim grunngildum sem hún á að vera unnin út frá og þrátt fyrir að hana eigi að setja fram í þeim anda. Erfitt er að fá upplýsingar sem liggja að baki þeim tölum sem áætlaðar eru fyrir hvern málaflokk og hvert svið. Ógagnsæi ríkir milli innviðafjáfestinga og annarra fjárfestinga.

Hins vegar má finna jákvæða punkta í áætluninni eins og niðurgreiðslu skulda. Með niðurgreiðslu skulda dregur úr vaxtagreiðslum ríkissjóðs. Átak í samgöngumálum og aukning til heilbrigðismála er að sama skapi jákvæð. Ekki er hins vegar tekið á því neyðarástandi sem ríkir í húsnæðismálum þjóðarinnar auk þess sem brýn þörf er á hækkun barna- og húsnæðisbóta. Afnema þarf krónu á móti krónu skerðingu sem viðgengst eins og ég nefndi áður.

Mönnun í heilbrigðisgeiranum er stórt mál. Innan fjármálaáætlunar er ekki að finna neinar lausnir á þeim vanda. (Forseti hringir.) Áætlunin ber þess merki að mati 3. minni hluta að stjórnvöld vita ekki hvert stefnt er í heilbrigðismálum. Forsendur fjármálaáætlunar eru byggðar á óraunsærri bjartsýni (Forseti hringir.) að mati 3. minni hluta á þróun efnahagsmála til næstu fimm ára. Í áætluninni (Forseti hringir.) er verið að búa til væntingar um fjárútlát sem síðan gæti reynst erfitt að standa við.