148. löggjafarþing — 71. fundur,  8. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:02]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Það skortir gríðarlega á að áherslumál sjúkrahúsanna séu viðurkennd. Þróun eftirspurnar er með öllu ófjármögnuð. Hvorki Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri né öðrum heilbrigðisstofnunum er gert kleift að bregðast við aðstæðum eða verkefnum og stöðugt vaxandi kröfum. Það sem við blasir er áframhaldandi samdráttur hjá heilbrigðisstofnunum, undanhald en ekki uppbygging. Ekkert í fjármálaáætluninni bendir til bata í heilsugæslunni á landsbyggðinni. Það er mat stjórnenda að það vanti að minnsta kosti 1.500 milljónir til að hægt verði að standa við yfirlýsingar um viðsnúning og uppbyggingu á tímabilinu. Ríkisstjórnin lofar 550 nýjum hjúkrunarrýmum á gildistíma áætlunarinnar. Þau rými eru ekki fjármögnuð. Þeim mun ekki fjölga um nema í besta falli 150 ef áætlunin gengur eftir. Það er á þessu sviði, eins og svo mörgum öðrum, verið er að slá ryki í augu almennings. Þetta getum við ekki stutt og leggjum þess vegna fram þessa breytingartillögu.