Af hverju 19. júní?

Þann 19. júní 1915 undirritaði Kristján X. konungur lög um breytingu á stjórnarskrá Íslands sem m.a. færðu konum 40 ára og eldri kosningarétt til Alþingis. Íslenskar konur fögnuðu þessum tímamótum með hátíðarhöldum í Reykjavík þann 7. júlí, sama dag og Alþingi kom saman til fundar. Konur héldu upp á kosningaréttinn með hátíðarhöldum 19. júní 1916 og mörg ár þar á eftir enda er dagurinn iðulega nefndur kvenréttindadagurinn.

Hátíðarhöld við Alþingishúsið 19. júní 1919

©Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Magnús Ólafsson

Birting, gildistaka og auglýsing laganna

Í umræðum um 100 ára afmælið hefur komið fram sú gagnrýni að 19. júní sé ekki rétti dagurinn til halda upp á þessi tímamót og hafa ýmsar aðrar dagsetningar verið nefndar. Stjórnskipunarlögin sem færðu konum kosningarrétt voru birt í A-deild Stjórnartíðinda 19. júní 1915 og í B-deild Stjórnartíðinda 27. október 1915 var auglýsing um birtingu þeirra í samræmi við ákvæði laga nr. 11/1877, um birtingu laga og tilskipana. Lögin tóku gildi 19. janúar 1916, þ.e. að liðnum 12 vikum frá birtingu auglýsingarinnar.

Breyting á lögum um kosningar til Alþingis

Samtímis stjórnskipunarlögunum var lögum um kosningar til alþingis breytt en breyting þeirra laga var nauðsynleg þannig að hægt væri að kjósa eftir nýjum stjórnskipunarlögum í kosningunum 1916. Auglýsing um kosningalögin var birt í B-deild Stjórnartíðinda 5. nóvember 1915 og tóku lögin gildi 28. janúar 1916.

Kosningar 1916

Kosningar til Alþingis fóru fram 5. ágúst 1916. Það voru landþingskosningar, síðar nefnt landskjör, en þá voru kosnir sex þingmenn til setu í efri deild þingsins, í staðinn fyrir konungkjörna þingmenn. Var landið eitt kjördæmi og kosningaréttur miðaðist við 35 ár. Almennar þingkosningar voru síðan haldnar 21. október 1916. Það var síðan við landþingskosningarnar 8. júlí 1922 að fyrsta konan, Ingibjörg H. Bjarnason var kosin á Alþingi. Þingið kom saman 15. febrúar 1923, og var þá kona í fyrsta sinn á meðal þingmanna.

Staðfesting laga 19. júní

Þegar vitnað er til laga frá fyrri tíð í ritum um sögu Íslands er yfirleitt vitnað til þeirrar dagsetningar þegar konungur staðfesti lögin þó vitað sé að það var ekki dagurinn sem þau tóku gildi. Þetta er iðulega gert enn í dag með tilvísun til númers laga og/eða þeirrar dagsetningar þegar lögin eru birt í Stjórnartíðindum, en ekki hvenær þau taka gildi.