19.1.2016

Minningarorð um Málmfríði Sigurðardóttur

Málmfríður Sigurðardóttir, fyrrverandi alþingismaður, lést á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri 28. desember sl., á 89. aldursári.

Málmfríður var fædd á Arnarvatni í Mývatnssveit 30. mars 1927. Foreldrar hennar voru skáldið, kennarinn og bóndinn Sigurður Jónsson frá Arnarvatni og síðari kona hans, Hólmfríður Pétursdóttir húsfreyja, ættuð frá Gautlöndum, mikil kvenréttindakona, en bæði faðir hennar, Pétur Jónsson ráðherra, og afi, Jón Sigurðsson, voru alþingismenn. Og fleira var um alþingismenn og stjórnmálamenn í ættum Málmfríðar.

Skólaganga Málmfríðar Sigurðardóttur varð ekki löng, fremur en flestra kynsystra hennar á þeim tíma er hún ólst upp, en hún lauk Kvennaskólaprófi í Reykjavík árið 1947. Þegar ári síðar varð hún húsmóðir á Jaðri í Reykjadal og þar ól hún upp börn sín sjö. Hún var síðar ráðskona á sumrum hjá Vegagerð ríkisins og vann svo á Kristnesspítala allt þar til hún settist á þing 1987. Jafnframt hafði hún verið kennari við grunnskóla Reykdæla um árabil.

Málmfríður Sigurðardóttir hafði ekki að ráði afskipti af stjórnmálum á yngri árum sínum, var þó einu sinni á framboðslista Alþýðubandalagsins. En réttindabarátta kvenna lá henni þungt á hjarta og hún gekk baráttuglöð til liðs við hreyfingu kvenna þegar þær buðu fram í alþingiskosningunum árið 1983. Hún var þá efst á lista Samtaka um kvennalista í Norðurlandskjördæmi eystra og settist tvívegis á þing sem varamaður á því kjörtímabili sem í hönd fór. Í kosningunum 1987, þegar Samtökin fengu mikinn meðbyr, hlaut hún fast þingsæti. Hún sat á 6 löggjafarþingum alls. Skömmu eftir að þingsetu hennar lauk varð hún bókavörður við Amtsbókasafnið á Akureyri og gegndi þeim starfa til starfsloka, 2001. Þar naut sín víðtæk þekking hennar á bókum og bókmenntum, ásamt þeirri lipurð og vinsemd sem hún ætíð sýndi samferðarfólki sínu.

Á vettvangi Alþingis var Málmfríður lengst fulltrúi síns flokks í fjárveitinganefnd. Hún átti sæti í Vestnorræna þingmannaráðinu, var skrifari í Sameinuðu þingi og var formaður síns þingflokks síðasta þingveturinn, 1990–1991. Þingmál hennar og umræðuefni voru jafnréttismál, félagsmál, byggðamál og málefni heimavinnandi húsmæðra.

Málmfríður Sigurðardóttir var lífsreynd kona þegar hún settist á þing, sextug að aldri og þá orðin þjóðþekkt úr spurningaþáttum fyrir fróðleik sinn og ótrúlegt minni. Íslensk menning og saga voru í hávegum höfð á æskuslóðum Málmfríðar og mótuðu lífsviðhorf hennar ævilangt. Hún sýndi fádæma dugnað sem húsfreyja í sveit þar sem gestkvæmt var við þjóðbrautina í Reykjadal. Hún gekk á löngum vinnudögum til allra verka á búinu og sinnti jafnframt vinnu utan heimilis. Konur sáu í henni verðugan fulltrúa sinna sjónarmiða og reynslu þegar leitað var forustumanns í kjördæminu til þingsetu. Þeim trúnaði brást hún ekki, og hér á Alþingi naut hún virðingar allra fyrir hófsemi í málflutningi, sanngirni og góðvild. Hún var glaðleg kona, hlý og traust.

Ég bið þingheim að minnast Málmfríðar Sigurðardóttur, fyrrverandi alþingismanns, með því að rísa úr sætum.