24.2.2011

Minningarorð um Karvel Pálmason, fyrrverandi alþingismann

Karvel Pálmason, fyrrverandi alþingismaður, lést í gærmorgun, 23. febrúar, á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Hann var á 75. aldursári.

Karvel Pálmason var fæddur í Bolungarvík 13. júlí 1936. Foreldrar hans voru Pálmi Árni Karvelsson sjómaður og Jónína Eggertína Jóelsdóttir ráðskona. Að loknu námi í unglingaskóla í Bolungarvík fór Karvel, 14 ára gamall, á sjó og stundaði sjómennsku í átta ár. Hann var um tíma verkamaður í Bolungarvík en varð árið 1972 lögregluþjónn þar og jafnframt kennari við barna- og unglingaskólann. Hann var vinsæll í störfum sínum og metnaðarfullur og bætti sér upp skamma skólagöngu með sumarnámskeiðum og sjálfsnámi.

Karvel Pálmason var virkur í félagslífi Bolvíkinga, m.a. í leiklist og kórstarfi, en hann hafði fallega söngrödd. Rúmlega tvítugur varð hann formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur og kjörinn í hreppsnefnd Hólshrepps 1962 og sat þar í tvö kjörtímabil. Hann átti síðar sæti í ýmsum nefndum og ráðum sem ekki verða talin hér, en var lengi í forustu launþegasamtaka, m.a. varaforseti Alþýðusambands Vestfjarða, í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og um skeið varaformaður Verkamannasambands Íslands. Sem forustumaður launamanna í sveitarfélaginu naut hann mikils trausts félagsmanna og jafnframt virðingar fyrir einurð sína og orðheldni hjá þeim sem hann samdi við. Það skilaði félagi hans oft hagstæðari samningum en aðrir fengu.

Eftir allfrægan kosningasigur Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna vorið 1971, einkum á Vestfjörðum, varð Karvel Pálmason landskjörinn alþingismaður fyrir það kjördæmi. Hann sat á Alþingi til ársins 1991, að undanskildum árunum 1978-79. Frá árinu 1979 var hann á framboðslista Alþýðuflokksins í kjördæminu, ýmist í fyrsta eða öðru sæti. Hann sat á 20 þingum alls. Hann var 1. varaforseti neðri deildar 1984-1986 og formaður þingflokks Samtaka frjálslyndra og vinstri manna 1974-1978.

Karvel Pálmason var vaskur maður, jafnan glaður og reifur, og gamansamur í samskiptum við samstarfsfólk. Hann reyndist dugmikill þingmaður og ræktaði gott samband við kjósendur sína. Mest beitti hann sér í sjávarútvegsmálum, samgöngumálum og byggðamálum, og öðrum þeim málum sem vörðuðu hag þess kjördæmis þar sem hann var kosinn. Hann gekk þegar í upphafi þingmennsku sinnar ódeigur til starfa þótt hann hafi ekki stefnt hingað sem ungur maður eða átt sér á þeim tíma drauma um frama í stjórnmálum. Það varð hans hlutskipti eigi að síður og undir því reis hann með sóma.

Er Karvel var um fimmtugt veiktist hann og gekkst undir mikla skurðaðgerð en náði aldrei fullri heilsu á ný. Er hann lét af þingmennsku 1991 hvarf hann á ný á heimaslóðir sínar í Bolungarvík. Hann sinnti áfram opinberum málum, var m.a. í stjórn Byggðastofnunar í fjögur ár og enn fremur um alllangt skeið í flugráði. Að öðru leyti fékkst hann við smíðar, enda hagleiksmaður í þeim efnum. Naut hann þess að hafa hjá sér í „Kallastofu“ vini sína og samferðarmenn til að ræða um landsins gagn og nauðsynjar og glettast við þá.

Ég bið þingheim að minnast Karvels Pálmasonar með því að rísa úr sætum.