15.2.2013

90 ár frá því að fyrsta konan tók sæti á Alþingi

Forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, minntist þess við upphaf þingfundar að í dag, 15. febrúar, eru liðin rétt 90 ár frá því að fyrsta konan, Ingibjörg H. Bjarnason skólastjóri, tók sæti á Alþingi. Í ávarpi sínu sagði þingforseti:

Í dag, 15. febrúar, eru liðin rétt 90 ár frá því að fyrsta konan, Ingibjörg H. Bjarnason skólastjóri, gekk inn í þennan sal sem kjörinn alþingismaður.

35. löggjafarþing var sett fimmtudaginn 15. febrúar 1923. Fjórum dögum síðar var kjörbréf Ingibjargar samþykkt og hún vann eið að stjórnarskránni. Ingibjörg H. Bjarnason var kjörin á Alþingi í landskjöri sumarið áður, 8. júlí 1922.

Í framsöguræðu sinni fyrir áliti kjörbréfanefndar sagði Jóhannes Jóhannesson m.a.:

„Þetta verður í fyrsta sinn sem kona tekur sæti á Alþingi, og ég vil láta í ljós gleði mína fyrir þeim atburði. Ég óska háttv. 6. landskjörnum þingmanni, Ingibjörgu H. Bjarnason, farsældar og ánægju í starfi sínu og þess að hluttaka kvenna í löggjafarstarfinu megi verða landi og lýð til blessunar.“

Nú, 90 árum síðar, getum við með fullri vissu sagt að sú ósk framsögumannsins hafi sannarlega ræst.

Í tilefni þessa dags er á veggnum hér fyrir aftan forseta málverk eftir Gunnlaug Blöndal í eigu Alþingis af Ingibjörgu H. Bjarnason.
Íslenskum konum óska ég til hamingju með daginn og raunar Íslendingum öllum.