28.2.2017

Skipan ráðgefandi siðanefndar

Forsætisnefnd Alþingis hefur gengið frá skipan þriggja manna ráðgefandi nefndar sem tekur til meðferðar erindi sem forsætisnefnd beinir til hennar um meint brot á siðareglum fyrir alþingismenn, sbr. ályktun Alþingis nr. 23/145. Nefndina skipa, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrv. forseti Alþingis, sem er formaður nefndarinnar, Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og lektor í heimspeki við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Skipunartími nefndarinnar er fimm ár.

Nefndinni er ætlað að láta í ljós álit sitt á því hvort þingmaður hafi með hátterni sínu brotið gegn hátternisskyldum sínum og meginreglum um hátterni, sbr. 5. gr. siðareglna fyrir alþingismenn.

Nefndin er forsætisnefnd jafnframt til ráðgjafar um öll málefni sem falla undir reglur þessar og aðstæður sem upp kunna að koma við framkvæmd þeirra.

Forseti Alþingis gerir tillögu um formann nefndarinnar og skal hann hafa þekkingu á störfum Alþingis og alþingismanna. Tveir nefndarmenn skulu tilnefndir af samstarfsnefnd háskólastigsins. Skal annar þeirra hafa embættis- eða meistarapróf í lögfræði og hinn hafa meistarapróf í heimspeki eða hagnýtri siðfræði og þekkingu á siðareglum.