Stjórnsýsla og framkvæmd alþingiskosninga

Vinnuhópnum er ætlað að taka sérstaklega til athugunar hvort fela megi stjórnvaldi á landsvísu, hliðstæðu og landskjörstjórn, aukið hlutverk við yfirstjórn gagnvart staðbundnum stjórnvöldum eins og yfirkjörstjórnum kjördæma. Sömu kjörstjórnir eru við kosningar til Alþingis, framboð og kjör forseta Íslands og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Landskjörstjórn og yfirkjörstjórnir eru kosnar af Alþingi og eru sjálfstæðar í störfum sínum samkvæmt kosningalögum. Með slíku fyrirkomulagi er ekki hægt að tryggja að sama framkvæmd verði í einstökum kjördæmum þegar kemur til dæmis að mati á gildi atkvæða við talningu og hversu langan tíma framboð skuli fá til að bæta úr göllum á framboðslista ef yfirkjörstjórn telur svo vera. Sama er uppi á teningnum þegar kemur að fyrirmælum yfirkjörstjórna við dreifingu atkvæðaseðla og annarra kjörgagna til undirkjörstjórna og hvernig undirkjörstjórnir skuli standa að sendingum atkvæðakassa til talningar hjá yfirkjörstjórnum að loknum kjörfundi. Þá hefur þetta fyrirkomulag orðið til þess að engar samræmdar leiðbeiningar hafa verið gefnar út hér á landi, t.d. hvað varðar almenna fræðslu og þjálfun kjörstjórnarfólks. Að mörgu leyti má segja að sama eigi við um kosningar til sveitarstjórna.

Vinnuhópnum er ætlað að leggja fram tillögur sem miðað gætu að því að tryggja frekari stöðugleika og koma á betri samræmingu við framkvæmd kosninga.