Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 481. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 735  —  481. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um helgidagafrið, nr. 32 14. maí 1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: Gististarfsemi og tengd þjónusta, starfsemi lyfjabúða, bensínstöðva, bifreiðastöðva, verslana á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, blómaverslana, söluturna og myndbandaleigna, svo og starfsemi matvöruverslana með verslunarrými undir 600 fermetrum þar sem a.m.k. 2/ 3hluti veltunnar er sala á matvælum, drykkjarvöru og tóbaki.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem dómsmálaráðherra skipaði hinn 1. júní 2004 til að ræða álitaefni er snerta lög um helgidagafrið, nr. 32 14. maí 1997. Nefndin var skipuð í tilefni umræðna sem hafa verið um þróun helgidagahalds, og þá sérstaklega um afgreiðslutíma verslana á hvítasunnudag. Nefndarmenn voru séra Kristján Valur Ingólfsson, tilnefndur af Biskupsstofu, Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, tilnefndur af þeim samtökum, og Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, og var hún jafnframt formaður nefndarinnar. Í frumvarpinu er lagt til að matvöruverslunum, sem uppfylla ákveðin skilyrði, verði heimilt að hafa opið föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag.
    Lög um helgidagafrið frá 1997 komu í stað laga um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar, nr. 45 15. júní 1926. Í lögunum er starfsemi markaða og verslunarstarfsemi bönnuð föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag, sbr. b-lið 2. tölul. 4. gr. laganna. Undantekningar frá þessu banni má finna í 1. mgr. 5. gr. laganna, og voru það nýmæli. Þannig er heimil þessa daga starfsemi lyfjabúða, bensínstöðva, bifreiðastöðva, verslana á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, blómaverslana, söluturna og myndbandaleigna, svo og gististarfsemi og tengd þjónusta, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna. Með þessu ákvæði var leitast við, sbr. það sem fram kemur í greinargerð í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 32/1997, að koma til móts við það sjónarmið að unnt yrði að bjóða ferðamönnum ýmsa nauðsynlega þjónustu án tillits til helgidagafriðar. Markmiðið væri eingöngu að þjónustuaðilum yrði gert mögulegt að sinna ýmissi grunnþjónustu, þar með talið við ferðamenn, á þessum hátíðardögum. Ákvæðinu yrði ekki beitt til að hafa almennar verslanir eða þjónustustarfsemi opna þessa daga, svo sem matvöruverslanir, fataverslanir o.s.frv.
    Verslunarrekstur er í örri þróun og verða skilin á milli einstakra tegunda verslana æ óskýrari. Þannig er matvara nú á boðstólum í bensínstöðvum og jafnvel blómabúðum og lyfjaverslanir selja varning af ýmsu tagi. Á landsbyggðinni eru þónokkrir staðir þar sem margar tegundir verslunarstarfsemi sameinast undir einu þaki: Bensínstöð, matvöruverslun, söluturn og jafnvel myndbandaleiga. Þessar þjónustumiðstöðvar starfa í senn í þágu heimafólks og ferðamanna. Sömu ferðamenn geta hins vegar ekki keypt matvöru í verslunum í þéttbýli á umræddum helgidögum og gildir hið sama um heimafólk í þéttbýli. Ljóst er að ekki ríkir við núverandi aðstæður jafnræði meðal þeirra sem bjóða til sölu matvöru eða vilja kaupa hana og miðar frumvarpið að því að hindra að aðsetur verslana eða þjónustumiðstöðva leiði til þessa ójafnræðis. Frumvarpið raskar á engan hátt meginreglu laga um helgidagafrið. Markmið þess er einungis að jafna stöðu þeirra sem selja og kaupa matvöru á fyrrnefndum helgidögum. Til að ná því markmiði eru þrjár leiðir: að banna sölu matvöru föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag; heimila alla verslunarstarfsemi á þessum dögum, eða leið frumvarpsins, að heimila verslunum, sem uppfylla tiltekin skilyrði, að selja matvöru án tillits til þess, hvar þær eru á landinu.
    Af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er lögð rík áhersla á að ekki eigi að draga úr helgi hvítasunnudags eða setja hann í annan flokk samkvæmt helgidagalöggjöfinni.
    Kirkjuþing hefur fjallað um frumvarpið og gerir engar athugasemdir við það.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að starfsemi matvöruverslana, sem uppfylla ákveðin skilyrði, verði heimiluð föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag. Sú viðmiðun, sem hér er lögð til, þ.e. að undanþágan nái til starfsemi matvöruverslana með verslunarrými undir 600 fermetrum þar sem að minnsta kosti tveir þriðju hlutar veltunnar er sala á matvælum, drykkjarvöru og tóbaki, byggist að stofni til á skilgreiningu flokks 52.11.2 í Íslenskri atvinnugreinaflokkun (ÍSAT), gefinni út af Hagstofunni, að fermetrafjölda verslunarrýmis undantöldum. Tekið skal fram að með hugtakinu verslunarrými er átt við sjálft sölurýmið, en ekki lager, skrifstofu o.fl.
    Markmið reglunnar er að verslanir, þar sem helsti söluvarningur er matvörur, geti verið opnar umrædda helgidaga á grundvelli þeirra sjónarmiða, sem rakin eru í almennum athugasemdum hér að framan. Undanþágan nái ekki til stórmarkaða, enda mundu slíkar verslanir ekki uppfylla skilyrði þau sem að framan getur.
    Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli reyndist ekki unnt að fá lista yfir þær verslanir sem munu uppfylla skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna til að mega hafa opið, ef frumvarpið verður að lögum, en samkvæmt upplýsingum frá Samtökum verslunar og þjónustu mundi undanþágan ná til helstu matvöruverslana í þéttbýli, sem ekki eru stórmarkaðir.
    Hvað varðar þau skilyrði sem hér eru tiltekin skal tekið fram að slíkar takmarkanir eru alls ekki óþekktar meðal nágrannaríkjanna. Í Noregi er gengið lengra en lagt er til í frumvarpi þessu og sett skilyrði um að söluturn eða matvöruverslun, sem sé heimilt að hafa opið á helgidögum, hafi ekki sölurými yfir 100 fermetrum, sbr. breytingu sem gerð var árið 2003 á lögum um helgidaga og helgidagafrið (lov om helligdager og helligdagsfred, 1995).
    Í Danmörku er einnig meginreglan sú að verslanir skulu hafa lokað á helgidögum, sbr. lov om butikstid frá árinu 2000. Undanþegin er sala á nánar tilteknum vöruflokkum og búðir sem þjóna ferðamönnum. Það gildir einnig um verslanir þar sem heildarveltan fer ekki yfir tiltekin mörk (23 millj. dkr.). Þá er heimilt að veita sérstaka undanþágu fyrir matvöruverslanir í dreifbýli.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 32/1997, um helgidagafrið.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að starfsemi matvöruverslana sem uppfylla tiltekin skilyrði, svo sem að verslunarrými sé undir 600 fermetrum, verði ekki lengur bönnuð föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.