Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 86. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 86  —  86. mál.




Frumvarp til laga



um breytingar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, með síðari breytingum.

Flm.: Magnús Þór Hafsteinsson.



1. gr.

    Við síðari málslið 1. mgr. 18. gr. laganna bætist: eða að þeim stafi ógn af öðrum tegundum dýra sem óheimilt er að sleppa í villta náttúru en hafa myndað stofn á búsvæði þeirra.

2. gr.

    Lögin öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að ráðherra verði heimilt að kveða á um sértæka friðun og aukna vernd friðaðra stofna villtra fugla og spendýra ef þeim stafar ógn af öðrum tegundum dýra sem óheimilt er að sleppa í villta náttúru en hafa myndað stofn á búsvæði þeirra.
    Samkvæmt 2. gr. laga um innflutning dýra, nr. 54/1990, er óheimilt að flytja dýr inn til landsins nema með sérstöku leyfi ráðherra og að fyrir liggi meðmæli yfirdýralæknis. Þá er óheimilt að sleppa innfluttum dýrum í villta náttúru nema með sérstöku leyfi umhverfisráðherra, sbr. 41. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Kanínur hafa verið fluttar inn til Íslands og verið ræktaðar vegna ullarinnar og kjötsins auk þess sem þær hafa einnig verið vinsælar sem gæludýr. Með hlýnandi veðurfari hafa kanínur sem sloppið hafa út í náttúruna náð að lifa veturna af og mynda stofn hér á landi, t.d. í Öskjuhlíðinni og í Vestmannaeyjum.
    Eyjarnar umhverfis Íslands, t.a.m. Vestmannaeyjar, njóta nokkurrar sérstöðu sem búsvæði fyrir sjófugla. Við eyjarnar eru auðug fiskimið og grónar brekkur við bratta hamra sem mynda kjörið búsvæði fyrir lundann, sem er friðaður. Þá eru eyjarnar einangraðar og hefur lundinn því átt auðvelt uppdráttar á svæðinu þar sem rándýr eins og minnkar og refir eru ekki þar. Ekki er heldur mikið um vargfugl á borð við skúm eða kjóa þar sem þeir verpa ekki í eyjunum. Samkvæmt 17. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum getur ráðherra aflétt friðun lundans og heimilað veiðar á tímabilinu frá 1. september til 10. maí ár hvert og hefur lundaveiði verið stunduð í Vestmannaeyjum í gegnum árin. Síðustu ár hefur ný ógn steðjað að lundanum þar sem kanínur hafa náð að mynda stofn sem hefur aðlagast umhverfinu á Heimaey, m.a. með því að nýta lundaholur til hýbýlis, breyta þeim, stækka og sameina. Þær hafa ekki eingöngu neikvæð áhrif á lundabyggðina í Heimaey með því að veita lundanum samkeppni um búsvæði heldur einnig á gróðurþekju og jarðveg. Kanínur naga rætur grass inni í lundaholunum sem ásamt venjulegri beit getur haft þær afleiðingar að festan í jarðveginum hverfur svo að hætta eykst á jarðskriði.
    Talið er að heildarstofnstærð lundans sé um 15 milljónir fugla og að íslenski stofninn sé um 60% af honum, eða um 9 milljónir fugla. Þar af eru um 2–3 milljónir varpfugla og eru um 1,5 milljónir þeirra í Vestmannaeyjum. Lundastofninn í Vestmanneyjum er einn stærsti fuglastofn Íslands. Lundinn er sjófugl og tilheyrir ætt svartfugla. Hann lifir aðallega á sandsíli og loðnu. Hann er farfugl og kemur á íslenskar varpstöðvar í lok apríl eftir vetrarlanga dvöl á rúmsjó. Þá finnur hann maka sinn sem í langflestum tilfellum er sá sami ár eftir ár og holu sína sem einnig er sú sama ár eftir ár. Hann verpir einu eggi um miðjan maí sem klekst út eftir 40 daga og er unginn fleygur og fer úr holunni um miðjan ágúst. Rannsóknir sýna að fjórðungur varptilrauna mistekst ár hvert í lundabyggð og um 65% þeirra pysja sem komast á legg ná ekki kynþroskaaldri fyrr en eftir fimm ár.
    Kanínan er félagsdýr sem lifir gjarnan í stórum byggðum neðan jarðar sem lýsa má sem völundarhúsi með mismunandi göngum, hólfum og herbergjum sem geta náð um 30–60 cm lofthæð. Hún lifir aðallega á grasi og öðru jurtakenndu, svo sem rótum, trjáberki og plöntum. Í Norður-Evrópu fær hún fang um fimm sinnum á ári, frá febrúar til september, og oftar ef aðstæður leyfa og eru allt frá 5–12 ungar í hverju goti. Kvendýr getur fengið fang allt frá sex mánaða aldri. Kanínur geta náð 10 ára aldri í villtri náttúru. Erlendis eru fjölmörg dæmi um að kanínur hafi orðið að plágu þar sem þær hafa sloppið út í náttúruna, t.d. í Ástralíu þar sem þær hafa keppt um fæðu og búsvæði við lítil og meðalstór pokadýr, t.a.m. „macrotis lagotis“ sem er tegund í útrýmingarhættu og „bettongia leseur“ sem nú er útdauð á meginlandi Ástralíu. Þá hefur rándýrum þar sem lifa á kanínum fjölgað mjög og í árum þegar kanínustofninn hefur verið í lágmarki hafa þau lagst á önnur dýr sem fjölga sér mun hægar.
    Talið er að kanínustofninn í Vestmannaeyjum telji nú um 300–500 dýr en honum hefur verið haldið nokkuð í skefjum. Kanínur finnast víða á eyjunum en hafast mest við í lundabyggðinni í Sæfjalli. Í rannsóknarverkefni frá febrúar 2004, sem Freydís Vigfúsdóttir vann um áfhrif kanína á lundabyggð í Sæfjalli á Heimaey, kemur fram að lundaholur í Sæfjalli skiptust þannig að 16% þeirra voru enn lundaholur, 10% voru orðnar kanínuholur, nýjar holur voru 10% og óvirkar lundaholur eru 64% samanborið við Stórhöfða sem er kanínulaust svæði en þar voru lundaholur 64%, nýjar holur 32% og óvirkar holur einungis 4%. Bendir munurinn á óvirku holunum til þess að viðvera kanínanna hafi neikvæð áhrif á búsetu lundans á svæðinu.
    Samkvæmt 18. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, sem bætt var við lögin með lögum nr. 94/2004, er ráðherra heimilt, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög eftir því sem við á og að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, að kveða á um sértæka friðun villra fugla og spendýra með reglugerð ef brýn ástæða er til. Ákvæðin um sértæka friðun voru sett með breytingarlögunum. Í greinargerð með þeim kemur fram að ætlunin hafi verið að kveða á um frekari vernd tegunda sem eru alfriðaðar samkvæmt lögunum. Í nefndaráliti umhverfisnefndar sem fjallaði um málið kemur fram að með breytingunum sé verið að auka heimildir til að bregðast við stækkandi stofnum villtra dýra sem flust hafa til landsins af manna völdum. Í reglugerðinni er ráðherra heimilt að kveða á um að strangari reglur gildi um búsvæði þessara tegunda ef sýnt þykir að tegundunum stafi sérstök ógn af mannaferðum eða umferð eða þær séu sérstaklega viðkvæmar fyrir hnjaski.
    Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði skýrt á um það í 18. gr. laganna að ráðherra sé einnig heimilt að kveða á um aukna vernd ef friðuðum stofnum stafar ógn af öðrum tegundum dýra sem óheimilt er að sleppa í villta náttúru en hafa myndað stofn á búsvæði þeirra. Markmiðið með frumvarpinu er að vernda hina villtu og viðkvæmu íslensku náttúru og koma í veg fyrir að t.d. kanínur, sem eru aðskotadýr þar, fjölgi sér á kostnað dýrategunda sem lifað hafa í einangrun á eyjunum umhverfis Ísland um aldir eins og lundinn hefur gert, t.d. í Vestmannaeyjum. Flutningsmaður telur að sýnt hafi verið fram á það í fyrrnefndu rannsóknarverkefni að verði ekkert gert geti búseta lundans, sérstaklega í Heimaey í Vestmannaeyjum, verið í hættu ásamt aukinni hættu á gróðureyðingu vegna skriðuhættu. Þá telur flutningsmaður enn fremur nauðsynlegt að farið verði út í sértækar aðgerðir samhliða friðuninni til þess að útrýma eða hamla frekari fjölgun kanína í Vestmannaeyjum á kostnað lundans.