Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 409. máls.

Þskj. 693  —  409. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)



1. gr.

    Í stað orðanna „þeim sem annast skiptastjórn þrotabús fjármálafyrirtækis“ í 3. mgr. 9. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 129/2008, kemur: bráðabirgðastjórn, slitastjórn við slitameðferð fjármálafyrirtækis eða skiptastjóra við gjaldþrotaskipti á búi þess.

2. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „103. gr.“ í niðurlagi 4. mgr. 63. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2004, kemur: 103. gr. a.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 98. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                  Hafi fjármálafyrirtæki verið veitt heimild til greiðslustöðvunar er nægilegt að birta fundarboð skv. 2. mgr. 13. gr. og 5. mgr. 17. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. með auglýsingu sem birt er í að minnsta kosti tveimur dagblöðum hér á landi og í hverju þeirra ríkja þar sem útibú hafa verið rekin.
     b.      4., 5. og 6. mgr., sbr. 2. gr. laga nr. 129/2008, falla brott.

4. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum, sbr. 4. gr. laga nr. 129/2008, fellur brott.

5. gr.

    100. gr. a laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Afhending fjármálafyrirtækis til bráðabirgðastjórnar.


    Eigi fjármálafyrirtæki í þeim fjárhags- eða rekstrarerfiðleikum að líkur séu til að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar eða uppfyllt kröfur um lágmark eigin fjár getur stjórn þess upp á sitt eindæmi leitað eftir því við Fjármálaeftirlitið að það taki við ráðum yfir fyrirtækinu. Fjármálaeftirlitið skal án tafar taka afstöðu til slíkrar beiðni. Taki Fjármálaeftirlitið beiðnina til greina fellur úr gildi umboð stjórnar fjármálafyrirtækisins og verður jafnframt óvirkur réttur hluthafa eða stofnfjáreigenda til að taka ákvarðanir um málefni þess á grundvelli eignarhluta sinna. Um leið skal Fjármálaeftirlitið skipa fjármálafyrirtækinu bráðabirgðastjórn þriggja eða fimm manna sem fer ein með sömu heimildir að lögum og eftir samþykktum þess og stjórn og hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda hefði ella haft á hendi, sbr. þó 4. tölul. 2. mgr. 101. gr.
    Bráðabirgðastjórn skal svo fljótt sem verða má gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fá yfirsýn yfir fjárhag fjármálafyrirtækisins. Á meðan hún ræður yfir fyrirtækinu gilda sömu takmarkanir á heimildum til að beita fullnustugerðum og öðrum þvingunarúrræðum gagnvart því og ef það hefði fengið heimild til greiðslustöðvunar. Skal bráðabirgðastjórn því aðeins gera ráðstafanir um meiri háttar hagsmuni fyrirtækisins að brýna nauðsyn beri til.
    Yfirráðum bráðabirgðastjórnar yfir fjármálafyrirtæki lýkur sjálfkrafa þegar liðnir eru þrír mánuðir frá skipun hennar nema:
     1.      bráðabirgðastjórn hafi þegar lagt fyrir héraðsdóm kröfu um að fyrirtækið verði tekið til slita skv. 3. tölul. 2. mgr. 101. gr., en hafi það verið gert stendur umboð hennar þar til afstaða hefur endanlega verið tekin til kröfunnar,
     2.      fyrirtækinu hafi verið veitt heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings, en umboð bráðabirgðastjórnar stendur þá þar til einn mánuður er liðinn frá því að þeirri heimild lýkur, eða
     3.      bráðabirgðastjórn hafi áður með samþykki Fjármálaeftirlitsins haldið hluthafafund eða fund stofnfjáreigenda og fyrirtækinu þar verið kjörin ný stjórn til að leysa hana af hólmi.
    Ljúki yfirráðum bráðabirgðastjórnar yfir fjármálafyrirtæki sjálfkrafa með því að starfstími hennar er á enda án þess að það hafi verið tekið til slita skal starfsleyfi þess afturkallað þá þegar hafi því ekki áður verið kjörin ný stjórn skv. 3. tölul. 3. mgr.

6. gr.

    101. gr. laganna orðast, ásamt fyrirsögn:

Skilyrði og upphaf slitameðferðar.


    Bú fjármálafyrirtækis verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum.
    Fjármálafyrirtæki skal tekið til slita:
     1.      eftir kröfu Fjármálaeftirlitsins hafi það afturkallað starfsleyfi fyrirtækisins eða synjað því um frest skv. 4. mgr. 86. gr. eða frestur samkvæmt því ákvæði er á enda án þess að fyrirtækið hafi aukið eigið fé sitt fram yfir það lágmark sem mælt er fyrir um í 84. gr.,
     2.      eftir kröfu Fjármálaeftirlitsins, stjórnar fyrirtækisins eða bráðabirgðastjórnar ef skylt er að slíta því samkvæmt samþykktum þess,
     3.      eftir kröfu stjórnar fyrirtækisins eða bráðabirgðastjórnar ef það getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar þess muni líða hjá innan skamms tíma,
     4.      eftir kröfu stjórnar fyrirtækisins og að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins ef ákveðið hefur verið að slíta því á hluthafafundi eða fundi stofnfjáreigenda, enda hafi tillaga um slit verið samþykkt þar með minnst 2/3 hlutum greiddra atkvæða og af hluthöfum eða stofnfjáreigendum sem ráða yfir minnst 2/3 hlutum þess hlutafjár eða stofnfjár sem farið var með atkvæði fyrir á fundi.
    Kröfu um slit fjármálafyrirtækis skal beint til héraðsdóms í því umdæmi þar sem það yrði sótt í einkamáli á heimilisvarnarþingi sínu. Krafan skal gerð úr garði og með hana farið fyrir dómi eins og kröfu um gjaldþrotaskipti.
    Þegar dómsúrlausn hefur gengið um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita skipar héraðsdómari því slitastjórn sem í skulu sitja allt að fimm menn. Við skipun hennar tekur hún við þeim réttindum og skyldum sem stjórn fyrirtækisins og hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda höfðu á hendi, sbr. þó 3. mgr. 103. gr. Að því leyti sem ekki er mælt fyrir á annan veg í lögum þessum gilda reglur um skiptastjóra við gjaldþrotaskipti um slitastjórn, störf hennar og þá menn sem eiga sæti í henni.
    Við slit fjármálafyrirtækis skal frestdagur ákveðinn eftir sömu reglum og gilda við gjaldþrotaskipti, en þó þannig að hann getur jafnframt ráðist af þeim degi sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt fyrirtækinu frest skv. 4. mgr. 86. gr. eða skipað því bráðabirgðastjórn skv. 100. gr. a eða ella af því að héraðsdómi berst krafa um slit skv. 2. mgr. ef ekkert hefur áður gerst til að marka frestdag.

7. gr.

    102. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Meðferð krafna o.fl.


    Við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga þess og kröfur á hendur því að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að það sé tekið til slita leiðir ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga.
    Þegar fjármálafyrirtæki hefur verið skipuð slitastjórn skal hún tafarlaust gefa út og fá birta í Lögbirtingablaði innköllun vegna slitanna. Um efni innköllunar, kröfulýsingarfrest og tilkynningar eða auglýsingar vegna erlendra kröfuhafa skal beitt sömu reglum og við gjaldþrotaskipti.
    Við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skulu kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna sem njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Að því leyti sem rétthæð krafna getur ráðist samkvæmt þeim lögum af þeim tíma sem úrskurður er kveðinn upp um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta skal miða á sama hátt við úrskurð um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita.
    Ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gilda um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess, þar á meðal um áhrif þess að kröfu sé ekki lýst, en fundir slitastjórnar til að fjalla um viðurkenningu lýstra krafa nefnast kröfuhafafundir. Telji slitastjórn við lok kröfulýsingarfrests að líkur séu til að eignir fyrirtækisins nægi að fullu fyrir skuldum þess er henni að svo stöddu ekki skylt að taka afstöðu til þess hvar einstakar kröfur kunni að standa í réttindaröð.
    Þegar kröfulýsingarfrestur er á enda skal slitastjórn leggja mat á hvort horfur séu á að eignir fjármálafyrirtækis nægi til að standa við skuldbindingar þess. Skýrsla um þetta mat skal lögð fram og kynnt á fyrsta kröfuhafafundi eftir lok kröfulýsingarfrests.
    Að loknum fyrsta kröfuhafafundi eftir lok kröfulýsingarfrests er slitastjórn heimilt í einu lagi eða mörgu að greiða viðurkenndar kröfur að hluta eða að fullu að því marki sem tryggt er að eignir fjármálafyrirtækisins hrökkvi til að minnsta kosti jafnhárrar greiðslu allra annarra krafna sem standa eins í réttindaröð og ekki hefur endanlega verið hafnað við slitin. Þess skal þá gætt að allir kröfuhafar sem fara með viðurkenndar kröfur í sömu stöðu í réttindaröð fái greiðslu á sama tíma, en frá því má þó víkja með samþykki þeirra sem ekki fá greitt eða samkvæmt ákvörðun slitastjórnar ef kröfuhafi býðst til að gefa eftir kröfu sína gegn greiðslu hennar að hluta, sem víst má telja að sé lægri að tiltölu en aðrir jafnstæðir kröfuhafar munu fá á síðari stigum, þar á meðal að teknu tilliti til þess hvort kröfur þeirra beri vexti fram að greiðslu.

8. gr.

    103. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Ráðstöfun hagsmuna fjármálafyrirtækis o.fl.


    Við slit fjármálafyrirtækis ráðstafar slitastjórn hagsmunum þess eftir sömu reglum og gilda um bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti með þeim frávikum sem leiðir af ákvæðum þessarar greinar. Rísi ágreiningur um slíkar ráðstafanir skal leyst úr honum eftir fyrirmælum laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Slitastjórn skal hafa að markmiði að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis, þar á meðal með því að bíða eftir þörfum efndatíma á útistandandi kröfum þess fremur en að koma þeim fyrr í verð, nema sýnt megi telja að hagsmunir kröfuhafa og eftir atvikum hluthafa eða stofnfjáreigenda séu meiri af því að ráðstafa slíkum réttindum á fyrri stigum til að ljúka megi slitameðferð. Í þessum tilgangi er slitastjórn heimilt að virða að vettugi ályktun kröfuhafafundar sem hún telur andstæða þessu markmiði.
    Slitastjórn skal boða til kröfuhafafundar í sama skyni og skiptastjóri heldur skiptafundi um bústjórn við gjaldþrotaskipti. Hafi slitastjórn komist að þeirri niðurstöðu í skýrslu skv. 5. mgr. 102. gr. að horfur séu á að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja fyrir skuldbindingum þess skal slitastjórn samhliða kröfuhafafundum efna til funda með hluthöfum eða stofnfjáreigendum til að kanna hug þeirra um ráðstöfun hagsmuna þess.
    Ef ekki er sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu má krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti.

9. gr.

    Á eftir 103. gr. laganna kemur ný grein, 103. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Lok slitameðferðar.


    Hafi slitastjórn lokið greiðslu allra viðurkenndra krafna á hendur fjármálafyrirtæki og eftir atvikum tekið frá fé til greiðslu krafna sem ágreiningur stendur um og komið eignum þess eftir þörfum í verð lýkur hún slitameðferð með því annaðhvort:
     1.      að láta fyrirtækið aftur í hendur hluthafa eða stofnfjáreigenda ef fundur þeirra sem slitastjórn hefur boðað til hefur samþykkt með atkvæðum þeirra sem ráða yfir að minnsta kosti 2/3 hlutum hlutafjár eða stofnfjár að fyrirtækið taki upp starfsemi á ný og kjörin hefur verið ný stjórn til að taka við því úr höndum slitastjórnar, enda hafi Fjármálaeftirlitið veitt samþykki sitt til þess og fyrirtækið fullnægir öðrum skilyrðum laga til að hefja aftur starfsemi, eða
     2.      að greiða hluthöfum eða stofnfjáreigendum út eignarhlut þeirra af eftirstöðvum eigna samkvæmt frumvarpi til úthlutunar sem gert skal eftir ákvæðum XXII. kafla og 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl., en sé um sparisjóð að ræða skal þó eignum, sem standa eftir að lokinni greiðslu stofnfjárhluta, varið eftir samþykktum hans og er óheimilt að ráðstafa þeim til stofnfjáreigenda, sbr. 4. mgr. 63. gr.
    Ljúka má slitameðferð samkvæmt því sem segir í 1. tölul. 1. mgr. þótt ekki sé lokið greiðslu allra viðurkenndra krafna ef þeir kröfuhafar sem hafa ekki enn fengið fullnustu samþykkja það.
    Nægi eignir fjármálafyrirtækis ekki til fullrar greiðslu krafna sem ekki hefur endanlega verið hafnað við slitameðferð getur slitastjórn þegar hún telur tímabært leitað nauðasamnings til að ljúka henni. Skal slitastjórn þá gera frumvarp að nauðasamningi eftir reglum 36. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og boða til kröfuhafafundar til að bera það undir atkvæði. Eftir því sem átt getur við fara nauðasamningsumleitanir að öðru leyti eftir ákvæðum 2. mgr. 149. gr. og 151.–153. gr. sömu laga, en slitastjórn gegnir þá því hlutverki sem skiptastjóri hefði annars á hendi og heldur hún kröfuhafafundi við þessar umleitanir. Fáist frumvarp að nauðasamningi samþykkt skal slitastjórn leita staðfestingar hans eftir reglum IX. kafla sömu laga. Ef nauðasamningur er staðfestur efnir slitastjórn eftir þörfum skuldbindingar við kröfuhafa samkvæmt honum og lýkur svo slitameðferð eftir því sem segir í 1. og 2. mgr.
    Nú liggur fyrir að eignir fjármálafyrirtækis nægi ekki til að standa að fullu við skuldbindingar þess og slitastjórn telur sýnt að ekki verði forsendur til að leita nauðasamnings skv. 3. mgr. eða frumvarp að honum hefur ekki fengist samþykkt eða hafnað hefur verið kröfu um staðfestingu hans og skal þá slitastjórn krefjast þess fyrir héraðsdómi, þar sem hún var skipuð til starfa, að bú fyrirtækisins verði tekið til gjaldþrotaskipta. Það sama getur kröfuhafi gert ef krafa hans hefur verið viðurkennd við slitameðferð og annaðhvort hafa nauðasamningsumleitanir slitastjórnar ekki borið árangur eða hann sýnir fram á að ekki séu lagaskilyrði til að leita nauðasamnings eða sá fjöldi kröfuhafa sé andvígur honum að útilokað sé að tekist geti að koma honum fram miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um fjárhag fyrirtækisins. Til að hafa slíka kröfu uppi verður þó kröfuhafi að sýna fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að koma fram gjaldþrotaskiptum fremur en að fyrirtæki verði áfram í slitameðferð.
    Sé bú fjármálafyrirtækis tekið til gjaldþrotaskipta skal það standa óraskað sem gert hefur verið við slitameðferð varðandi kröfur á hendur fyrirtækinu, þar á meðal innköllun til kröfuhafa og meðferð lýstra krafna, en skiptastjóri skal fá birta auglýsingu í Lögbirtingablaði um að búið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Um gjaldþrotaskiptin fer annars eftir almennum reglum að öðru leyti en því að ákvæði 2. mgr. 103. gr. gilda þar að breyttu breytanda, auk þess sem sá dagur sem dómsúrlausn gekk um að fjármálafyrirtækið væri tekið til slita skal við gjaldþrotaskiptin svara að því er varðar réttaráhrif til þess dags sem úrskurður gekk um þau.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 3. gr. og 4. gr. laga þessara skulu 3. mgr. 98. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 2. gr. laga nr. 129/2008, og ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 129/2008, gilda áfram í upphaflegri mynd gagnvart fjármálafyrirtækjum sem njóta heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku þessara laga, þar á meðal um framlengingu heimildar til greiðslustöðvunar.

11. gr.

    Við gildistöku laga þessara fellur fyrri málsgrein ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 129/2008 brott.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Hafi Fjármálaeftirlitið fyrir gildistöku laga þessara skipað fjármálafyrirtæki skilanefnd á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008 og hún er enn að störfum, en fyrirtækið hefur ekki fengið heimild til greiðslustöðvunar, skal skilanefndin upp frá því sjálfkrafa verða bráðabirgðastjórn fyrirtækisins í skilningi 100. gr. a, sbr. 5. gr. laga þessara.

II.


    Um fjármálafyrirtæki sem njóta heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku þessara laga skulu eftirfarandi sérreglur gilda:
     1.      Heimild til greiðslustöðvunar skal haldast þrátt fyrir gildistöku laga þessara og má framlengja hana samkvæmt þeim reglum sem um ræðir í 2. mgr. 10. gr.
     2.      Við greiðslustöðvunina skal beitt ákvæðum 1. mgr. 101. gr., 102. gr., 103. gr. og 103. gr. a laganna, sbr. 1. efnismgr. 6. gr., 7. gr., 8. gr. og 9. gr. laga þessara, eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem lög þessi öðlast gildi, en slitameðferðin skal þó allt að einu kennd við heimild til greiðslustöðvunar svo lengi sem sú heimild stendur, sbr. 1. tölul. Þegar sú heimild rennur sitt skeið á enda skal fyrirtækið án sérstaks dómsúrskurðar sjálfkrafa teljast vera til slitameðferðar eftir almennum reglum, sbr. þó 3. og 4. tölul. Ákvæði IV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gilda ekki um slíka greiðslustöðvun sem hér um ræðir.
     3.      Skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem Fjármálaeftirlitið hefur skipað fyrir gildistöku laga þessara á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, skal með óbreyttu heiti halda áfram störfum og gegna því hlutverki sem slitastjórn er ætlað í 3. mgr. 9. gr., 2. málsl. 4. mgr. 101. gr., 1. málsl. 5. mgr. 102. gr. og 1.–3. mgr. 103. gr. laganna, sbr. 1., 6., 7. og 8. gr. laga þessara. Verði sæti í skilanefnd laust eftir gildistöku laga þessara skal Fjármálaeftirlitið skipa mann til að taka við því nema óþarft þyki með tilliti til þeirra verkefna sem nefndin á enn ólokið.
     4.      Til annarra verka slitastjórnar en um ræðir í 3. tölul. skal héraðsdómari eftir skriflegri beiðni skilanefndar skipa fyrirtækinu slíka stjórn samkvæmt fyrirmælum 1. og 3. málsl. 4. mgr. 101. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga þessara. Þar skal jafnframt sjálfkrafa taka sæti sá sem gegnir starfi aðstoðarmanns fyrirtækisins við greiðslustöðvun og skal hann halda því sæti þótt henni ljúki.

III.


    Þrátt fyrir 5. mgr. 101. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga þessara, skal frestdagur við slitameðferð á fjármálafyrirtæki ráðast af 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 129/2008 þegar það getur átt við.

IV.


    Í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði getur Fjármálaeftirlitið gripið til sérstakra ráðstafana í samræmi við fyrirmæli þessa ákvæðis telji það þörf á vegna sérstakra aðstæðna eða atvika. Með sérstökum aðstæðum eða atvikum er átt við sérstaka fjárhagserfiðleika og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, þar á meðal ef líkur eru á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis eru líklega fyrir hendi eða líkur standa til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmark eigin fjár og önnur úrræði Fjármálaeftirlitsins eru ekki líkleg til að bera árangur. Þá er með sérstökum aðstæðum einnig átt við að fjármálafyrirtæki hafi óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings.
    Við aðstæður eða atvik sem um ræðir í 1. mgr. getur Fjármálaeftirlitið boðað til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda. Fulltrúi Fjármálaeftirlitsins skal stýra fundi og hefur hann málfrelsi og tillögurétt. Fjármálaeftirlitið er við þessar aðstæður ekki bundið af ákvæðum hlutafélagalaga eða samþykkta fjármálafyrirtækis um fundarboðun eða fresti til fundarboðunar eða tillögugerðar til breytinga á samþykktum.
    Séu aðstæður mjög knýjandi getur Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, þar á meðal að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki. Við slíka ráðstöfun gilda hvorki ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um tilboðsskyldu né ákvæði laga þessara um auglýsingu samruna fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að framselja öll réttindi að því marki sem nauðsynlegt er í slíkum tilfellum. Verði það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að samruni viðkomandi fjármálafyrirtækis við annað tryggi best þá hagsmuni sem í húfi eru gilda ákvæði samkeppnislaga og samrunaákvæði laga þessara ekki um þá ráðstöfun. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um yfirtöku á rekstri fjármálafyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna opinberlega. Starfræki fyrirtækið útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynningin send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki.
    Víki Fjármálaeftirlitið stjórn fjármálafyrirtækis í heild frá störfum skal því þegar í stað skipuð bráðabirgðastjórn. Ákvæði 101. gr. a gilda að öðru leyti um slíka stjórn og störf hennar.
    Ef nauðsyn krefur getur Fjármálaeftirlitið takmarkað eða bannað ráðstöfun fjármuna og eigna fjármálafyrirtækis. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem þörf krefur. Þá er Fjármálaeftirlitinu heimilt að rifta sölu eigna sem átt hefur sér stað allt að mánuði áður en það greip til sérstakra ráðstafana samkvæmt þessu ákvæði.
    Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um framangreinda málsmeðferð og ákvarðanatöku Fjármálaeftirlitsins.
    Ríkissjóður ber ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þessa ákvæðis.
    Ákvæði þetta fellur úr gildi í lok árs 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið á vegum viðskiptaráðuneytis. Með frumvarpinu eru lagðar til viðamiklar breytingar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, en kaflinn fjallar um endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækja, slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki.
    Reglur XII. kafla laganna voru fyrir þau áföll sem urðu í íslensku fjármálalífi haustið 2008 reistar á reglum tilskipunar 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Með setningu laga nr. 161/2002 voru ekki gerðar breytingar á þeim reglum um slit viðskiptabanka og sparisjóða, sem settar voru með lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 113/1996, eftir breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 84/1998. Reglum XII. kafla var breytt til þess horfs, sem þær voru í haustið 2008, með lögum nr. 130/2004, en þau lög voru sett til að samræma lögin ákvæðum framangreindrar tilskipunar 2001/24/EB. Jafnframt voru gerðar breytingar á reglum kaflans til þess að samræma ákvæði hans við reglur tilskipunar nr. 2002/87/EB um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjárfestingarfyrirtækjum sem eru hluti af fjármálasamsteypu, en sú tilskipun hafði þó mun meiri áhrif á reglur laga um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994.
    Með lögum nr. 130/2004, sem eins og fyrr segir fólu í sér aðlögun að tilskipun 2001/24/ EB, voru gerðar tvær veigamiklar breytingar á skipan mála skv. XII. kafla laga nr. 161/2002.
    Í fyrsta lagi var innleidd sú meginregla að yfirvöld í heimaríki fjármálafyrirtækis tækju ein ákvarðanir um endurskipulagningu fjárhags og slit fjármálafyrirtækis og útibúa þess í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessu fólst að úrlausnir íslenskra dómstóla um heimild fjármálafyrirtækis, sem hefur aðalstöðvar á Íslandi, til greiðslustöðvunar, til að leita nauðasamnings eða til slita á fyrirtækinu hafa réttaráhrif í öðrum löndum sem eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er lýtur að útibúum þessa fjármálafyrirtækis. Með sama hætti felur þessi breyting í sér að fjármálafyrirtæki, sem hefur aðalstöðvar í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en útibú á Íslandi og er veitt heimild af dómstólum eða yfirvöldum í því ríki til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða er tekið til slitameðferðar, hefur réttaráhrif á Íslandi að því leyti að reglur þess ríkis gilda um útibúið hér á landi, en ekki íslensk lög. Segja má að útibúið sé því tekið undan lögsögu íslenskra dómstóla að þessu leyti.
    Í öðru lagi var innleidd sú meginregla, að við ákvörðun um endurskipulagningu fjárhags og slit fjármálafyrirtækis og útibús þess í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu verði farið eftir lögum þess ríkis þar sem fjármálafyrirtækið hefur aðalstöðvar (heimaríkis). Með sama hætti og að framan greinir felur þetta í sér að íslensk lög gilda um slit fjármálafyrirtækis sem hér hefur aðalstöðvar og einnig útibús þess í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Jafnframt felst í þessu að lög heimaríkis fjármálafyrirtækis, þ.e. þar sem það hefur aðalstöðvar, gilda um endurskipulagningu og slit þess og einnig útibús sem það kann að hafa hér á landi. Frá þessari meginreglu eru þó ýmsar undantekningar. Þar er fyrst og fremst um að ræða lagaskilareglur varðandi tiltekna samninga, réttindi og eignir sem eru í öðru aðildarríki en heimaríki. Fyrrgreind meginregla, svo og þær undantekningar sem frá henni eru gerðar, koma nú fram í 99. gr. laga nr. 161/2002.
    Í framangreindum reglum felst mikið hagræði, enda lýtur þá endurskipulagning og slit fjármálafyrirtækis sem hefur aðalstöðvar í einu landi á Evrópska efnahagssvæðinu og útibú í öðrum ríkjum einungis lögum eins ríkis, en ekki margra eins og áður gat verið. Með þessari tilskipun var leitast við að koma á samræmdum reglum á Evrópska efnahagssvæðinu um endurskipulagningu fjárhags og slit fjármálafyrirtækja. Það er lykilatriði tilskipunar 2001/24/ EB, að það kerfi, sem með þessu var reynt að koma á, tryggði þrjú meginsjónarmið, þ.e. einingu (principle of unity), algildi (principle of universality) og jafnræði (principle of non-discrimination). Á þessi meginsjónarmið er lögð rík áhersla bæði í aðfaraorðum tilskipunarinnar, t.d. 12. og 16. lið og í reglum hennar.
    Með þessu frumvarpi er leitast við að tryggja að þessum meginsjónarmiðum sé fylgt til hins ýtrasta, jafnvel þótt í því felist óhagræði og mikil vinna t.d. við tilkynningar til kröfuhafa, en afar mikilvægt er að tryggja algert jafnræði innlendra og erlendra kröfuhafa fjármálafyrirtækja sem hafa starfsemi í fleiri en einu ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. Áföll á íslenskum fjármálamarkaði og alþjóðleg lánsfjárkreppa.
    Ákvæði XII. kafla laga nr. 161/2002 miðuðu nokkurn veginn við eðlilegt ástand í fjármálakerfi landsins, þ.e. einkum að eitt fjármálafyrirtæki kynni að lenda í fjárhagslegum vandræðum, og mæltu fyrir um hvernig úr því skyldi leyst. Þótt þessum ákvæðum laganna væri samkvæmt framansögðu ætlað að gilda um óvenjulegt fjárhagsástand einstaks fjármálafyrirtækis er nú ljóst að þau eru ekki fullnægjandi við þær aðstæður sem við eiga hér á landi.
    Þau áföll sem dundu yfir fjármálamarkaði heimsins haustið 2008 leiddu til nánast algerrar lánsfjárþurrðar og höfðu í för með sér hremmingar fyrir íslensk fjármálafyrirtæki sem vart eiga sér fordæmi í öðrum löndum. Áföllin leiddu m.a. til þeirra óvenjulegra aðgerða að stjórnir þriggja stærstu íslensku viðskiptabankanna, og raunar einu viðskiptabankanna hér á landi sem höfðu á hendi slíka starfsemi, óskuðu eftir því við Fjármálaeftirlitið 7. og 8. október 2008 að það gerði ráðstafanir til þess að taka yfir stjórn bankanna. Alþingi hafði brugðist við áður með setningu laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, nr. 125/2008, en lögunum var ætlað að taka á mjög sérstökum aðstæðum á fjármálamarkaði þar sem við blasti hrun fjármálakerfisins. Þessar aðstæður voru með öllu ófyrirsjáanlegar þegar reglur XII. kafla laga nr. 161/2002 voru settar. Sá tími, sem var til ráðstöfunar við samningu frumvarps þess sem varð að lögum nr. 125/2008 var mjög skammur og mikil óvissa ríkjandi. Með lögunum voru gerðar ýmsar breytingar á lögum nr. 161/2002, einkum XII. kafla þeirra. Má segja að með þeim hafi verið brugðist við neyðarástandi, sem m.a. fólst í falli bankanna þriggja, svo sem áður getur.
    Breytingarnar fólu einkum í sér víðtækar heimildir til handa Fjármálaeftirlitinu til þess að taka yfir stjórn fjármálafyrirtækis við tilteknar aðstæður, gera ráðstafanir sem nauðsynlegar þóttu og banna aðrar. Á grundvelli þeirra breytinga sem gerðar voru með lögunum vék Fjármálaeftirlitið stjórn Glitnis banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf. frá störfum og skipaði skilanefndir sem farið hafa með stjórn bankanna frá þessum tíma. Þess var enginn kostur við gerð frumvarps þess, sem síðar varð að lögum nr. 125/2008, að sjá fyrir hver framvindan yrði næstu vikur og mánuði. Nauðsynlegt reyndist að gera frekari breytingar á lögum nr. 161/2002, einkum XII. kafla þeirra og var það gert með lögum nr. 129/2008, sem tóku gildi 14. nóvember 2008. Með þeim lögum var einnig verið að bregðast við neyðarástandi, þótt ekki væri það eins óvænt og það sem varð tilefni setningar laga nr. 125/2008. Lög nr. 129/2008 mæltu í fyrsta lagi fyrir um heimild skiptastjóra þrotabús fjármálafyrirtækis til að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækis. Í öðru lagi fólu þau í sér heimildir til að lengja fresti og auðvelda tilkynningar fyrir aðstoðarmann fyrirtækis sem veitt hefur verið heimild til greiðslustöðvunar. Loks var þar að finna ákvæði til bráðabirgða sem heimilar frestun fyrirtöku þrátt fyrir að greiðslustöðvun hafi verið veitt fyrir gildistöku laganna.
    Ákvæðum laga nr. 125/2008 og nr. 129/2008 var ekki ætlað að gilda til frambúðar, enda eins og fyrr segir sett til þess að bregðast við mjög óvenjulegu ástandi, sem enginn gat séð fyrir, þ.e. hruni fjármálakerfis heillar þjóðar og hættu á að greiðslukerfi þess hryndi einnig.
    Nú þegar liðnir eru um þrír mánuðir frá því að framangreind lög voru sett hefur gefist tóm til þess að skipuleggja hvernig framvindan verði að því er lýtur að fjárhagslegri endurskipulagningu og eftir atvikum slitum á þeim þremur viðskiptabönkum sem Fjármálaeftirlitið stýrir. Hefur verið unnið að gerð tillagna um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, sem fælu í sér heildarendurskoðun á XII. kafla þeirra og jafnframt viðbrögð við því ástandi sem skapast hefur hér á landi. Við þá vinnu hefur verið lögð sérstök áhersla á að gætt verði jafnræðis allra kröfuhafa og að reglur um endurskipulagningu og slit væru í samræmi við hliðstæðar reglur sem gilda um önnur fyrirtæki og einstaklinga eftir því sem við getur átt. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að lánardrottnar þeirra fjármálafyrirtækja sem í hlut eiga hafi tök á að gæta hagsmuna sinna.

3. Helstu atriði frumvarpsins.
    Meginatriði þessa frumvarps eru að lagt er til að settar verði nýjar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Reglur frumvarpsins gera ráð fyrir að fjármálafyrirtækið sjálft hafi frumkvæði að slíkri slitameðferð, en í bráðabirgðaákvæði er þó lagt til að Fjármálaeftirlitið geti einnig haft frumkvæði að því að taka yfir ráð fjármálafyrirtækis. Í frumvarpinu er lagt til að um slitameðferðina gildi um margt sömu reglur og gilda um gjaldþrotaskipti. Gert er ráð fyrir að skipuð verð slitastjórn sem hafi um flest sömu heimildir og skiptastjóri þrotabús. Þar gildir þó sú aðalregla að slitastjórn skal hafa að markmiði að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis, þar á meðal með því að bíða eftir þörfum efndatíma á útistandandi kröfum þess fremur en að koma þeim fyrr í verð. Það á þó ekki við ef telja má að hagsmunir kröfuhafa og eftir atvikum hluthafa eða stofnfjáreigenda séu meiri af því að ráðstafa slíkum réttindum á fyrri stigum til að ljúka megi slitameðferð. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að gefin verði út innköllun þar sem kröfuhöfum gefst kostur á að lýsa kröfum sínum til slitastjórnar og að afstaða verði tekin til þeirra, eftir atvikum með dómsúrlausn. Gerð er tillaga um að kröfuhafar geti, með svipuðum hætti og tíðkast við gjaldþrotaskipti, gætt hagsmuna sinna við slitameðferð og átt þess kost að bera ágreining um réttmæti krafna sinna og um ákvarðanir og ráðstafanir slitastjórnar undir dómstóla. Gerðar eru tillögur um að slitameðferð geti lokið með þeim hætti að fjármálafyrirtæki eigi þess kost, með samþykki Fjármálaeftirlitsins, að hefja starfsemi á ný eða þá að eigendum (hluthöfum/stofnfjáreigendum) verði greiddir hlutir þeirra í fyrirtækinu að greiddum lýstum kröfum á hendur því. Þá er einnig gert ráð fyrir því að slitastjórn geti leitað nauðasamnings við kröfuhafa og efnt hann og í framhaldi af því geti fjármálafyrirtæki annaðhvort hafið starfsemi að nýju, með samþykki Fjármálaeftirlitsins, eða eignir þess verði greiddar hluthöfum eða stofnfjáreigendum. Loks er gert ráð fyrir að við tilteknar aðstæður sé slitastjórn skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi fjármálafyrirtækis.

4. Fjármálafyrirtæki í greiðslustöðvun.
    Í bráðabirgðaákvæðum er mælt fyrir um hvernig fara skuli með fjármálafyrirtæki sem njóta greiðslustöðvunar við gildistöku laganna. Lagt er til að heimild þessara fyrirtækja til greiðslustöðvunar haldist þrátt fyrir gildistöku laganna og að framlengja megi greiðslustöðvun í allt að 24 mánuði frá því þinghaldi þegar heimild til greiðslustöðvunar var fyrst veitt. Þá er lagt til að þau fjármálafyrirtæki sem þegar hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar hafi heimild til að beita nánar tilgreindum ákvæðum sem gilda um fyrirtæki í slitameðferð, t.d. reglum um meðferð krafna og ráðstöfun hagsmuna fjármálafyrirtækis. Þó er gert ráð fyrir að slitameðferðin verði áfram kennd við heimild til greiðslustöðvunar svo lengi sem heimildin stendur. Þegar heimild til greiðslustöðvunar fellur niður telst fjármálafyrirtæki sjálfkrafa og án sérstaks dómsúrskurðar vera í slitameðferð.
    Í þriðja lagi er lagt til að skilanefnd fjármálafyrirtækis sem fengið hefur heimild til greiðslustöðvunar skuli halda áfram störfum og nota heitið skilanefnd. Skal skilanefndin gegna því hlutverki sem slitastjórn er ætlað í nánar tilgreindum ákvæðum frumvarpsins, en gert er ráð fyrir að öðrum verkefnum sinni slitastjórn sem skipuð er af héraðsdómara að beiðni skilanefndar. Aðstoðarmaður við greiðslustöðvun tekur sjálfkrafa sæti í slíkri skilastjórn.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að kostnaður af störfum skilanefnda og slitastjórna greiðist af viðkomandi fjármálafyrirtæki.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 9. gr. laga um fjármálafyrirtæki, en þar er kveðið á um afturköllun starfsleyfis fjármálafyrirtækja. Ákvæðinu var breytt með lögum nr. 129/2008 á þann veg að lögfest var heimild fyrir skiptastjóra þrotabús fjármálafyrirtækis, með samþykki og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, til að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi fjármálafyrirtækis þrátt fyrir afturköllun starfsleyfis þess samhliða kröfu um gjaldþrotaskipti. Hér er lagt til að ákvæðið verði víkkað út þannig að Fjármálaeftirlitinu verði einnig heimilt að veita takmarkað starfsleyfi til fjármálafyrirtækis þar sem bráðabirgðastjórn hefur verið skipuð. Þá er tilvísun í slitastjórn fjármálafyrirtækis bætt inn í ákvæðið í samræmi við aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Um 2. gr.


    Breytingin er nauðsynleg vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til á XII. kafla laganna.

Um 3. gr.


    Lagðar eru til tvíþættar breytingar á 98. gr. laganna; í báðum tilvikum eru lagðar til breytingar á ákvæðum sem lögfest voru með lögum nr. 129/2008.
    Í fyrsta lagi er lagt til að gerð verði breyting á 3. mgr. 98. gr. laganna þess efnis að felldar verði brott sérstakar reglur um lengd greiðslustöðvunar fjármálafyrirtækja, en með lögum nr. 129/2008 var lögfest að greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja gæti varað í allt að 24 mánuði frá því þinghaldi þegar heimild til greiðslustöðvunar var veitt. Áfram er gert ráð fyrir að í málsgreininni verði reglur um fundarboð skv. 2. mgr. 13. gr. og 5. mgr. 17. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og eru ekki lagðar til breytingar á þeim reglum.
    Í öðru lagi er lagt til að ákvæði 4., 5. og 6. mgr. 98. gr. verði felld brott. Í 4. mgr. er kveðið á um að aðstoðarmaður við greiðslustöðvun skuli ekki vera skaðabótaskyldur vegna ákvarðana og aðgerða sinna sem aðstoðarmaður nema um sé að ræða brot af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Í 5. mgr. er kveðið á um að dómsmál verði almennt ekki höfðað gegn fjármálafyrirtæki á meðan greiðslustöðvun þess stendur og í 6. mgr. er kveðið á um það að hafi dómsmál verið höfðað gegn fjármálafyrirtæki sem síðar fær heimild til greiðslustöðvunar sé almenna reglan sú að meðferð þess verði ekki framhaldið á meðan á greiðslustöðvun stendur.

Um 4. gr.


    Lagt er til að ákvæði IV til bráðabirgða, sem lögfest var með lögum nr. 129/2008, verði fellt brott, en í ákvæðinu er kveðið á um að fjármálafyrirtæki skuli fá heimild til greiðslustöðvunar án tillits til ákvæða 4. og 6. tölul. 2. mgr. 12. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Um 5. gr.


    Í þessari grein er lagt til að gerðar verði breytingar á 100. gr. a í núgildandi lögum. Í raun er um nýja grein að ræða, en lagt er til að núgildandi 100 gr. a verði að hluta numin úr gildi, en það sem eftir mun standa af henni, ef frumvarp þetta verður að lögum, verði fært í ákvæði til bráðabirgða.
    Í greininni eru reglur um heimild Fjármálaeftirlitsins til að skipa fjármálafyrirtæki, sem eftir því leitar, bráðabirgðastjórn. Bráðabirgðastjórn er, eins og nafnið bendir til, tímabundið ástand. Í greininni er mælt fyrir um skipan bráðabirgðastjórnar og um réttaráhrif þess fyrir hluthafa eða stofnfjáreigendur að bráðabirgðastjórn er skipuð. Fellur þá úr gildi umboð stjórnar fjármálafyrirtækisins og jafnframt verður óvirkur réttur hluthafa eða stofnfjáreigenda til að taka ákvarðanir um málefni þess á grundvelli eignarhluta sinna. Þá er mælt fyrir um skyldur bráðabirgðastjórnar og stöðu hennar. Má í stuttu máli segja að á meðan bráðabirgðastjórn fjármálafyrirtækis starfar sé staða hennar um margt lík stöðu stjórnar (og hluthafafundar) í félagi sem fengið hefur greiðslustöðvun.
    Eins og áður segir er skipun bráðabirgðastjórnar í fjármálafyrirtæki tímabundin ráðstöfun. Bráðabirgðastjórn er fyrst og fremst ætlað að ná yfirsýn um fjárhag fjármálafyrirtækis og gera vissar mikilvægar og brýnar ráðstafanir um framhaldið. Skipun bráðabirgðastjórnar er inngrip í hagsmuni hluthafa (stofnfjáreigenda) en þó ekki síður inngrip í réttindi kröfuhafa fjármálafyrirtækis og þess vegna mikilvægt að henni séu settar þröngar skorður til að ráðstafa hagsmunum og að starfstíma hennar séu takmörk sett. Er gert ráð fyrir að fjórir kostir séu um lok starfstíma bráðabirgðastjórnar, þ.e. í fyrsta lagi að starfstíma hennar ljúki sjálfkrafa þegar þrír mánuðir eru liðnir frá skipun hennar, í öðru lagi að starfstíma hennar ljúki með því að fjármálafyrirtæki er að hennar ósk tekið til slita, í þriðja lagi að starfstímanum ljúki með því að fjármálafyrirtækinu er veitt heimild til greiðslustöðvunar, en þá er gert ráð fyrir að bráðabirgðastjórn sitji áfram í einn mánuð eftir að greiðslustöðvunartíma lýkur og loks í fjórða lagi að starfstíma bráðabirgðastjórnar ljúki með því að ný stjórn í fjármálafyrirtæki leysi hana af hólmi, þ.e. að hluthafar (stofnfjáreigendur) fái forræði á stjórn fjármálafyrirtækis á nýjan leik, en þetta getur aðeins orðið með samþykki Fjármálaeftirlitsins.
    Ef fyrsti kosturinn, sem nefndur var um lok starfstíma bráðabirgðastjórnar, gengur eftir er kveðið á um að afturkalla skuli þá þegar starfsleyfi fjármálafyrirtækisins, enda er þá gert ráð fyrir því að ekki hafi verið kosin ný stjórn í samræmi við það sem er mögulegt samkvæmt síðastnefnda kostinum.
    Í 1. mgr. greinarinnar er lagt til að fjármálafyrirtæki, sem á í slíkum fjárhags- eða rekstrarerfiðleikum að líkur séu til þess að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar eða uppfyllt skilyrði um lágmark eigin fjár, geti leitað til Fjármálaeftirlitsins og óskað eftir því að það taki við ráðum yfir fyrirtækinu. Þetta er sú staða sem kom upp í byrjun október 2008 þegar Glitnir banki hf., Landsbanki Íslands hf. og Kaupþing banki hf. óskuðu eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki yfir stjórn þeirra. Ef slík staða kemur upp og ósk um „yfirtöku“ er sett fram er Fjármálaeftirlitinu skylt, samkvæmt því sem lagt er til, að taka afstöðu til beiðninnar án tafar. Ef beiðninni er hafnað, kemur ekki til þess að reglur þessarar greinar geti átt við. Sé á hinn bóginn fallist á beiðnina gerist þrennt, þ.e.:
    Í fyrsta lagi skipar Fjármálaeftirlitið bráðabirgðastjórn, sem tekur yfir stjórn fjármálafyrirtækisins og fer ein með alla stjórn þess, þ.e. hefur sömu heimildir að lögum og eftir samþykktum þess, sem stjórn og hluthafafundur (fundur stofnfjáreigenda) fer með. Orðin „fer ein með alla stjórn þess“ felur einnig í sér að Fjármálaeftirlitið eða aðilar á þess vegum fara ekki með stjórn fjármálafyrirtækis. Bráðabirgðastjórn getur þó ein og sér ekki krafist slita á fjármálafyrirtæki í því skyni sem um ræðir í 4. tölul. 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    Í öðru lagi fellur úr gildi umboð stjórnar fjármálafyrirtækis. Slíkt er sjálfgefið þar sem ný stjórn með mun rýmri heimildir kemur í hennar stað og tekur yfir ráð þess.
    Í þriðja lagi verður óvirkur réttur hluthafa (stofnfjáreigenda) til þess að taka ákvarðanir um málefni þess á grundvelli eignarhluta sinna. Þótt það sýnist alvarlegt inngrip í hagsmuni hluthafa og stofnfjáreigenda að svipta þá rétti sínum til ákvarðana á grundvelli eignarhluta sinna og upp geti komið spurningar um hvort slíkt sé örugglega samrýmanlegt reglum um vernd eignarréttar í 72. gr. stjórnarskrárinnar, verður að hafa í huga að þetta er afleiðing þess að stjórn fjármálafyrirtækis, sem hluthafar eða stofnfjáreigendur hafa kosið, óskar eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins og þar með skipun bráðabirgðastjórnar í beinu framhaldi. Hafa verður í huga að þegar hér er komið sögu eru aðstæður þannig að stjórn fjármálafyrirtækis telur að líkur séu til að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar eða uppfyllt kröfur um lágmark eigin fjár. Er ljóst að stjórn fjármálafyrirtækis mun ekki bera slíka ósk fram við Fjármálaeftirlitið nema hún telji að það sé óhjákvæmilegt. Sé það mat Fjármálaeftirlitsins að aðrir kostir séu í stöðunni yrði slíkri beiðni væntanlega hafnað. Þá verður einnig að hafa í huga að við þær aðstæður að fjármálafyrirtæki getur ekki staðið við skuldbindingar sínar við kröfuhafa eða uppfyllt kröfur um eigið fé, eru hagsmunir eigenda, þ.e. hluthafa eða stofnfjáreigenda, almennt upp urnir að mestu. Hinir eiginlegu eigendahagsmunir eru liðnir undir lok en vægi annarra hagsmuna, þ.e. hagsmuna kröfuhafa og hins opinbera í sumum tilvikum, orðnir yfirgnæfandi. Loks verður að hafa í huga að eingöngu er um að ræða tímabundið ástand, sem skapað er með þeirri skipan sem lögð er til í þessari grein. Þess skal getið að hinir opinberu hagsmunir felast fyrst og fremst í því að fjármálafyrirtæki véla yfirleitt um fjármuni einstaklinga og fyrirtækja. Þau þurfa starfsleyfi stjórnvalda (Fjármálaeftirlitsins) og fall þeirra getur haft mikil áhrif á fjárhagslega stöðu þessara aðila og á þjóðfélagið í heild sinni. Það er mikilvægt að unnt sé við sérstök fjárhagsvandræði fjármálafyrirtækja að grípa inn í starfsemi þeirra, ekki síst til þess að tryggja hagsmuni viðskiptamanna þeirra.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um fyrstu verk bráðabirgðastjórnar. Eins og áður er getið ber henni fyrst að gera ráðstafanir til þess að ná yfirsýn yfir fjárhag fjármálafyrirtækis. Til þess þarf hún ráðrúm og starfsfrið. Til að tryggja það er mælt fyrir um að fjármálafyrirtæki njóti sömu stöðu að þessu leyti og ef það hefði fengið heimild til greiðslustöðvunar. Verður því ekki unnt að beita fullnustugerðum og öðrum þvingunarúrræðum gagnvart fyrirtækinu. Gilda um þessa stöðu reglur 22. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Það ákvæði kemur ekki í veg fyrir að kröfuhafar eða aðrir leiti réttar síns með því að höfða dómsmál á hendur fjármálafyrirtæki, heldur aðeins að ekki er unnt að koma fram fullnustugerðum og öðrum þvingunarúrræðum gegn því. Lagt er til að heimildir bráðabirgðastjórnar til þess að gera ráðstafanir um meiri háttar hagsmuni séu takmarkaðar við að brýna nauðsyn beri til þeirra. Ekki þykir á hinn bóginn fært að binda hendur bráðabirgðastjórnar með sama hætti og gert er í 19.–21. gr. laga nr. 21/1991, t.d. vegna innstæðueigenda.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um lok yfirráða bráðabirgðastjórnar. Hefur áður verið rakið að það geti gerst með fernum hætti og vísast til þess. Þessar leiðir fela í sér, að annaðhvort fá hluthafar (stofnfjáreigendur) fjármálafyrirtæki til umráða á ný eða það er tekið til slitameðferðar, eftir atvikum að undangenginni heimild til greiðslustöðvunar.

Um 6. gr.


    Þessari grein er ætlað að koma í stað 101., 102. og 103. gr. í gildandi lögum. Í 1. mgr. segir að bú fjármálafyrirtækis verði ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum og er því lagt til að beitt verði um þetta sérstökum reglum. Er þetta í samræmi við 1. mgr. 101. gr. gildandi laga. Þetta breytir því þó ekki að ýmsum ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga verður beitt um slitameðferðina eins og síðar verður getið. Við það er miðað að fjármálafyrirtæki verði slitið með þeim hætti, sem í frumvarpinu greinir, og að réttindi kröfuhafa og möguleikar þeirra til þess að leita úrlausnar dómstóla um ágreiningsefni, sem rísa kunna við slitameðferðina verði tryggðir. Í greininni er mælt fyrir um skilyrði þess að fjármálafyrirtæki verði tekið til slitameðferðar, hvert skuli beina kröfu um slit, hvers efnis krafan skuli vera, skipun slitastjórnar, meginreglur um stöðu hennar og um stöðu hluthafa og stofnfjáreigenda og hvernig frestdagur skuli ákveðinn.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um skilyrði þess að fjármálafyrirtæki verði tekið til slitameðferðar. Getur það gerst eftir kröfu Fjármálaeftirlitsins, kröfu stjórnar fyrirtækisins eða kröfu bráðabirgðastjórnar en gert er ráð fyrir ýmsum blæbrigðum í þessu efni. Í 1. tölul. er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið geti krafist slita á fjármálafyrirtæki við tilteknar ástæður. Ákvæði þetta er sama efnis og 1. tölul. 2. mgr. 101. gr. gildandi laga. Í 2. tölul. er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið, stjórn fjármálafyrirtækis eða bráðabirgðastjórn þess geti krafist slita, ef það er skylt samkvæmt samþykktum þess. Slík ákvæði geta bæði lotið að fjárhag fyrirtækisins og öðrum aðstæðum, fyrst og fremst afstöðu hluthafa (stofnfjáreigenda). Í 3. tölul. er kveðið á um að slíta beri fjármálafyrirtæki eftir kröfu stjórnar fyrirtækis eða bráðabirgðastjórnar við sömu aðstæður og bókhaldsskyldum aðila er skylt að óska eftir að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta skv. 2. mgr., sbr. 1. mgr., 64. gr. laga nr. 21/1991, en þar er gert ráð fyrir að skuldari krefjist að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verði talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma. Í 4. tölul. er lagt til að taka beri fjármálafyrirtæki til slita eftir kröfu stjórnar þess og að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins ef tiltekinn meiri hluti hluthafa (stofnfjáreigenda) hefur samþykkt tillögu um slit. Regla þessa töluliðar er hliðstæð núgildandi 3. tölul. 2. mgr. og 4. mgr. 101. gr. í gildandi lögum og þarfnast því ekki skýringa hér.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um kröfu um slit, hvert beina skuli henni og hvert efni hennar skuli vera. Tillögur frumvarpsins að þessu leyti eru efnislega hliðstæðar 1. og 2. mgr. 102. gr. gildandi laga, þ.e. um það hvert eigi að beina kröfunni, en það er til héraðsdóms í því umdæmi þar sem fjármálafyrirtæki yrði sótt í einkamáli á heimilisvarnarþingi sínu. Eru gildandi reglur óþarflega flóknar um þetta efni. Þá er lagt til að krafa um slit skuli efnislega úr garði gerð eins og krafa um gjaldþrotaskipti. Er miðað við að reglur 7. gr., sbr. 66. gr. laga nr. 21/1991 gildi um efni kröfunnar og þau gögn sem henni skulu fylgja. Þá er lagt til að mælt verði fyrir um að farið skuli með kröfuna fyrir dómi eins og kröfu um gjaldþrotaskipti. Í þessu felst t.d. að reglur 8. gr. laga nr. 21/1991 munu gilda um meðferð kröfunnar og ákvæði XI. kafla þeirra laga eftir því sem við getur átt. Héraðsdómari tekur að lokum afstöðu til kröfunnar með úrskurði. Þeim úrskurði má skv. 179. gr. laga nr. 21/1991 skjóta til Hæstaréttar með kæru.
    Í 4. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að héraðsdómari skipi fjármálafyrirtæki slitastjórn og að í henni skuli sitja allt að fimm menn, eftir því sem nauðsynlegt er talið. Í minni fjármálafyrirtækjum sætu væntanlega þrír í slitastjórn, en fimm í hinum stærri. Slitastjórn tekur við ráðum fjármálafyrirtækis og hefur sömu réttindi og skyldur og stjórn fyrirtækisins og hluthafafundur (fundur stofnfjáreigenda) höfðu á hendi. Frá því er sú undantekning gerð, að ef slitastjórn kemst að þeirri niðurstöðu að horfur séu á að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja fyrir skuldbindingum þess þá ber slitastjórn að leita afstöðu hluthafa (stofnfjáreigenda) til ráðstafana á hagsmunum fyrirtækisins samhliða því sem hún gefur kröfuhöfum kost á að láta í ljós afstöðu til þessa á kröfuhafafundum. Þessi háttur er eðlilegur þar sem eigendahagsmunir hluthafa (stofnfjáreigenda) eru virkir ef sýnt þykir að eignir fjármálafyrirtækis eru meiri en skuldir. Þá er lagt til að sömu reglur gildi um slitastjórn, störf hennar og þá menn sem eiga sæti í henni og gilda um skiptastjóra samkvæmt lögum nr. 21/1991. Í því felst meðal annars að um hæfi þeirra sem skipaðir eru í slitastjórn gilda ákvæði 75. gr. laga nr. 21/ 1991, svo og önnur ákvæði XIII. kafla laganna. Ákvæði laganna um skiptastjóra eru þrautreynd og hafa almennt gefist vel. Það eyðir réttaróvissu um stöðu og heimildir slitastjórnar að binda þessi atriði við lagareglur um skiptastjóra.
    Í 5. mgr. eru tillögur að reglum um ákvörðun frestdags. Lögð er til sú meginregla að um ákvörðun frestdags gildi reglur laga nr. 21/1991, sbr. einkum 2. gr. þeirra, en frá því eru þó þrjú frávik. Í fyrsta lagi yrði frestdagur miðaður við það tímamark er Fjármálaeftirlitið skipar fjármálafyrirtæki bráðabirgðastjórn samkvæmt því sem mælt er fyrir um í 5. gr. frumvarps þessa. Í öðru lagi yrðir frestdagur, svo sem gert er í 2. mgr. 103. gr. gildandi laga, miðaður við þann dag er Fjármálaeftirlitið hefur veitt fjármálafyrirtæki frest skv. 4. mgr. 86. gr. laganna og í þriðja lagi miðast frestdagur við þann dag er héraðsdómi berst krafa um slit skv. 2. mgr. þessarar greinar ef frestdagur hefur ekki orðið fyrr samkvæmt öðrum reglum frumvarpsins.

Um 7. gr.


    Í þessari grein eru tillögur að reglum um meðferð krafna o.fl., en í gildandi lögum er að finna í 1. mgr. 103. gr. tilvísun til þess að „almennar reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl.“ gildi eftir því sem við getur átt um „skipti á búi fjármálafyrirtækis“. Í þessari grein er lagt til að um gagnkvæma samninga og meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess gildi sömu reglur og gilda um það samkvæmt lögum nr. 21/1991. Þó eru gerðar tillögur um ýmis frávik frá þeim reglum. Með þeim reglum er leitast við að taka tillit til hinna sérstöku aðstæðna sem við eiga þegar fjármálafyrirtæki er slitið, t.d. eru slitastjórn veittar sérstakar heimildir til þess að greiða, með þeim hætti sem lýst er, kröfur að loknum fyrsta kröfuhafafundi eftir lok kröfulýsingarfrests. Getur verið þýðingarmikið fyrir fjármálafyrirtæki að ljúka við greiðslur til tilgreindra kröfuhafa eða hópa þeirra. Er þetta ekki síst mikilvægt þegar tekið er tillit til þess að slitin sjálf geta tekið langan tíma, sem stundum getur verið í þágu hagsmuna kröfuhafa. Gert er ráð fyrir að slitastjórn gefi kröfuhöfum í ríkum mæli kost á því að koma með sjónarmið sín. Fundir sem slitastjórn heldur í þessu skyni nefnast kröfuhafafundir. Staða slitastjórnar er sambærileg stöðu skiptastjóra samkvæmt lögum nr. 21/1991, en í því felst að kröfuhafafundur getur ekki gefið slitastjórn fyrirmæli um ráðstafanir. Slitastjórn tekur ákvarðanir sem hún telur réttar í þágu hagsmuna fjármálafyrirtækis. Oftast yrðu það ákvarðanir í þágu hagsmuna kröfuhafa, en slíkt er þó ekki algilt. Ef kröfuhafar telja að slitastjórn í heild eða einstakir menn í henni sinni ekki skyldum sínum eða brjóti rétt á þeim stendur þeim opið að neyta þeirra úrræða sem greinir í 76. gr. laga nr. 21/1991, þ.e. að bera sig upp við héraðsdómara með þeim hætti sem þar er greint. Slíkt getur endað með því að héraðsdómari víki slitastjórn eða einstökum mönnum úr henni með úrskurði og skipi þá nýjan í hans eða þeirra stað.
    Þess ber einnig að geta að sérreglur í lögum kunna að leiða til annarrar niðurstöðu en hinar almennar reglur laga nr. 21/1991 miða að. Má hér t.d. nefna ýmis ákvæði laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, nr. 46/2005, laga um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, nr. 90/1999, og V. kafla laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Lögskýringarreglur mundu almennt leiða til þeirrar niðurstöðu að sérreglurnar yrðu taldar gilda framar hinum almennu reglum, en þó verður að meta hvert einstakt tilvik og taka afstöðu til þess hvaða réttarheimild gildi um úrlausn þess og hvernig henni eigi að beita.
    Í 1. mgr. er, eins og fyrr greinir, lagt til að sömu reglur og er að finna í lögum nr. 21/1991 gildi um gagnkvæma samninga fjármálafyrirtækis og kröfur á hendur því að öðru leyti. Gerð er tillaga um mikilvægt frávik frá þessum reglum, þ.e. að úrskurður héraðsdómara um slit fjármálafyrirtækis leiði ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga. Ástæða þessa fráviks er sú að til slitameðferðar getur komið þótt félag sé ekki þannig statt fjárhagslega að eignir þess séu minni en skuldir og því ekki útilokað að starfsemi þess verði fram haldið á meðan á slitameðferð stendur. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að þessi regla breytir ekki ákvæðum 99. gr. laga nr. 21/1991 um að heildarfjárhæð einstakra krafna skuli miðast við þann tíma sem fyrirtæki er tekið til slitameðferðar og 114. gr. sömu laga um að kröfur um vexti, verðbætur, gengismun og kostnað af innheimtu kröfu, sem falla til eftir upphaf slitameðferðar, skuli standa að baki öðrum kröfum.
    Í 2. mgr. er lagt til að upphafsráðstafanir slitastjórnar verði að gefa út og fá birta innköllun vegna slitanna. Lagt er til að um þetta gildi sömu reglur og er að finna í lögum nr. 21/1991. Í því felst, sbr. 86. gr. þeirra laga, að senda þarf öllum erlendum kröfuhöfum, sem fjármálafyrirtæki veit hvar eru með heimili, tilkynningu um slitin og innköllun og birta auglýsingu ef talið er að kröfuhafar séu erlendis, en ekki er vitað hvar þeir eru eða hvernig verði náð til þeirra. Óhjákvæmilegt er að hafa þennan hátt á, þótt ljóst sé að stundum geti fjöldi erlendra kröfuhafa skipt hundruðum þúsunda. Ástæðurnar eru bæði þær að innköllun, eins og hér um ræðir, hefur það sem nefnt er „præklusiv“ áhrif, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991, þ.e. ef kröfu er ekki lýst innan kröfulýsingarfrests kemur hún ekki til álita við slitin og oftast þýðir það að kröfuhafinn glatar öllum möguleikum á að fá fullnustu hennar í heild eða að hluta af eignum fjármálafyrirtækis. Auk þess mundi önnur regla fela í sér brot á jafnfræði í garð erlendra kröfuhafa, en slíkt færi í bága við eitt þeirra meginsjónarmiða sem tilskipun 2001/24/EB er reist á. Þá verður ekki séð að það sé viðurhlutameira fyrir fjármálafyrirtæki að annast sendingu slíkrar tilkynningar um innköllun en önnur fyrirtæki sem hafa mikinn fjölda viðskiptamanna erlendis. Um efni innköllunar og fresti gilda sömu reglur og í lögum nr. 21/1991 og þarfnast það ekki skýringar.
    Í 3. mgr. er lagt til að um rétthæð krafna, en til þess atriðis þarf slitastjórn að taka afstöðu, gildi sömu reglur og um kröfur á hendur þrotabúi, sbr. XVII. kafla laga nr. 21/1991. Tekið er þó fram að kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, teljist jafnframt til krafna sem njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Er þetta í samræmi við þær breytingar á reglum um réttindaröð, sem gerðar voru með 6. gr. laga nr. 125/2008. Að öðru leyti þarfnast málsgreinin ekki skýringa.
    Í 4. mgr. er lagt til að tiltekin ákvæði laga nr. 21/1991 gildi um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess. Í þessu felst að dómsmál verður ekki höfðað á hendur fjármálafyrirtæki, sem er til slitameðferðar, heldur ber þeim sem telur sig eiga kröfu eða aðra hagsmuni að lýsa þeirri kröfu sinni og uni hann ekki þeirri afstöðu sem slitastjórn tekur til kröfunnar eða hagsmunanna getur hann borið þá kröfu undir héraðsdómara og síðan skotið úrskurði héraðsdómara til Hæstaréttar eftir reglum laga nr. 21/1991. Er mikilvægt að áréttað sé að réttur kröfuhafa til að leita úrlausnar dómstóla um kröfu sína og aðra hagsmuni á hendur fjármálafyrirtæki er tryggður með sama hætti og réttur þeirra sem telja sig eiga kröfu á hendur þrotabúi. Einnig er lagt til, eins og áður greinir, að sú regla gildi að sé kröfu ekki lýst innan kröfulýsingarfrests komi hún ekki til álita við greiðslu krafna við slitameðferðina. Í 5. mgr. segir að þegar kröfulýsingarfrestur sé á enda skuli slitastjórn leggja mat á hvort horfur séu á að eignir fjármálafyrirtækis nægi til að standa við skuldbindingar þess. Skal skýrsla um þetta mat lögð fram og kynnt á fyrsta kröfuhafafundi eftir lok kröfulýsingarfrests. Ákvæði þetta er nauðsynlegt vegna hagsmuna hluthafa eða stofnfjáreigenda, sbr. nánar 3. mgr. 8. gr. frumvarps þessa.
    Í 6. mgr. er lagt til að lögfestar verði heimildir fyrir slitastjórn til þess að greiða, eftir lok kröfulýsingarfrests og eftir að hafa haldið kröfuhafafund og þar leitað afstöðu kröfuhafa svo sem við má búast, hluta krafna eftir þeim reglum sem er að finna í málsgreininni. Aðalatriðið er að slitastjórn verður að gæta jafnræðis milli kröfuhafa sem standa eins í réttindaröð og fara með kröfu sem hefur ekki verið endanlega hafnað. Í þessari málsgrein er einnig gerð tillaga um reglur, sem mundu veita einstökum kröfuhöfum, sem kjósa að losa sig út úr slitameðferðinni, t.d. gegn því að fá minna í sinn hlut en aðrir sem stæðu eins í réttindaröð mundu fá á síðari stigum, kost á þeirri leið. Ástæða þessarar tillögu er sú að kröfuhafar kunna að vera í mjög misjafnri stöðu. Sumir kröfuhafar gætu kosið að slitameðferðin tæki langan tíma á meðan reynt væri að fá sem hæst verð fyrir eignir fjármálafyrirtækis þannig að á endanum fengju þeir sem hæst hlutfall upp í kröfur sínar og stæðu jafnvel þannig að vígi að kröfur þeirra yrðu gerðar upp að fullu. Aðrir kröfuhafar kunna að vera í þeirri stöðu að þeir vilji fá greitt sem allra fyrst og mundu, ef það gengi eftir, sætta sig við að fá lægra hlutfall upp í kröfur sínar en þeir mundu fá við endanlegt uppgjör. Verður að telja að mikilvægt sé að lögfesta slíkt svigrúm fyrir slitastjórn til að taka tillit til mismunandi stöðu kröfuhafa að þessu leyti. Um þessa reglu er ástæða til að benda sérstaklega á að slitastjórn bæri eftir niðurlagsorðum 6. mgr. að líta til þess, ef til álita kæmi að greiða einstökum kröfuhöfum á þennan hátt, að sá sem fengi greiðslu strax nyti sjálfur góðs af vöxtum af fénu upp frá því, á meðan aðrir kröfuhafar, sem vildu sýna biðlund, mundu ekki fá vexti af kröfum sínum, heldur aukna úthlutun upp í kröfurnar á síðari stigum. Jafnræðis væri þannig augljóslega ekki gætt milli til dæmis kröfuhafa, sem tæki nú þegar sem fullnaðargreiðslu á kröfu sinni fimmtung af fjárhæð hennar og annars kröfuhafa sem væri reiðubúinn að bíða árum saman eftir greiðslu sama eða lítillega hærra hlutfalls kröfu sinnar. Er þannig áskilið í lok 6. mgr. að slitastjórn megi því aðeins greiða einstökum kröfuhöfum eftir þessari sérreglu að víst megi telja að þeir séu þannig að fá minna í sinn hlut en hinir sem hyggjast bíða eftir því að meira verði úr eigum fjármálafyrirtækisins til að hærri greiðsla fáist upp í kröfur þeirra.

Um 8. gr.


    Í þessari grein eru gerðar tillögur að reglum um heimildir slitastjórnar til ráðstöfunar á hagsmunum fjármálafyrirtækis. Óhjákvæmilegt er að ætla slitastjórn rúmar heimildir í þessum efnum. Meginreglan um þær heimildir er sú að fara beri eftir reglum um bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti samkvæmt lögum nr. 21/1991. Gerðar eru tillögur um nokkur frávik frá þeirri meginreglu og helgast þau fyrst og fremst af því að nauðsynlegt getur verið að slitameðferð taki lengri tíma en gjaldþrotaskipti þar sem lagt er fyrir skiptastjóra að hraða skiptum, sbr. 2. mgr. 122. gr. laga nr. 21/1991. Eins og áður hefur verið vikið að getur sá sem hefur uppi ágreining um ákvörðun eða ráðstöfun slitastjórnar borið þann ágreining undir héraðsdómara eftir reglum 3. mgr. 128. gr. laga nr. 21/1991.
    Um skýringar á 1. mgr. vísast til þess sem segir að framan.
    Í 2. mgr. er lagt til að lögfest verði ákvæði um að slitastjórn skuli hafa það markmið að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis. Er með þessu lagt til að veitt verði svigrúm til þess að slitameðferðin miði ekki fyrst og fremst að því að henni verði lokið sem fyrst. Ef slitastjórn metur það svo að hagsmunum kröfuhafa og/eða hluthafa (stofnfjáreigenda) sé betur borgið með því að ráðstafa réttindum sem fyrst í stað þess að bíða í þeirri von að síðar fáist meira verð fyrir þau getur hún tekið slíka ákvörðun. Tillögur þeirra sem hagsmuna hafa að gæta skipta auðvitað máli við mat á þessu. Slitastjórn er þó ekki bundin af samþykkt kröfuhafafundar um tiltekna ráðstöfun eða ráðstafanir. Minnt skal á að kröfuhafar gætu borið slíka ákvörðun slitastjórnar undir dómstóla, sbr. það sem segir að framan.
    Í 3. mgr. er lagt til að slitastjórn boði til kröfuhafafundar í sama skyni og skiptastjóri boðar til skiptafundar. Af ákvæðum XIX. kafla laga nr. 21/1991 má sjá að þótt heimildir skiptastjóra til að ráðstafa hagsmunum þrotabús séu ríkar er ætlast til að hann kynni ákvarðanir sínar fyrir kröfuhöfum og leiti afstöðu þeirra eftir atvikum áður en hann tekur ákvarðanir, sbr. 2. mgr. 124. gr. laga nr. 21/1991. Þeir kröfuhafar sem kjósa að fylgjast með ákvörðunum og ráðstöfunum skiptastjóra hafa til þess rúma möguleika. Sömu skyldur hvíla á slitastjórn. Þá er lagt til að slitastjórn sé skylt, þegar horfur eru á að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja fyrir skuldbindingum þess, að hafa samhliða kröfuhafafundum samráð við hluthafa (stofnfjáreigendur) til að kanna hug þeirra um ráðstöfun hagsmuna fyrirtækisins. Rökin eru þau sömu og áður er getið, þ.e. við þessar aðstæður eru virkir eigendahagsmunir í fyrirtækinu og eðlilegt að þeir, sem með þá fara, eigi sömu möguleika á að hafa áhrif á ráðstafanir sem hafa þýðingu fyrir þessa hagsmuni.
    Í 4. mgr. er lagt til að þegar ekki er sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og er að finna í XX. kafla laga nr. 21/1991.

Um 9. gr.


    Í þessari grein er að finna tillögur að reglum um lok slitameðferðar. Samkvæmt því er lagt til að slitameðferð geti lokið með eftirfarandi hætti:
     a.      Þegar lokið er greiðslu viðurkenndra krafna á hendur fjármálafyrirtæki og ef þörf krefur búið að taka frá fé fyrir greiðslu umdeildra krafna:
                  1.      með því að fjármálafyrirtæki er afhent hluthöfum (stofnfjáreigendum) til umráða í því skyni að það taki upp starfsemi á ný, að uppfylltum tilgreindum skilyrðum, eða
                  2.      með því að hluthöfum (stofnfjáreigendum) eru greiddir út eignarhlutar þeirra af eftirstöðvum eigna. Lagt er til að sérregla gildi um ráðstöfun eigna sparisjóðs sem standa eftir þegar búið er að greiða stofnfjárhluta.
     b.      Þegar eignir fjármálafyrirtækis nægja ekki til fullrar greiðslu krafna, sem ekki hefur endanlega verið hafnað við slitameðferð:
              3.      leitað nauðasamnings við kröfuhafa,
              4.      krafist gjaldþrotaskipta á búi fjármálafyrirtækisins.
    Ekki kemur fram í greininni hvað ætla megi að langan tíma taki að ljúka slitum með þeim hætti sem hér greinir. Ljóst er þó að slitameðferð sem lýkur eins og lýst er í a-lið tekur að jafnaði langan tíma. Á hinn bóginn er ekki útilokað að það taki slitastjórn skamman tíma að komast að niðurstöðu um að eignir fjármálafyrirtækis nægi ekki til greiðslu skulda þess og ekki séu neinar líkur til þess að nauðasamningur muni nást við kröfuhafa og því beri að óska strax eftir gjaldþrotaskiptum á búi fyrirtækisins. Mestu varðar þó að slitastjórn getur, einkum að höfðu samráði við kröfuhafa, hagað hraða starfa sinna eftir því sem hún telur hagsmunum kröfuhafa og eftir atvikum hluthafa (stofnfjáreigenda) best borgið.
    Í 1. mgr. eru tillögur að reglum, sem miða við þær aðstæður sem getur í a-lið að framan, þ.e. þegar slitastjórn hefur lokið greiðslu allra viðurkenndra krafna og tekið frá fé til greiðslu krafna sem ágreiningur kann að standa um, eða þeir sem eiga ógreiddar kröfur samþykkja slík lok á slitameðferðinni. Sá möguleiki að fjármálafyrirtækið taki að nýju upp starfsemi og því sé kosin stjórn sem tekur við því úr hendi slitastjórnar er háður ýmsum skilyrðum. Í fyrsta lagi þarf að liggja fyrir skýr vilji hluthafa (stofnfjáreigenda), þ.e. samþykki þeirra sem fara með 2/3 hluta hlutafjár (stofnfjár). Í öðru lagi þarf að liggja fyrir samþykki Fjármálaeftirlitsins til þess að af þessu geti orðið. Í þriðja lagi, og það mundi Fjármálaeftirlitið ganga úr skugga um, þarf fjármálafyrirtækið að fullnægja öðrum skilyrðum laga til þess að geta hafið starfsemi, svo sem kröfum X. kafla laga nr. 161/2002 um eigið fé. Hinn möguleikinn er að slitastjórn greiði hluthöfum (stofnfjáreigendum) út eignarhlut þeirra samkvæmt frumvarpi til úthlutunar, sem ráðgert er að unnið sé eftir tilvitnuðum reglum laga nr. 21/1991, en með því væri fyrirtækinu slitið í bókstaflegum skilningi með úthlutun hreinnar eignar þess til eigenda. Sérregla um sparisjóði í þessu ákvæði er sama efnis og fyrirmæli 3. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að unnt sé að ljúka slitameðferð þótt ekki sé lokið greiðslu allra krafna, sem viðurkenndar hafa verið, ef þeir kröfuhafar sem í hlut eiga samþykkja það. Kröfuhafi kann að telja hagsmunum sínum betur borgið með því að eiga kröfuna áfram eftir að fjármálafyrirtæki hefur störf að nýju, t.d. vegna þess að hann hefur hug á að eiga áfram viðskipti við það. Er því nauðsynlegt að kveða í lögum á um þennan möguleika.
    Í 3. mgr. er lagt til að slitameðferð geti lokið með því að slitastjórn leitar nauðasamnings við kröfuhafa fjármálafyrirtækisins. Fara nauðasamningsumleitanir eftir tilvitnuðum greinum í XXI. kafla laga nr. 21/1991 og um staðfestingu nauðasamnings fer eftir reglum IX. kafla laganna. Slitastjórn gegnir þeim störfum sem umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum gegnir að öðrum kosti. Ef nauðasamningur er staðfestur er lagt til að slitastjórn verði falið að fullnusta hann eftir efni hans. Gangi það eftir getur slitameðferðinni þá lokið samkvæmt því sem áður greinir, þ.e. eftir þeim kostum sem getur í a-lið að framan.
    Í 4. mgr. er að finna tillögur að reglum sem gilda ef eignir fjármálafyrirtækis nægja ekki til að standa að fullu við skuldbindingar þess og slitastjórn telur sýnt að ekki verði forsendur til þess að leita nauðasamnings eftir 3. mgr. eða kröfu um staðfestingu hans hefur verið hafnað. Við þær aðstæður er lagt til að slitastjórn verði skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi fjármálafyrirtækis. Lagt er til að kröfuhafi, sem fer með viðurkennda kröfu sem ekki hefur verið greidd, geti við framangreindar aðstæður einnig krafist þess að bú fjármálafyrirtækis verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er lagt til að kröfuhafi geti ekki haft uppi slíka kröfu nema hann sýni fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að koma gjaldþrotaskiptum fram, fremur en að fjármálafyrirtækið verði áfram til slitameðferðar.
    Í 5. mgr. er lagt til að ef bú fjármálafyrirtækis verður tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt því sem segir í 4. mgr. verði ráðstafanir sem slitastjórn hefur gert látnar standa óraskaðar, þ.e. þeim verði ekki hnekkt með öðrum hætti en þeim sem greinir að framan. Þá er lagt til að innköllun til kröfuhafa, meðferð lýstra krafna o.fl., sem slitastjórn hefur annast standi óhögguð, en skiptastjóri sá, sem skipaður verður af héraðsdómara við gjaldþrotaskiptin fái þó birta auglýsingu í Lögbirtingablaði um töku bús fyrirtækisins til gjaldþrotaskipta.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.


    Í greininni er lagt til að hluti ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 129/2008 falli brott, en í ákvæðinu er kveðið á um það að hafi heimild til greiðslustöðvunar verið veitt á grundvelli 2. mgr. 98. gr. laganna fyrir gildistöku laga nr. 129/2008, en fundur með lánardrottnum skv. 1. mgr. 13. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. hefur enn ekki farið fram, sé héraðsdómara heimilt að fenginni rökstuddri beiðni skuldara að fresta þegar ákveðinni fyrirtöku en þó ekki til lengri tíma en kveðið er á um í 1. málsl. 3. mgr. 98. gr. laganna.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Hér er kveðið á um að ef Fjármálaeftirlitið hefur fyrir gildistöku laganna skipað skilanefnd á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008 og sú skilanefnd er enn að störfum og fyrirtækið hefur ekki fengið heimild til greiðslustöðvunar verður skilanefndin sjálfkrafa bráðabirgðastjórn í fyrirtækinu í skilningi ákvæða 100. gr. a, sbr. 5. gr. frumvarpsins.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Hér er kveðið á um það hvernig fara skuli með fjármálafyrirtæki sem njóta greiðslustöðvunar við gildistöku laganna. Fyrsta sérreglan sem gildir um þau fyrirtæki er að heimild þeirra til greiðslustöðvunar skal haldast þrátt fyrir gildistöku laganna. Lagt er til að hægt verði að framlengja heimild til greiðslustöðvunar til samræmis við 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins, en þar kemur fram að gagnvart umræddum fyrirtækjum skuli ákvæði 3. mgr. 98. gr. laga um fjármálafyrirtæki halda gildi sínu. Því má héraðsdómari framlengja greiðslustöðvun fjármálafyrirtækjanna í allt að 24 mánuði frá því þinghaldi þegar heimild var veitt. Heimild til framlengingar greiðslustöðvunar skal veitt án tillits til ákvæða 4. og 6. tölul. 2. mgr. 12. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Í 2. tölul. ákvæðisins er kveðið á um það að við greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja sem fengið hafa heimild til greiðslustöðvunar við gildistöku laganna skulu beita ákvæðum 1. mgr. 101. gr., 102. gr., 103. gr. og 103. gr. a laganna, sbr. 1. mgr. 6. gr., 7. gr., 8. gr. og 9. gr. frumvarpsins eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem frumvarp þetta verður að lögum.
    Slitameðferð skal þó áfram kennd við heimild til greiðslustöðvunar svo lengi sem heimildin stendur. Þegar heimildin fellur niður fer fjármálafyrirtæki sjálfkrafa og án sérstaks dómsúrskurðar í slitameðferð eftir almennum reglum, að teknu tilliti til 3. og 4. tölul. þessa ákvæðis. Ákvæði IV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gilda ekki um greiðslustöðvun fyrirtækja sem falla undir ákvæðið.
    Í 3. tölul. ákvæðisins er lagt til að skilanefnd fjármálafyrirtækis sem fengið hefur heimild til greiðslustöðvunar og Fjármálaeftirlitið hefur skipað fyrir gildistöku laga þessara skuli halda áfram störfum og nota heitið skilanefnd. Skal skilanefndin gegna því hlutverki sem slitastjórn er ætlað í 3. mgr. 9. gr., 2. málsl. 4. mgr. 101. gr., 1. málsl. 5. mgr. 102. gr. og 1.–3. mgr. 103. gr. laganna, sbr. 1., 6., 7. og 8. gr. frumvarpsins. Ef sæti skilanefndar manns losnar eftir að frumvarp þetta verður að lögum skal Fjármálaeftirlitið skipa mann til að taka við því nema það þyki óþarft með tilliti til þeirra verkefna sem nefndin á enn ólokið.
    Í 4. tölul. ákvæðisins segir að til að sinna öðrum verkefnum en þeim sem falin eru skilanefnd í 3. tölul. skuli héraðsdómari skipa fyrirtækinu slitastjórn samkvæmt fyrirmælum 1. og 3. málsl. 4. mgr. 101. gr. laganna, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Skal héraðsdómari skipa slitastjórn að fenginni skriflegri beiðni skilanefndar. Í slíkri slitastjórn tekur sjálfkrafa sæti sá sem gegnir starfi aðstoðarmanns fjármálafyrirtækisins við greiðslustöðvun og heldur hann því sæti þó að greiðslustöðvun ljúki.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Þá er lagt til að frestdagur ráðist með þeim hætti sem greint er í ákvæði til bráðabirgða III og er því þegar kominn frestdagur við meðferð þeirra þriggja fjármálafyrirtækja sem nú hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.


    Hér er lagt til að hluti núgildandi 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 haldi gildi sínu, en því ákvæði var bætt í lögin með setningu laga nr. 125/2008. Sá hluti gerir ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið geti, að uppfylltum tilgreindum skilyrðum, sjálft haft frumkvæði að því að koma fjármálafyrirtæki til slitameðferðar. Þær reglur, sem er að finna í þessu frumvarpi, miða á hinn bóginn við að fjármálafyrirtækið sjálft hafi frumkvæði að því að slitameðferð eigi sér stað. Er nauðsynlegt að halda í gildi um sinn eldri reglum, sem er að finna í þessu bráðabirgðaákvæði, en miðað er hér við að þær falli úr gildi í árslok 2009. Verði talið nauðsynlegt að reglur af þessum toga standi í lögum til frambúðar verður að taka það til sérstakrar skoðunar og gera þá viðeigandi breytingar á lögum nr. 161/2002 áður en þetta bráðabirgðaákvæði rennur skeið sitt á enda.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 16/2002,
um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til víðamiklar breytingar á XII. kafla laganna er fjallar um endurskipulagningu fjárhags fjármálafyrirtækja, slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki. Meginatriði þessa frumvarps er það að lagt er til að settar verði nýjar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja en í því felst að gert er ráð fyrir að tiltekin fjármálafyrirtæki hafi sjálf frumkvæði að slíkri slitameðferð. Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er þó lagt til að Fjármálaeftirlitið geti einnig haft frumkvæði að því að taka yfir ráð fjármálafyrirtækis. Þá er í frumvarpinu lagt til að um slitameðferð gildi sambærilegar reglur og gilda um gjaldþrotaskipti. Gert er ráð fyrir að skipuð verði slitastjórn sem hafi um flest sömu heimildir og skiptastjóri þrotabús en þar gildir þó sú aðalregla að slitastjórn skal hafa það að markmiði að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis. Kostnaður vegna starfa þessarar nefndar verður greiddur af þeim fyrirtækjum sem eru í skiptameðferð.
    Í lokamálsgrein 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008, er kveðið á um að ríkissjóður beri ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins á grundvelli ákvæðisins, þar með talið skiptakostnaði ef til slíks kostnaðar stofnast. Þar sem skilanefndir gömlu bankanna þriggja voru skipaðar á grundvelli þessa ákvæðis hefur ríkissjóður borið kostnað af störfum þeirra að því leyti að ríkið hefur greitt laun skilanefndarmannanna, en ekki annan kostnað. Með lögum nr. 129/2008 var lögfest heimild fyrir fjármálafyrirtæki til að óska eftir heimild til greiðslustöðvunar í allt að 24 mánuði. Hefur verið litið svo á að ríkissjóði bæri að greiða kostnað við störf skilanefndanna á meðan fjármálafyrirtæki hefði heimild til greiðslustöðvunar. Í frumvarpinu er kveðið á um að þau þrjú fjármálafyrirtæki sem skipaðar hafa verið skilanefndir í fái ákveðnar heimildir sem fjármálafyrirtæki hafa almennt við slit. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að fyrirtækin geti verið í greiðslustöðvun út 24 mánaða tímabilið og færist eftir það sjálfkrafa yfir í slitameðferð. Kveðið er á um það í frumvarpinu að kostnaður vegna starfsemi fjármálafyrirtækja í greiðslustöðvun og slitum, þ.m.t. kostnaður af störfum skilanefnda, skuli eftir gildistöku laganna greiðast af viðkomandi fjármálafyrirtæki, en ekki úr ríkissjóði. Kostnaður vegna skilanefndanna hefur fram að þessu verið um 45 m.kr. á mánuði sem hafa verið greiddar af ríkissjóði. Miðað við þann kostnað og að skilanefndirnar hefðu starfað til loka tímabils heimilaðrar greiðslustöðvunar má gera ráð fyrir að fjármálafyrirtækin beri sjálf allt að 855 m.kr. sem að öðrum kosti hefðu getað fallið á ríkissjóð. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má því gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs á árunum 2009 og 2010 gætu orðið lægri sem því nemur en ekki hafði verið gert ráð fyrir þeim útgjöldum í gildandi fjárlögum.