Ferill 103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 103  —  103. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88 12. júní 2008,
með síðari breytingum (embætti héraðssaksóknara).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Í stað ártalsins „2015“ í 1. málsl. 1. mgr., 1. málsl. 2. mgr. og 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VII og í ákvæði til bráðabirgða VIII í lögunum, sbr. 3. og 4. gr. laga nr. 156/2008, 1. gr. laga nr. 123/2009, 1. gr. laga nr. 168/2011 og 1. gr. laga nr. 116/2013, kemur: 2016.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Með því er lagt til að gildistöku ákvæða laganna er kveða á um embætti héraðssaksóknara verði frestað fram til 1. janúar 2016.
    Með lögum um meðferð sakamála sem tóku gildi 1. janúar 2009 var gert ráð fyrir að embætti héraðssaksóknara yrði nýtt stjórnsýslustig innan ákæruvaldsins. Vegna þeirra fjárhagserfiðleika sem ríkissjóður átti við að etja í framhaldi af falli bankanna haustið 2008 var ákveðið að fresta gildistöku þeirra ákvæða laganna sem vörðuðu embætti héraðssaksóknara fram til 1. janúar 2010 með það fyrir augum að endurmeta stöðuna að ári liðnu. Vegna áframhaldandi fjárhagserfiðleika og mikils niðurskurðar hjá öllum opinberum stofnunum var enn á ný, með lögum nr. 123/2009, frestað að setja á fót embætti héraðssaksóknara fram til 1. janúar 2012. Af sömu orsökum var svo gildistöku ákvæðanna frestað fram til 1. janúar 2014 með lögum nr. 168/2011 og skyldi tíminn notaður til að taka til skoðunar ákvæði laganna um embætti héraðssaksóknara og fyrirkomulag ákæruvaldsins. Í september 2012 var af því tilefni haldinn í innanríkisráðuneytinu samráðsfundur fulltrúa ýmissa aðila úr réttarvörslukerfinu og þingflokka, sérfræðinga í réttarfari og annarra er láta sig varða mál ákæruvaldsins þar sem ræddar voru ýmsar hugmyndir og sjónarmið varðandi framtíðarskipan ákæruvaldsins. Í framhaldi af þeim fundi var hafin vinna í ráðuneytinu er sneri að heildaryfirsýn yfir réttarvörslukerfið, m.a. um skipan ákæruvaldsins. Var talið að unnt yrði að leggja fram frumvarp í síðasta lagi haustið 2014 um nýtt fyrirkomulag ákæruvaldsins og var því gildistöku ákvæða laganna er kveða á um embætti héraðssaksóknara frestað fram til 1. janúar 2015 með lögum nr. 116/2013. Vinna við endurskoðun ákæruvaldsins stendur enn yfir og verður ekki unnt að leggja fram frumvarp um framtíðarskipan þess í tæka tíð til að slíkt frumvarp öðlist lagagildi fyrir 1. janúar 2015. Er því nauðsynlegt að fresta gildistöku ákvæða laganna er varða embætti héraðssaksóknara um skeið þar til fyrir liggur niðurstaða um fyrirkomulag ákæruvaldsins. Er lagt til að gildistökunni verði frestað fram til 1. janúar 2016.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála,
nr. 88/2008, með síðari breytingum (embætti héraðssaksóknara).

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnun sérstaks embættis héraðssaksóknara verði frestað til 1. janúar 2016. Upphaflega var gert ráð fyrir að embættið tæki til starfa árið 2009 en vegna aðhalds í ríkisútgjöldum í kjölfar hruns bankakerfisins haustið 2008 hefur stofnun embættisins verið frestað í fjórgang, fyrst til ársins 2010, þá til ársins 2012, þar á eftir til ársins 2014 og síðast til 1. janúar 2015. Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnun embættisins verði enn frestað og nú til ársins 2016. Í innanríkisráðuneytinu er unnið að nýjum tillögum að skipan ákæruvaldsins enda hefur ekki verið gert ráð fyrir fjárheimildum vegna embættisins í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015.
    Lögfesting frumvarpsins mun því ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs frá því sem þegar hefur verið gert ráð fyrir.