Ferill 549. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1663  —  549. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um helgidagafrið og lögum um 40 stunda vinnuviku (starfsemi á helgidögum).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Fanneyju Óskarsdóttur og Rósu Dögg Flosadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Halldór Oddsson frá Alþýðusambandi Íslands, Andra Val Ívarsson frá Bandalagi háskólamanna, Heiðrúnu Björk Gísladóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Ólaf Stephensen frá Félagi atvinnurekenda, Benedikt S. Benediktsson frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og Viðar Guðjohnsen.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Félagi atvinnurekenda, Kirkjuþingi, Samtökum atvinnulífsins, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og Viðari Guðjohnsen.
    Með frumvarpi þessu er annars vegar lagt til að felld verði brott ákvæði í lögum um helgidagafrið, nr. 32/1997, sem banna tiltekna þjónustu, skemmtanir og afþreyingu á tilgreindum helgidögum þjóðkirkjunnar. Hins vegar er lagt til að helgidagar þjóðkirkjunnar verði tilgreindir hver fyrir sig í lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, með síðari breytingum.

Brottfall laga um helgidagafrið.
    Með frumvarpinu verður áfram óheimilt að trufla guðsþjónustu, kirkjulegar athafnir eða annað helgihald með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi viðkomandi athafnar, sbr. 3. gr. laga um helgidagafrið, nr. 32/1997. Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um hvort tilefni væri til þess að fella brott lög um helgidagafrið, m.a. á þeim grundvelli að önnur lög nái yfir umrædda háttsemi. Skv. 3. mgr. 122. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, er refsivert að trufla opinbera guðsþjónustu eða aðrar kirkjuathafnir eða raska útfararhelgi. Að mati nefndarinnar virðist ákvæði hegningarlaganna þrengra en það ákvæði sem er í lögum um helgidagafrið og því telur nefndin ekki tilefni til að fella brott ákvæðið úr lögum um helgidagafrið.

Helgidagar.
    Í II. kafla laga um helgidagafrið eru helgidagar þjóðkirkjunnar skilgreindir. Með frumvarpinu er lagt til að fella brott þá skilgreiningu en þess í stað verði þeir dagar tilgreindir hver fyrir sig í lögum um 40 stunda vinnuviku, þ.e. í stað þess að vísa til helgidaga þjóðkirkjunnar eru allir lögbundnir frídagar taldir upp. Nefndin tekur fram að með brottfalli II. kafla laga um helgidagafrið verður ekki að finna ákvæði í lögum um það hverjir séu helgidagar þjóðkirkjunnar. Nefndin bendir hins vegar á að hugtakið „helgidagur“ komi jafnframt fyrir í 12 öðrum lagabálkum, og þá megi gera ráð fyrir að í einhverjum tilvikum sé vísað til þessa hugtaks í kjarasamningum. Í ljósi þessa telur nefndin réttast að hafa áfram upptalningu á helgidögum þjóðkirkjunnar í lögum um helgidagafrið, en þó með minni háttar orðalagsbreytingu. Í því samhengi telur nefndin því ekki lengur tilefni til að gera þá breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur þess vegna til að það ákvæði falli brott.

Starfsemi á helgidögum.
    Nokkuð var fjallað um hvaða þýðingu það hafi fyrir hagsmuni launafólks að fella niður ákvæði í lögum um helgidagafrið sem banna tiltekna þjónustu, skemmtanir og afþreyingu á tilgreindum helgidögum þjóðkirkjunnar og að ekki liggi fyrir formleg greining eða úttekt á því hverjir hafi starfað á þessum dögum.
    Nefndin tekur fram að hér fléttast saman sjónarmið um samspil kjarasamninga og laga í þessum efnum. Í greinargerð með frumvarpinu er þó talið að frumvarpið hafi ekki sérstaklega í för með sér breytingar á kjörum launafólks. Þá er áréttað að tilgangur frumvarpsins er fyrst og fremst að draga úr þeim takmörkunum sem lögin setja ýmsum rekstraraðilum vegna helgidaga og er því ætlað að koma til móts við þau sjónarmið. Nefndin áréttar jafnframt að þrátt fyrir þennan tilgang er frumvarpinu ekki ætlað að skerða hagsmuni og réttindi launafólks.
    Að því sögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  II. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Helgidagar þjóðkirkjunnar, og er með einni grein, 2. gr., orðast svo:
                  Helgidagar þjóðkirkjunnar eru sunnudagar, nýársdagur, skírdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, annar dagur páska, uppstigningardagur, hvítasunnudagur, annar dagur hvítasunnu, aðfangadagur jóla frá kl. 18, jóladagur og annar dagur jóla.
     2.      Orðin „II. kafli, Um helgidagafrið og helgidaga þjóðkirkjunnar“ í 2. gr. falli brott.
     3.      II. kafli falli brott.
     4.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um helgidagafrið, nr. 32/1997, með síðari breytingum (helgihald).

    Andrés Ingi Jónsson, Helgi Hrafn Gunnarsson og Jón Steindór Valdimarsson skrifa undir álitið með þeim fyrirvara að til lengri tíma litið fari betur á því að fella brott lög um helgidagafrið og breyta öðrum lögum til samræmis með það að markmiði að hægt verði að tryggja nauðsynlegan frið til helgihalds, en þó án þess að gengið sé á kjör og hagsmuni starfsfólks. Helgi Hrafn Gunnarsson skrifar undir álit þetta með þeim fyrirvara að best færi á því að ganga alla leið og fella brott lög um helgidagafrið og breyta öðrum lögum til samræmis, sbr. 439. mál, helgidagafriður (þskj. 611).
    Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 31. maí 2019.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Andrés Ingi Jónsson, með fyrirvara. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Álfheiður Ingadóttir. Birgir Ármannsson. Guðmundur Andri Thorsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson, með fyrirvara Jón Steindór Valdimarsson, með fyrirvara. Líneik Anna Sævarsdóttir.