Ferill 779. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1372  —  779. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um hreinsun Heiðarfjalls.


Frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.


    Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins að gangast fyrir rannsókn á umfangi mengunar í jarðvegi og grunnvatni í Heiðarfjalli, frá þeim tíma er þar var rekin eftirlitsstöð á vegum Bandaríkjahers í tengslum við varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins. Samhliða verði gerð tímasett áætlun um kostnað og hreinsun á úrgangs- og spilliefnum þannig að tryggt verði að staða umhverfis- og mengunarmála samræmist kröfum dagsins í dag. Ráðherra skuli leggja áætlunina fyrir Alþingi eigi síðar en 15. mars 2022. Þessi vinna fari fram í nánu samstarfi við landeigendur.

Greinargerð.

    Á Heiðarfjalli á Langanesi er að finna í jörðu úrgangs- og spilliefni frá þeim tíma er þar var rekin eftirlitsstöð á vegum Bandaríkjahers í tengslum við varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins, á tímabilinu 1954 til 1970. Ætla má að af völdum þessara spilliefna sé hætta á mengun.
    Samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins frá 1951 skal Bandaríkjaher hreinsa úrgangsefni (e. „waste material“) við brottför sína eftir því sem kostur er (e. „to the extent practicable“).
Við afléttingu á skjalaleynd árið 1990 kom í ljós að íslensk stjórnvöld höfðu árið 1970 án vitundar landeigenda afsalað sér fyrir hönd íslenska ríkisins og allra Íslendinga (e. „all Icelandic citizens“) kröfum á hendur Bandaríkjunum vegna hugsanlegra landspjalla í tengslum við veru hersins á Heiðarfjalli.
    Eigendur jarðarinnar Eiðis í Heiðarfjalli, sem keyptu hana fyrir nærri hálfri öld, hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns og í því skyni átt í viðræðum við fulltrúa framkvæmdarvaldsins á ýmsum tímum og einnig fulltrúa Bandaríkjastjórnar og Atlantshafsbandalagsins, auk þess að hafa leitað til dómstóla, án árangurs. Eftir stendur mengað landsvæði sem verður að hreinsa.
    Viðhorf til umhverfismála eru gjörbreytt frá því að samið var um viðskilnað á umræddu svæði. Bandaríkjaher og Atlantshafsbandalagið hafa ekki farið varhluta af þessari viðhorfsbreytingu og ekki síst þegar kemur að viðskilnaði á hernaðarsvæðum. Þannig hefur Atlantshafsbandalagið verið reiðubúið að veita styrki til rannsókna á mengun af völdum hernaðarumsvifa og Bandaríkjastjórn hefur fyrir sitt leyti tekist á hendur að hreinsa svæði eftir herstöðvar sínar eða fjármagna slíka hreinsun óháð samningsbundnum kvöðum.
    Flutningsmenn telja í þessu ljósi nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld hefji viðræður við Bandaríkjastjórn og Atlantshafsbandalagið um aðkomu og þátttöku í væntanlegu hreinsunarstarfi á grundvelli rannsókna og áætlunar um hreinsun á úrgangs- og spilliefnum.
    Leiðsögn og aðstoð íslenskra stjórnvalda við landeigendur virðist í mörgu hafa verið ábótavant og hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd því tekið málið upp og ákveðið að beina því til Alþingis að setja það í farveg sem leiðir til ásættanlegrar og löngu tímabærrar niðurstöðu með hreinsun landsvæðisins. Tryggt verði að landeigendum verði haldið upplýstum og hafi aðkomu að öllum aðgerðum varðandi undirbúning og hreinsun svæðisins og leitast verði eftir góðri sátt við þá. Þá er mikilvægt að Alþingi verði gerð grein fyrir vinnslu málsins og sett tímamörk þar að lútandi.