Samantekt um þingmál

Náttúruvernd

429. mál á 141. löggjafarþingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Markmið

Að fá heildstæða löggjöf um náttúruvernd.

Helstu breytingar og nýjungar

Sett eru fram ítarlegri markmiðsákvæði og sérstök verndarmarkmið varðandi vistgerðir, vistkerfi og landslag. Útfærðar eru nokkrar af helstu meginreglum umhverfisréttar og kveðið með skýrari hætti á um hlutverk og ábyrgð stjórnvalda. Staða almannaréttar er styrkt og gert er ráð fyrir auknu samráði við hagsmunaaðila og almenning. Lagt er til að náttúruminjaskrá verði meginstjórntæki náttúruverndar á Íslandi og að sérstakur sjóður, náttúruverndarsjóður, verði settur á laggirnar til að stuðla að náttúruvernd og umönnun friðaðra og friðlýstra náttúruminja.

Breytingar á lögum og tengd mál

Nýjum lögum er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 44/1999, um náttúruvernd, og þá verða einnig gerðar nokkrar breytingar á 14 lögum sem tengjast málinu.
  • Skylt mál: Náttúruvernd, 225. mál (umhverfisráðherra) á 140. þingi (08.11.2011)
  • Skylt mál: Náttúruvernd, 167. mál (umhverfis- og auðlindaráðherra) á 143. þingi (13.11.2013)
  • Skylt mál: Umferðarlög, 307. mál (samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra) á 146. þingi (20.03.2017)

Kostnaður og tekjur

Sveitarfélögin gera ráð fyrir að útgjöld þeirra muni aukast um 20–50 milljónir kr. á ári. Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist um 24 milljónir kr. á árinu 2013 og 48  milljónir kr. á ári eftir það en þau gætu einnig aukist um 105,5 milljónir kr. á ári, ef ákveðið yrði að fjölga náttúruverndarumdæmum. Tekið er fram að ekki sé gert ráð fyrir þeim útgjaldaauka í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 né heldur í langtímaáætlun um ríkisfjármál.

Umsagnir (helstu atriði)

Fjölmargar umsagnir bárust og beinast athugasemdir að flestum köflum frumvarpsins. Umsagnaraðilar telja að margt sé til bóta en sumir benda á að meira samráð og samvinnu hefði þurft við undirbúning og gerð frumvarpsins.

Afgreiðsla

Frumvarpið var samþykkt sem lög með fjölmörgum orðalagsbreytingum sem styrktu meginmarkmið laganna.

Aðrar upplýsingar


Náttúruvernd. Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands (2011). Reykjavík. Umhverfisráðuneytið.
Fréttatilkynning umhverfisráðuneytis um útkomu Hvítbókarinnar 6. september 2011. VII. Umhverfisþing  2011. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Löggjöf á Norðurlöndum

Noregur

Lov om forvaltning av naturens mangfold (naturmangfoldloven. LOV-2009-06-19-100.

Danmörk
Bekendtgørelse af lov om naturbeskyttelse (Naturbeskyttelsesloven) LBK nr 933 af 24/09/2009 .

Svíþjóð
Miljöbalk nr. 808/1998.

Finnland
Naturvårdslag nr. 1096/1996.


Síðast breytt 12.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.