Samantekt um þingmál

Fæðingar- og foreldraorlof

496. mál á 141. löggjafarþingi.
Velferðarráðherra.

Markmið

Að stuðla að því að þau markmið fæðingar- og foreldraorlofslaganna að tryggja barni samvistir við báða foreldra og að konum og körlum verði gert kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf nái fram að ganga.

Helstu breytingar og nýjungar

Gert er ráð fyrir lengingu fæðingarorlofs, að í fyrsta áfanga verði mánuði bætt við sameiginlegan rétt foreldra þannig að foreldrar barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2014 eigi rétt á þremur mánuðum hvort um sig auk þess sem þeir geti skipt á milli sín fjórum mánuðum að eigin vild. Þannig verði rétturinn samtals 10 mánuðir.
Í öðrum áfanga verði rétturinn samtals 11 mánuðir árið 2015 og í þriðja áfanga 12 mánuðir árið 2016.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000.

Kostnaður og tekjur

Áætlað er að útgjöld Fæðingarorlofssjóðs árið 2013 verði rúmlega 8,4 milljarðar kr. og innan fjárheimilda í fjárlagafrumvarpinu 2013. Á árinu 2014 er áætlað að útgjöld sjóðsins verði rúmlega 9,6 milljarðar kr. eða rúmum 1,1 milljarði kr. umfram fjárheimildir og forsendur í gildandi ríkisfjármálaáætlun. Í lok árs 2017 er áætlað að útgjöldin verði 12,1 milljarður kr. eða 3,6 milljarðar kr. umfram núverandi fjárheimildir.

Umsagnir (helstu atriði)

Umsagnir voru almennt jákvæðar, en einnig bárust tillögur um úrbætur. Meðal annars var lagt til að hámarksgreiðsla í fæðingarorlofi yrði 400 þús. kr. en ekki 350 þús. kr. eins og lagt er til í frumvarpinu. Einnig var bent á að æskilegt væri að fæðingarorlofi væri skipt sem jafnast milli foreldra. SFR benti á að í lögum um fæðingarorlof væri ekki tekið á aðstæðum einstæðra foreldra.

Afgreiðsla

Helstu breytingar sem meiri hluti velferðarnefndar lagði til sneru að lengd fæðingarorlofs. Á árinu 2016, þegar breytingin verður að fullu komin til framkvæmda, mun hvort foreldri um sig eiga sjálfstæðan óframseljanlegan rétt til fæðingarorlofs í fimm mánuði en sameiginlegur réttur foreldra verður tveir mánuðir. Lagt er til að einhleypar mæður sem hafa gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypir foreldrar sem hafa einir ættleitt börn eða tekið börn í varanlegt fóstur geti nýtt sér fullan rétt til fæðingarorlofs. Tillögurnar voru samþykktar ásamt orðalagsbreytingum sem komu fram við þriðju umræðu.

Aðrar upplýsingar

Löggjöf á Norðurlöndum
Noregur

Lov om arbeidsmiljø, arbeidstid og stillingsvern mv. (arbeidsmiljøloven) LOV-2005-06-17-62.
Kafli 12-4.

Danmörk
Bekendtgørelse af lov om ret til orlov og dagpenge ved barsel (barselloven) LBK nr 1070 af 14/11/2012.

Svíþjóð
Föräldraledighetslag (1995:584). 

Finnland
Arbetsavtalslag 26.1.2001/55.
4. kafli.



Síðast breytt 17.01.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.