Samantekt um þingmál

Málefni innflytjenda

64. mál á 141. löggjafarþingi.
Velferðarráðherra.

Markmið

Að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur, óháð þjóðerni og uppruna.

Helstu breytingar og nýjungar

Kveðið er á um að starfrækja skuli sérstaka stofnun, Fjölmenningarsetur, sem hafi m.a. það hlutverk að vinna með sveitarstjórnum að því að efla þjónustu við erlenda ríkisborgara og auðvelda aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. Einnig eru ákvæði í frumvarpinu um innflytjendaráð og ákvæði um lögfestingu þróunarsjóðs innflytjendamála.

Breytingar á lögum og tengd mál

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Umsagnir (helstu atriði)

Þær umsagnir sem bárust voru almennt jákvæðar. Fram komu ábendingar um að nauðsynlegt væri að á höfuðborgarsvæðinu væri rekin ráðgjöf fyrir innflytjendur um réttindi þeirra og skyldur. Einnig komu fram efasemdir um nauðsyn þess að setja á fót sérstaka ríkisstofnun um þennan málaflokk.

Afgreiðsla

Velferðarnefnd lagði fram nefndarálit með breytingartillögu þar sem lagðar voru til orðalagsbreytingar með það að markmiði að leggja áherslu á það hlutverk Fjölmenningarseturs að taka saman upplýsingar um málefni innflytjenda og miðla þeim til þeirra sem á þurfa að halda. Þessar breytingartillögur voru samþykktar og varð frumvarpið að lögum svo breytt.

Aðrar upplýsingar

Fjölmenningarsetur
Innflytjendaráð
Stefna ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda (2007). Reykjavík: Félagsmálaráðuneytið.
Skýrsla nefndar um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi (2005). Reykjavík: Félagsmálaráðuneytið.
Greinargerð og tillögur starfshóps um þjónustu við innflytjendur á Íslandi (2004). Reykjavík: Félagsmálaráðuneytið.

Fjölmiðlaumfjöllun

Sabine Leskopf. Mamma, ég held að þú sért með krabbamein. Fréttablaðið 10.3.2012.



Síðast breytt 12.04.2013. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.