Samantekt um þingmál

Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks

454. mál á 144. löggjafarþingi.
Félags- og húsnæðismálaráðherra.

Markmið

Að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi á vinnustöðum og að tryggja lagalegan grundvöll samstarfsverkefnisins um notendastýrða persónulega aðstoð á meðan endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks stendur yfir.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Lagðar eru til breytingar varðandi samskipti Vinnueftirlits ríkisins og atvinnurekenda. Lagt er til að kveðið verði á um tímabundna heimild til undanþágu frá hvíldartíma og næturvinnutíma vegna þeirra starfsmanna sem starfa við notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).
Jafnframt er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða varðandi samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) verði framlengdur til ársloka 2016. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980.
Lög um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að framlenging gildistíma ákvæðis um NPA auki útgjöld ríkissjóðs um 65 milljónir kr. árin 2015 og 2016. 

Umsagnir (helstu atriði)

Umsagnir voru almennt jákvæðar. Bent var á að huga þyrfti að réttindum og starfsaðstöðu starfsmanna sem starfa innan NPA. Lýst var áhyggjum af því að ekki væri nægilegt fé tryggt til NPA-verkefnisins.

Afgreiðsla

Frumvarpið var samþykkt með minni háttar breytingum.


Síðast breytt 01.07.2015. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.