Samantekt um þingmál

Stjórnarskipunarlög

841. mál á 145. löggjafarþingi.
Sigurður Ingi Jóhannsson.

Markmið

Að leggja til breytingar á stjórnarskránni með hliðsjón af vinnu undanfarinna ára og annarri þróun í stjórnarskrármálum á alþjóðavettvangi. 

Helstu breytingar og nýjungar

Á eftir 78. gr. stjórnarskrárinnar koma þrjár nýjar greinar sem fjalla um umhverfisvernd, þjóðareign á náttúruauðlindum og þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta almennra kjósenda.
Lagt er til að við stjórnarskrána verði bætt ákvæði um umhverfi og náttúru. Mælt verði fyrir um náttúruvernd, rétt til heilnæms umhverfis, almannarétt og upplýsinga- og þátttökurétt. Þá er lagt til að bætt verði við ákvæði um auðlindir náttúru Íslands. Sett er fram almennt ákvæði um að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni og jafnframt kveðið á um meginforsendur auðlindanýtingar, mælt fyrir um þjóðareign á náttúruauðlindum og landsréttindum sem ekki eru háð einkaeignarrétti, sett skilyrði fyrir veitingu heimilda til nýtingar auðlinda og landsréttinda í eigu ríkisins og í þjóðareign og kveðið á um skyldu ríkisins til þess að taka að jafnaði eðlilegt gjald fyrir. Í frumvarpinu er auk þess lagt til að bætt verði við ákvæði um að 15% kosningarbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög frá Alþingi sem hlotið hafa staðfestingu forseta Íslands. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Kostnaður og tekjur

Kemur ekki fram í frumvarpi.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar

Stjórnarskrá Íslands. Stjórnarskrárnefndir, saga, ítarefni o.fl. Forsætisráðuneytið.
Breytingar á stjórnarskrá frá 1944. Tenglar í frumvörp um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem hafa orðið að lögum frá 1944. Alþingi.

Löggjöf á Norðurlöndum

Danmörk
Danmarks riges Grundlov. Foketinget 2009.
Danmarks riges Grundlov (Grundloven) Lov nr. 169 af 05/06/1953.

Noregur
Kongeriget Norges Grunnlov LOV-1814-05-17.

Svíþjóð
Grundlagarna Sveriges riksdag.
Kungörelse ( 1974:152 ) om beslutad ny regeringsform.
Successionsordning ( 1810:0926).
Tryckfrihetsförordning ( 1949:105).
Yttrandefrihetsgrundlag ( 1991:1469).

Finnland
Finlands grundlag 11.6.1999/731



Síðast breytt 18.10.2016. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.