Samantekt um þingmál

Jöfn meðferð á vinnumarkaði

394. mál á 148. löggjafarþingi.
Félags- og jafnréttismálaráðherra.

Markmið

Að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að skýrt verði kveðið á um að bein eða óbein mismunun á vinnumarkaði á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar sé óheimil og þannig tryggð jöfn meðferð einstaklinga óháð þessum þáttum á íslenskum vinnumarkaði. Að auki er lagt til að fyrirmæli um mismunun vegna fyrrgreindra þátta teljist mismunun í skilningi frumvarpsins. Sama á við um áreitni þegar hún tengist einhverjum af þessum þáttum. Gert er ráð fyrir að Jafnréttisstofa annist stjórnsýslu í tengslum við framkvæmd laganna. Með samþykkt frumvarpsins er tryggt að efnislegt samræmi sé í íslenskum rétti og þeim rétti sem gildir innan Evrópusambandsins á grundvelli tilskipunar 2000/43/EB um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna á tillits til kynþáttar eða þjóðernis að því er varðar vinnumarkaðinn og tilskipunar 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum á útgjöld ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með þeim breytingum helstum að skilgreiningu á fötlun er breytt og skýrt er kveðið á um að Jafnréttisstofa hafi heimild til að leggja á dagsektir verði fyrirtæki eða stofnanir uppvísar að alvarlegum brotum gegn lögunum og láti ekki af háttsemi sem brýtur í bága við lögin þrátt fyrir tilmæli um það. Enn fremur er gildistöku laganna frestað til 1. september 2018.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun ráðsins 2000/43/EB frá 29. júní 2000 um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis.

Tilskipun ráðsins 2000/78/EB frá 27. nóvember 2000 um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi.

Félagsmálasáttmáli Evrópu

Mannréttindasáttmáli Evrópu

Samningur Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi

Samningur Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi

Löggjöf á Norðurlöndum

Danmörk

Bekendtgørelse af lov om forbud mod forskelsbehandling på arbejdsmarkedet m.v.  LBK nr 1001 af 24/08/2017

Finnland

Diskrimineringslag  30.12.2014/1325

Noregur

Lov om likestilling og forbud mot diskriminering (likestillings- og diskrimineringsloven)  LOV-2017-06-16-51

Svíþjóð

Diskrimineringslag  (2008:567)



Síðast breytt 12.06.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.