Samantekt um þingmál

Fjármálaáætlun 2019–2023

494. mál á 148. löggjafarþingi.
Stjórnartillaga. Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að útfæra markmið fjármálastefnu um tekjur og gjöld hins opinbera og þróun þeirra.

Helstu breytingar og nýjungar

Alls er gert ráð fyrir að heildarfjárfesting hins opinbera muni nema um 338 milljörðum kr. á tímabilinu 2019-2023. Meðal helstu verkefna er bygging nýs Landspítala við Hringbraut og Húss íslenskunnar, innviðauppbygging á ferðamannastöðum, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og uppbygging hjúkrunarheimila.

Heilbrigðismál
Áætlað er að heildarútgjöld verði 1.187,3 milljarðar kr. á tímabilinu. Fyrir utan uppbyggingu Landspítala eru helstu verkefnin þau að efla geðheilbrigðismál, styrkja heilsugæsluna og draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga.

Félags-, húsnæðis- og tryggingamál
Reiknað er með að heildarútgjöld verði um 1.083,4 milljarðar kr. á tímabilinu. Gert er ráð fyrir kerfisbreytingu til að bæta kjör örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Einnig er áformað að hækka hámarksfjárhæðir í fæðingarorlofi og lengja orlofstímann.

Mennta- og menningarmál
Áætlað er að heildarútgjöld verði 509 milljarðar kr. á tímabilinu. Aðaláherslan er á aukin framlög til háskóla og lögð verður áhersla á aðgerðaáætlun um máltækni, eflingu höfuðsafna og styrkingu faglegra starfslauna- og verkefnasjóða listamanna.

Samgöngu- og fjarskiptamál
Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld nemi 200 milljörðum kr. á tímabilinu. Gert er ráð fyrir að 5,5 milljörðum verði árlega veitt í tímabundið átak í samgönguframkvæmdum árin 2019-2021 og það verði fjármagnað með arðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. Meðal helstu framkvæmda eru Dýrafjarðargöng, Dettifossvegur, Grindavíkurvegur og Vesturlandsvegur um Kjalarnes. Að auki er reiknað með að ljósleiðaravæðingu landsins verði lokið árið 2020.

Almanna- og réttaröryggi
Reiknað er með að heildarútgjöld verði 144 milljarðar kr. á tímabilinu. Bæta á landamæravörslu og samþætta landamærastjórnun, styrkja löggæslu og rekstur Landhelgisgæslunnar og vinna að aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota.

Umhverfismál
Áætlað er að heildarútgjöld nemi 99 milljörðum kr. á tímabilinu. Unnið verður að stofnun Miðhálendisþjóðgarðs, stutt við landvörslu og framlög aukin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Utanríkismál
Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld verði 86 milljarðar kr. á tímabilinu. Reiknað er með að framlög til opinberrar þróunarsamvinnu aukist úr 0,26% af vergum þjóðartekjum á yfirstandandi ári í 0,35% árið 2022. Áætlað er að framlög til uppbyggingarsjóðs EES fari hækkandi á tímabilinu og gert er ráð fyrir aukningu vegna varnarsamstarfs við Bandaríkin og aðildar að Atlantshafsbandalaginu.

Í áætluninni er gengið út frá því að tekjuskattur í neðra skattþrepi geti lækkað um eitt prósentustig í áföngum á áætlunartímanum. Einnig er stefnt að heildarendurskoðun tekjuskatts einstaklinga samhliða endurskoðun bótakerfa. Gert er ráð fyrir lækkun tryggingagjalds um 0,25 prósentustig á árinu 2019, úr 6,85% í 6,6%. Stefnt er að því að virðisaukaskattur á bækur verði afnuminn í byrjun árs 2019. Sérstakur bankaskattur verður lækkaður úr 0,376% í 0,145% á áætlunartímabilinu. Fyrirhugað er að hækka kolefnisgjald um 10% árið 2019 og aftur 2020. Miðað er við að gjaldtaka á ferðamenn verði hafin frá og með árinu 2020.

Stefnt er að því að heildarskuldir hins opinbera samkvæmt viðmiðum laga um opinber fjármál fari undir lögboðið 30% viðmið í árslok 2019, eða ári fyrr en fjármálastefnan gerir ráð fyrir og verði um 22% í árslok 2023.

Breytingar á lögum og tengd mál

Kostnaður og tekjur

Áætlaðar heildartekjur og -gjöld fyrir tímabilið 2019-2023:

            Tekjur                                     Útgjöld

2019:   1.235,4 milljarðar kr.               1.198,7 milljarðar kr.

2020:   1.290,8 milljarðar kr.               1.255,8 milljarðar kr.

2021:   1.347,2 milljarðar kr.               1.314,4 milljarðar kr.

2022:   1.399,1 milljarðar kr.               1.364,2 milljarðar kr.

2023:   1.464,0 milljarðar kr.               1.423,0 milljarðar kr.

Afgreiðsla

Þingsályktunartillagan var samþykkt óbreytt.

Aðrar upplýsingar

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálaáætlun. Almennar upplýsingar um fjármálaáætlun.

Fjármálaáætlun 2019-2023. Kynningarefni.

 

Hagstofan

Fjármál hins opinbera. Útgáfur, talnaefni, fréttatilkynningar.

Efnahagur. Hér er hægt að sækja sögulegar, tölulegar upplýsingar um: fjármál hins opinbera, þjóðhagsreikninga, þjóðhagsspá, utanríkisverslun og verðlag.


Seðlabanki Íslands

Fjármálastöðugleiki.

Hagtölur. Seðlabankinn annast skipulega öflun, skráningu og úrvinnslu tölfræðilegra gagna.

Hagvísar Seðlabanka Íslands. Yfirlit efnahagsmála og safn hagvísa.



Síðast breytt 08.06.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.