1.10.2010

Ávarp forseta Alþingis, Ástu R. Jóhannesdóttur, við setningu Alþingis 1. október 2010

Ég býð háttvirta alþingismenn og gesti Alþingis við þingsetningarathöfnina velkomna á þessum fagra haustdegi. Ég vænti þess að mega eiga gott samstarf við alla háttvirta alþingismenn á nýju löggjafarþingi og vona að störf okkar megi verða landi og þjóð til gæfu.

Alþingi er mikilvægasta stofnun lýðræðisins í landinu. Umræðan um Alþingi í þjóðfélaginu um þessar mundir er hins vegar mikið áhyggjuefni. Ég hvet alla alþingismenn til að taka þátt í þessari umræðu og leiða hana inn á ábyrgar brautir. Ímynd Alþingis í hugum landsmanna er á ábyrgð okkar sem sitjum hér í þessum þingsal, og þar með heilbrigt stjórnmálalíf í landinu.

Alþingismenn vinna drengskaparheit að stjórnarskránni er þeir setjast á Alþingi. Í því felst m.a. loforð um að fylgja samvisku sinni og sannfæringu í öllum þingstörfum. Við skulum ekki ætla neinum annað en að svo sé og í samræmi við það skulum við virða skoðanir hver annars.

Lengsta þing sögunnar og eitt það erfiðasta er að baki og mörg brýn verkefni bíða úrlausnar á nýju þingi. Ég heiti á þingmenn að láta átök liðinna daga og vikna ekki hafa áhrif á vinnuna fram undan þótt það geti reynst einhverjum erfitt. Höfum í huga samhljóða samþykkt allra 63 þingmanna um bætt vinnubrögð á Alþingi, og um að taka alvarlega gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu og draga af henni lærdóm.

Undanfarin tvö ár hafa verið óvenjuleg í störfum Alþingis. Hér hafa ríkt miklar annir og þinghaldið verið með öðrum hætti en tíðkast hefur áður. Erfitt hefur því reynst að fylgja starfsáætlun Alþingis að fullu. Ég tel hins vegar mikilvægt að við tökum höndum saman um að gera starfsáætlunina að nýju að marktækri vinnuáætlun þingsins. Það er þýðingarmikið að hver og einn alþingismaður geti á grundvelli starfsáætlunar þingsins og vikuáætlana skipulagt störf sín vel, ekki síst þegar þinghaldið hefur lengst jafnmikið og raun ber vitni. Ég minni á að nú á tímum eru gerðar miklar kröfur til alþingismanna og ráðherra um þátttöku í margs konar stjórnmálastarfi utan við vettvang þingsins. Það er því brýnt að allir sem að þinghaldinu koma geti miðað störf sín við samþykkta starfsáætlun og treyst því að ekki sé frá henni vikið nema í algjörum undantekningartilvikum.

Til þess að þetta megi ganga eftir þurfa allir að leggjast á eitt. Ég vænti því góðs samstarfs við ríkisstjórn og þingmenn um framgang þingstarfanna. Þingmenn þurfa að gæta að því að dagskrá þingfunda fari ekki úr böndum og ráðherrar verða að huga tímanlega að þeim þingmálum sem þeir hyggjast leggja fyrir Alþingi. Ég vil sérstaklega hvetja ráðherra til að leggja fram á allra næstu dögum þau mál sem voru óafgreidd á síðasta þingi en ætlað er að verði að lögum.

Sá mikli tími sem að jafnaði fer í þingfundi hér á Alþingi vegna langra umræðna vekur spurningar um hvort réttu skipulagi sé fylgt. Þegar við lítum til nágrannalanda okkar í þessum efnum kemur í ljós að við erum sér á báti, ekki síst með tilliti til þess hversu fámennt Alþingi er í þeim samanburði. Endurtekningar eru mjög áberandi í umræðum, oft og tíðum. Þetta er umhugsunarefni í ljósi þess að almennt er talið mikilvægt að fulltrúar á þjóðþingi hafi líka tíma til að sinna sem best samskiptum við kjósendur og einangrist ekki í heimi þar sem þinghúsið verður miðpunktur tilverunnar. Ég hvet til þess að við hugum að þessari þróun og gerum okkur far um að snúa henni við. Höfum í huga að tengslin út í þjóðfélagið eru ekki síður mikilvæg en hin eiginlegu þingstörf.

Ég minni á að við lok vorþings lagði ég fram frumvarp til breytinga á þingsköpum sem byggir á tillögum sérfræðingahóps forsætisnefndar um þingeftirlit. Með því frumvarpi má segja að brugðist hafi verið við megintillögum vinnuhóps um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Í ályktun þeirri sem Alþingi samþykkti samhljóða fyrr í þessari viku segir að endurskoða skuli lög um þingsköp. Það ákvæði byggir á þeirri niðurstöðu skýrslu þingmannanefndarinnar að efla beri eftirlitsstarf Alþingis, m.a. með ákvæði um upplýsingaskyldu ráðherra og sérstakri eftirlitsnefnd þingsins. Jafnframt eru tillögur um að staða stjórnarandstöðunnar verði styrkt með því að hún fái formennsku í fastanefndum í hlutfalli við þingstyrk sinn. Ég heiti á alþingismenn að veita þessum tillögum brautargengi svo að ljúka megi þessari umbótavinnu á þinginu sem nú er að hefjast.

Ég vil greina frá því að forsætisnefnd hefur ákveðið, að höfðu samráði við formenn þingflokka, að breyta fundartíma þingflokka. Það er til mikils hagræðis fyrir þingstörfin að þingflokkarnir geti komið saman áður en þingfundir hverrar viku hefjast. Fundir þingflokka verða því fyrir upphaf þingfunda þrjá fyrstu daga vikunnar; frá kl. 1 til 3 á mánudögum, eins og verið hefur, og frá kl. 1 til kl. 2 á þriðjudögum og miðvikudögum, sem er nýjung. Síðdegisfundir þingflokka á miðvikudögum falla hins vegar niður. Verði þörf á meiri tíma til þingflokksfunda má hefja fundina fyrr. Þá verður einnig sú breyting að fyrirspurnafundur, sem verið hefur á miðvikudögum í viku hverri, verður fluttur til mánudags og mun hann hefjast kl. 3.30 síðdegis að loknum óundirbúnum fyrirspurnatíma. Þessar breytingar taka gildi við upphaf þessa þings.