23.9.2009

Vinnuhópur um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu kynnir skýrslu sína

Forseti Alþingis og vinnuhópur um eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu héldu fréttamannafund í Alþingishúsinu fimmtudaginn 24. september og kynntu skýrslu vinnuhópsins.

Í skýrslunni er staða þingsins í stjórnskipuninni skoðuð vandlega og settar fram skýrar ábendingar um eflda möguleika Alþingis til að rækja eftirlitshlutverk sitt. Helstu ábendingar nefndarinnar verða kynntar á fréttamannafundinum.

Í júní 2008 fól forsætisnefnd vinnuhópi þriggja lögfræðinga að fara yfir núgildandi lagareglur um eftirlit Alþingis með handhöfum framkvæmdarvalds og leggja mat á hvort breytinga væri þörf. Í vinnuhópnum áttu sæti: Bryndís Hlöðversdóttir aðstoðarrektor og formaður vinnuhópsins, Ragnhildur Helgadóttir prófessor og Andri Árnason hrl. Með hópnum starfaði Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir hvað átt er við með þingeftirliti og markmiðum þess, sögu þingeftirlits hér á landi, reglum um upplýsingarétt alþingismanna og upplýsingaskyldu ráðherra, eftirlitshlutverki fastanefnda þingsins, þingskipuðum rannsóknarnefndum, pólitískri og lagalegri ábyrgð ráðherra og meðferð mála fyrir landsdómi auk eftirlitshlutverki Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis. Þessi atriði eru borin saman við fyrirkomulag þingeftirlits í nágrannaríkjunum, einkum í Noregi og Danmörku, og að lokum lagðar til ákveðnar breytingar á reglum um þessi efni:

Að ríkisstjórnin skili árlegri skýrslu til þingsins um framkvæmd þingsályktana.

Að skerpa á ákvæði um þingræði í stjórnarskrá og fjalla þar e.t.v. um vantraust.

Að lögfesta ákveðnar reglur um upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart þinginu.

Að heimila að legga fram tillögu að ályktun í tengslum við umræður um fyrirspurnir eða utandagskrárumræður.

Að setja skýrari reglur um upplýsingarétt þingmanna og aðgang þingsins, einkum þingnefnda, að gögnum hjá stjórnvöldum.

Að setja reglur um heimild ráðherra til að leggja fyrir Alþingi upplýsingar sem eru háðar þagnarskyldu, um örugga meðhöndlun trúnaðarupplýsinga og um þagnarskyldu alþingismanna um upplýsingar sem leynt eiga að fara.

Að fækka fastanefndum þingsins en fela nýrri nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sérstaklega að sinna eftirlitshlutverki.

Að sett verði almenn lög um meðferð mála fyrir rannsóknarnefndum utanþingsmanna, skipan þeirra og heimildir.

Að skýra refsiheimildir ráðherraábyrgðarlaga og að hve miklu leyti almennum refsiskilyrðum almennra hegningarlaga verði beitt um brot gegn lögunum.

Að taka skipulag landsdóms til skoðunar m.a. í því skyni að draga úr pólitísku ívafi dómsins.

Að íhuguð verði úrræði til að beina gagnrýni á embættisfærslu ráðherra í mildari farveg en tillögu um vantraust.

Að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verði falið að undirbúa mál er tengjast ábyrgð ráðherra og setja skýrar reglur um meðferð þeirra.

Nánari upplýsingar veita:
Bryndís Hlöðversdóttir, sími 699 3414
Ásmundur Helgason, sími 696 1389