28.8.2009

Ávarp þingforseta, Ástu R. Jóhannesdóttur, við þingfrestun 28. ágúst 2009

Háttvirtir alþingismenn

Komið er að lokum síðasta fundar þessa sumarþings. Þetta þing er um margt sérstakt. Það er hið lengsta sumarþing í sögu Alþingis. Það hefur staðið frá 15. maí eða á fjórða mánuð. Frá því að farið var að halda reglulegt sumarþing í kjölfar alþingiskosninga 1991 hefur það áður staðið lengst í mánuð, en það var sumarið 1995.

Það hefur orðið hlutskipti þessa þings að taka til meðferðar mál sem líklega er það erfiðasta sem fyrir Alþingi hefur komið um langan tíma sem er ríkisábyrgðin á lánum skv. „Icesave-samningnum“. Ítarleg umfjöllun Alþingis um það mál er vitaskuld meginástæða þess hversu teygst hefur úr þessu sumarþingi. Ég vil þakka fjárlaganefnd þingsins fyrir vandaða athugun á málinu og öllum þeim sem voru nefndinni til aðstoðar í þeim efnum. Þessa síðustu daga og vikur hefur hvílt mikið álag á þingmönnum og starfólki þingsins og vinna hefur oft og tíðum staðið langt fram á nætur og jafnvel fram undir morgun.

Ég vil geta þess að auk ríkisábyrgðarinnar varð 31 frumvarp að lögum og tvær þingsályktanir voru samþykktar. Er þetta mesti málafjöldi sem afgreiddur hefur verið á sumarþingi síðan á aukaþinginu sumarið 1931.

Þegar þing kom saman í vor voru nýir þingmenn fleiri en nokkru sinni áður. Það hefur auðvitað ekki verið auðvelt fyrir þennan stóra hóp nýrra þingmanna að þurfa að stíga sín fyrstu skref á Alþingi við þær aðstæður sem hér hafa ríkt í sumar. Þær aðstæður hafa reynt á marga. Ég skal ekki leyna því að ég hefði kosið meiri festu á þinghaldinu, einkum hér í þingsalnum við umræður og atkvæðagreiðslur í sumar. Þjóðin þarf að hafa trú á Alþingi og finna fyrir ábyrgð og festu hér á þessum vettvangi. Ásýnd þingstarfanna – sem nú á dögum er fyrir augum hvers Íslendings – er undir þingmönnum sjálfum komin. Ég heiti á þá að gæta virðingar sinnnar og þar með þessarar mikilvægu stofnunar.

Þó að þingsköp geri ráð fyrir að þing- og nefndafundir séu haldnir í september þá hefur það orðið að samkomulagi milli forseta og forustu þingsins og ríkisstjórnarinnar í ljósi þessa langa sumarþings að fella niður að þessu sinni septemberfundi svo að tími gefist til að undirbúa næsta löggjafarþing sem hefst samkvæmt stjórnarskrá 1. október nk.

Ég ítreka að lokum þakkir mínar til þingmanna og starfsfólks fyrir gott samstarf og mikla og góða vinnu á þessu sumarþingi. Ég vænti þess að við hittumst öll heil á ný er Alþingi kemur saman í byrjun októbermánaðar en þá bíða okkar ný og krefjandi verkefni.