30.12.2008

Ræða forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar, við þingfrestun 22. desember

Þá er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Störf þessa haustþings hafa sannarlega verið með nokkuð öðrum hætti en venja er. Frá því að Alþingi var sett 1. október sl. hafa störfin hér að miklu leyti mótast af þroti bankanna og því ástandi sem það skapaði í okkar samfélagi. Stór hluti þeirra laga sem við höfum afgreitt á síðustu dögum og vikum hefur tengst þessu mikla máli.

Við afgreiðslu fjárlaga hefur óhjákvæmilega orðið að draga verulega úr ríkisútgjöldum. Alþingi hefur því eins og aðrar opinberar stofnanir gripið til aðhaldsaðgerða í öllum rekstri þingsins eins og þingmenn munu verða varir við þegar nýtt ár gengur í garð. Jafnframt er nauðsynlegt að vera vakandi fyrir frekari möguleikum á sparnaði í starfsemi þingsins. Einn þáttur sem ég tel að við eigum að íhuga alvarlega er að gera breytingar á fastanefndum þingsins. Verulegur ávinningur, bæði fjárhagslegur og faglegur, gæti orðið af því að fækka nefndum þingsins. Þær eru núna 12 að tölu en með góðu móti, og góðu skipulagi, mætti fækka þeim í sjö. Fyrir utan þann fjárhagslega sparnað sem af þessu leiddi væri margvíslegur annar ávinningur og hagræðing af slíkri breytingu. Vil ég nefna hér þrjú atriði:

Í fyrsta lagi gæti hver alþingismaður sinnt nefndastörfum betur þar sem flestir yrðu eingöngu í einni nefnd. Þingmenn gætu því betur helgað sig skyldum málefnasviðum. Slíkt mundi og styrkja eftirlitshlutverk þingsins. Með því að flestir væru eingöngu í einni nefnd mundi það jafnframt að mestu heyra sögunni til að þingmaður þyrfti að standa frammi fyrir því á annatíma þingsins, sem við þekkjum, að vera á tveimur nefndafundum á sama tíma eins og gjarnan gerist við núverandi skipulag.

Í öðru lagi mundi þessi breyting skapa aukið svigrúm til nefndafunda, en nefndir eru nú oft aðþrengdar með fundartíma. Auðveldara yrði að gera fundatöflu fyrir nefndir og meiri möguleiki á aukafundum í nefndum. Í þessu sambandi skapaðist betra tækifæri og tími til að halda opna nefndafundi, en slíkir fundir krefjast oft meiri tíma en hefðbundnir nefndafundir.

Í þriðja lagi tel ég að fækkun nefnda mundi þýða að hver nefnd hefði sterkari stöðu bæði utan þings og innan. Svipað gerðist þegar deildaskiptingin var afnumin árið 1991 og ein fagnefnd á hverju málasviði kom í stað tveggja samkynja nefnda áður.

Erfiðleikar í bankakerfinu hafa sýnt okkur fram á mikilvægi þess að Alþingi búi við fastmótaðar reglur um eftirlitshlutverk þess, enda reynir nú meira á Alþingi sem eftirlitsaðila en nokkru sinni áður. Starf þess vinnuhóps sem forsætisnefnd Alþingis skipaði síðasta sumar til að yfirfara lagareglur um þingeftirlit er því enn mikilvægara en við sáum fyrir þegar vinnuhópurinn var settur á fót. Ég hef því farið þess á leit við hópinn að hann skili skýrslu sinni fyrr en ætlað var og er von mín að niðurstöðurnar verði kynntar forsætisnefnd fyrir lok þinghalds í vor.

Ég tel að Alþingi hafi brugðist hárrétt við með því að samþykkja sérstök lög um rannsókn á aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna og tengdra atburða. Allur hinn faglegi undirbúningur þess máls hefur verið á hendi Alþingis og er það staðfesting á þeirri þróun sem orðið hefur innan Alþingis og lýsir sér í auknu faglegu sjálfstæði þingsins.

Það er líka ánægjulegt að breið pólitísk samstaða hafi tekist um hina lagalegu umgjörð um rannsókn málsins. Gert er ráð fyrir að rannsóknarnefndin kalli til liðs við sig ýmsa sérfræðinga, innlenda og erlenda, og hefur Alþingi þegar tryggt fjármagn til þeirrar vinnu.

Ég vil að lokum færa þingmönnum öllum, svo og starfsfólki Alþingis, þakkir fyrir gott samstarf á haustþinginu, óska öllum gleðilegrar og friðsællar jólahátíðar og þakka samstarfið á því ári sem nú er brátt á enda.

Þeim sem eiga um langan veg að fara heim óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári. Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýársóskir.