6.6.2013

Ávarp forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, við setningu Alþingis

Ávarp forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, við setningu Alþingis 6. júní 2013.

Háttvirtir alþingismenn.

Ég vil í upphafi þakka fyrir það mikla traust sem mér er sýnt með kjöri sem forseti Alþingis. Á herðar mínar hefur verið lögð sú mikla ábyrgð að hafa forustu um störf þingsins. En þótt segja megi að sá veldur sem á heldur er auðvitað öllum ljóst að til þess að vel takist þarf að ríkja gott samkomulag um þingstörfin hjá þingmönnum öllum og gagnkvæmt traust stjórnar og stjórnarandstöðu.

Við komum nú saman að loknum alþingiskosningum sem breyttu mjög pólitískum valdahlutföllum í landinu. Þessa mun örugglega sjá stað í störfum þingsins þegar ný ríkisstjórn kynnir áhersluatriði sín í formi þingmála sem eiga eftir að líta dagsins ljós. Slíkar breytingar kalla á umræður eins og eðlilegt er í lýðræðislegu samfélagi þar sem þingið er vettvangur pólitískra skoðanaskipta. Þess má vænta að sumarþingið, sem nú hefur störf, standi ekki ýkja lengi. Í haust komum við svo saman að nýju þar sem gera má ráð fyrir að þingmál nýrrar ríkisstjórnar og áhersluatriði stjórnarandstöðunnar verði grundvöllur pólitískrar umræðu.

Mjög miklar breytingar hafa orðið á skipan Alþingis á undanförnum árum. Síðustu alþingiskosningar leiddu til þess að nú taka 27 nýir þingmenn sæti á Alþingi. Þetta er 43% þingheims, eða nær helmingur þingmanna. Í sögulegu samhengi séð eru þetta gríðarlega miklar breytingar. Aðgengilegar tölur um hlutfall nýrra alþingismanna ná um 80 ár aftur í tímann, eða frá árinu 1933. Fram að síðustu alþingiskosningum voru nýir þingmenn, sem settust á þing, að jafnaði um 28% þingmanna. Í síðustu þrennum kosningum hefur þetta hlutfall þó verið miklu hærra. Þannig voru nýir þingmenn um 38% eftir alþingiskosningar 2007 og tæp 43% tveimur árum síðar, árið 2009. Í dag eru á Alþingi einungis 11 þingmenn sem sátu á 133. þingi veturinn 2006 til 2007, eða fyrir sex árum. Þetta er um 17% þingheims. 83% núverandi þingmanna voru því kjörnir á þing árið 2007 eða síðar. Það er því óhætt að segja að aldrei fyrr hafi orðið jafn mikil umskipti á skipan Alþingis og nú á síðustu sex árum. Í umræðu dagsins hefur mjög verið kallað eftir breytingum og má segja að því hafi rösklega verið svarað í kosningum.

Eflaust eru skiptar skoðanir um þessa þróun. Víst er að í fáum nálægum þjóðþingum hafa slíkar breytingar orðið jafn stórkostlegar og hér.

Á Alþingi þurfa breytingar á vinnubrögðum að eiga sér stað. Þær breytingar verða að koma innan frá. Frá okkur sjálfum. Það segir enginn Alþingi fyrir verkum. Við ráðum för í þessum efnum og við þurfum því að gera þær breytingar sem við teljum nauðsynlegar til þess að Alþingi sinni sem best hlutverki sínu, sem er fyrst og síðast að setja þjóðinni lög, marka stefnuna og móta þannig samfélagið allt. Til þess höfum við fengið umboð þjóðarinnar á grundvelli stjórnarskrárinnar sem við höfum öll ritað eiðstaf að.

Margt hefur breyst til góðs á síðustu árum og áratugum hér á Alþingi. Starfsaðstaða þingmanna hefur gjörbreyst og starfskjör batnað. Ný tækni hefur auðveldað okkur verkin. Stofnað var sérstakt embætti umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðun heyrir nú undir Alþingi en ekki framkvæmdarvaldið eins og forðum. Þingið fer fram fyrir opnum tjöldum, í beinni sjónvarpsútsendingu sem þjóðin getur fylgst með. Fagleg aðstoð innan þings hefur stóraukist sem á að geta skilað sér í vandaðri lagasetningu og stefnumótun. Með öðrum orðum: Hin faglega umgjörð þingstarfanna hefur orðið mun betri en áður, þótt auðvitað megi margt fara betur.

Öll vitum við að það er margt að sem við þurfum að bæta úr. Mælingar sýna að Alþingi nýtur sáralítils trausts almennings. Það er háskalegt í lýðræðislegu samfélagi þegar í hlut á sjálf meginstoðin; Alþingi, löggjafarsamkoman. Undan því verður einfaldlega ekki vikist að treysta að nýju stöðu þingsins. Til þess stendur vilji okkar allra.

Frumkvæðishlutverk í þessum efnum hlýtur eðli málsins samkvæmt að liggja hjá stjórnarmeirihlutanum á hverjum tíma. Þingmál hins pólitíska meiri hluta setja mestan svip á þingstörfin. Það leiðir af eðli þingræðisins þar sem leiddur er fram vilji þjóðþinga hverju sinni.

Á síðasta kjörtímabili jókst sú tilhneiging að þingmál stjórnarmeirihlutans væru lögð fram fáeinum dögum fyrir lögbundinn frest og jafnvel í stórum stíl eftir það. Á 139. löggjafarþingi voru alls lögð fram 139 stjórnarfrumvörp. 29 þeirra komu fram rétt fyrir eða við lok framlagningarfests og 37 voru lögð fram eftir að fresturinn var liðinn. 47% stjórnarfrumvarpa var því dreift rétt fyrir framlagningarfrest eða að honum liðnum. Á næsta löggjafarþingi, eða því 140. voru lögð fram 132 stjórnarfrumvörp. 77 þeirra komu fram rétt fyrir eða við lok framlagningarfrestsins og sex að honum liðnum, eða alls 63% stjórnarfrumvarpa. Það sjá allir að þetta getur ekki gengið svona. Tími Alþingis nýtist illa og svona háttalag kallar beinlínis fram ónauðsynleg átök hér á Alþingi á aðventunni og á vordögum ár hvert. Þetta er plagsiður sem er klár uppskrift að vandræðum og verður að leggja af.

Við verðum að sjá breytingu á þessu strax á nýju kjörtímabili. Óhjákvæmilegt er að þau þingmál sem stjórnarmeirihlutinn hyggst leggja fram líti sem fyrst dagsins ljós, annars vegar á haustþingi og síðan eftir áramótin. Ekki nokkrum dögum fyrir framlagningarfrest, eða eftir að hann er liðinn, heldur í tæka tíð með skikkanlegum hætti. Þetta á að vera meginregla — og ófrávíkjanleg regla þegar um er að ræða viðurhlutamikil mál, svo ekki sé talað um stórpólitísk ágreiningsefni. Það veitir þingmönnum tækifæri til að ræða þau mál innan eðlilegra tímamarka og hafa áhrif á útkomu þeirra í umræðum og með störfum í þingnefndum. Þegar mál koma seint fram á stjórnarandstaða á hverjum tíma ekki margra kosta völ. Í stað þess að umræða og nefndarvinna eigi sér stað eins og við flest kjósum kalla slík vinnubrögð á langar umræður, málþóf og átök af því tagi sem vel má komast hjá. Nýtt háttalag, eins og ég kalla nú eftir, er því forsenda þess að Alþingi geti ástundað vinnubrögð sem ég fullyrði að vilji alþingismanna stendur til.

Breytingar á þingstörfum hafa ekki einasta orðið hér á landi, heldur í velflestum lýðræðisríkjum á síðustu árum. Þessar breytingar hafa alls ekki allar gengið í eina átt. Eitt einkenni Alþingis er virk og mikil umræða um þingmál í þingsal. Þótt viðurkennt sé að slíkar umræður þurfi að lúta ákveðnum reglum, svo sem um ræðutíma, er æskilegt að þessi þáttur þingstarfanna fái að njóta sín áfram. Niðursoðin þingstörf, sem að mestu fara fram í þingnefndum, með takmörkuðum skoðanaskiptum og ræðum í þingsal, eru alls ekki eftirsóknarverð. Umræður í þingsalnum eru æskileg birtingarmynd lýðræðisins og eiga sér aldalanga sögu og hefð í lýðræðislegum samfélögum. Þetta fyrirkomulag kallar hins vegar á skýrar reglur. Af þeim ástæðum og öðrum er nauðsynlegt að halda áfram þeirri endurskoðun þingskapa Alþingis sem var komin vel á veg á síðasta þingi. Æskilegt væri að niðurstaða okkar í þeim efnum geti litið dagsins ljós hið fyrsta.

Við störfum í umboði allrar þjóðarinnar. Íslenska þjóðin hefur trúað okkur fyrir ómetanlegu verkefni, við höfum fengið til þess leiðsögn í alþingiskosningum og sækjum okkur umboð til fólksins í landinu á a.m.k. fjögurra ára fresti. Við þingmenn megum aldrei gleyma því að verkefni okkar er einstakt af því að okkur hefur hlotnast trúnaður fólksins. Eða eins og Halldór Laxness orðar það í Innansveitarkroniku sinni: Því sem manni er trúað fyrir því er manni trúað fyrir.

Þennan trúnað við fólkið í landinu rækjum við aðeins með því að sýna sjálf virðingu okkar fyrir Alþingi. Því ef við gerum það ekki með verkum okkar og framkomu, þá er illa komið fyrir okkur, illa komið fyrir Alþingi og illa komið fyrir þjóðinni.

Einhver kynni að segja að seilst sé um hurð til lokunnar þegar ég að síðustu vitna í gamlan pólitískan andstæðing, sem hér sat lengi og ég átti ágætt samstarf við í blíðu og stríðu. Svavar Gestsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins, segir í ævisögu sinni sem út kom á aðventunni í fyrra: „Alþingi er mikilvægasta stofnun lýðræðisins á Íslandi. Mér vöknar um augu þegar ég sé og heyri þingmenn sparka í þessa stofnun eins og tíðkast nú orðið. Þá verð ég líka hræddur um lýðræðið.“

Við þetta er engu að bæta.

Ég endurtek þakkir mínar til þingmanna fyrir að fela mér svo mikilvægt verkefni og læt í ljós og ítreka vilja minn til þess að eiga gott samstarf við þingmenn alla hvar í flokki sem þeir standa.