22.7.2004

Alþingi (130. löggjafarþingi) frestað 22. júlí 2004

Þingið stóð yfir frá 1. október til 15. desember 2003, frá 28. janúar til 28. maí 2004 og frá 5. júlí til 22. júlí 2004 er því var frestað. Á þingtímanum urðu þingfundardagar alls 112.

Þingfundir voru 138 og stóðu þeir samtals í 658 klukkustundir. Lengsti þingfundurinn stóð í u.þ.b. 17 klukkustundir.

Lagafrumvörp voru samtals 220. Af þeim voru stjórnarfrumvörp 126 og þingmannafrumvörp 94. Af stjórnarfrumvörpum voru 109 afgreidd sem lög en óútrædd stjórnarfrumvörp eru 17. Þá urðu 13 þingmannafrumvörp að lögum en 81 þingmannafrumvarp er óútrætt. Af 220 frumvörpum urðu alls 122 að lögum.

Þingsályktunartillögur voru alls 139. Af þeim voru stjórnartillögur 24 og þingmannatillögur 115. Alls voru 30 tillögur samþykktar sem ályktanir Alþingis, 2 var vísað til ríkisstjórnarinnar og 107 eru óútræddar.

Skýrslur voru 35 á þingskjölum en 7 fluttar munnlega.

Bornar voru fram 617 fyrirspurnir. Allar voru þessar fyrirspurnir afgreiddar nema 42. Munnlegar fyrirspurnir voru 310 og af þeim var 269 svarað, 9 voru kallaðar aftur, 32 er ósvarað. Beðið var um skrifleg svör við 307 fyrirspurnum og bárust 297 svör, 10 er ósvarað.

Alls voru til meðferðar í þinginu 1013 mál. Tala prentaðra þingskjala var 1902.