Tilkynningar

Skrifstofa Alþingis auglýsir eftir lögfræðingi til starfa á þingfundaskrifstofu Alþingis

1.6.2012

Skrifstofa Alþingis auglýsir eftir lögfræðingi til starfa á þingfundaskrifstofu Alþingis.

Þingfundaskrifstofa annast fjölbreytt verkefni. Flest varða þau undirbúning og störf þingfunda. Í því felst m.a. gerð dagskrár þingfunda, skráning þingmála og þingskjala, upptaka og útsending umræðna á þingfundum, aðstoð við forseta Alþingis, umsjón með atkvæðagreiðslum, lagaskráning og loks úrlausn á lögfræðilegum álitaefnum tengdum þinghaldinu. Þá annast skrifstofan einnig upplýsingaþjónustu við þingmenn á þingfundum (m.a. um þingmál og umræður) og útgáfu á vikulegu yfirliti yfir stöðu þingmála.

Starfssvið:

  • Undirbúningur þingfunda.
  • Aðstoð við forseta Alþingis.
  • Úrlausn lögfræðilegra verkefna.
  • Utanumhald og umsjón með skráningu og útbýtingu þingmála og þingskjala.
  • Umsjón með atkvæðagreiðslum.
  • Þjónusta við þingmenn á þingfundum.
  • Aðstoð við aðallögfræðing Alþingis.
  • Önnur verkefni.

 

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Embættis- eða meistarapróf í lögfræði.
  • Fullt vald á íslensku og færni í að tjá sig í ræðu og riti.
  • Sjálfstæði og öguð vinnubrögð.
  • Færni og lipurð í mannlegum samskiptum, góð framkoma og rík þjónustulund.
  • Góð tölvukunnátta.
  • Geta til að vinna undir álagi.
  • Góð tungumálakunnátta, einkum í Norðurlandamálum og ensku.


Æskilegt er að umsækjendur geti hafið störf sem fyrst. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Félags starfsmanna Alþingis.

Nánari upplýsingar veitir Ingvar Þór Sigurðsson, forstöðumaður þingfundaskrifstofu, í síma 563 0500.

Umsóknir ásamt greinargóðum upplýsingum um menntun og fyrri störf skulu sendar á netfangið starfsmannahald@althingi.is fyrir 25. júní nk. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Umsóknir gilda í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Gildi skrifstofu Alþingis eru
þjónustulund, fagmennska og samvinna.