Tilkynningar

Útbýting þingskjala frá þingmannanefnd sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 11. september

11.9.2010

Skýrslu þingmannanefndar sem skipuð var til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar hefur verið útbýtt á Alþingi. Hún er aðgengileg á vef Alþingis, þskj. 1501. Þá hefur verið útbýtt niðurstöðum þingmannanefndar um ábyrgð ráðherra samkvæmt ráðherraábyrgðarlögum, nr. 4/1963, þskj. 1502 og þskj. 1503. Umræður um skýrslu þingmannanefndarinnar munu hefjast í þinginu mánudaginn 13. september kl. 10.30 árdegis. Ræðutími þingmanna verður rýmri en þingsköp ákveða.

Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 skilaði skýrslu sinni 12. apríl 2010. Samkvæmt lögum nr. 142/2008 um rannsóknarnefndina, eins og þeim var breytt með lögum nr. 146/2009, tók sérstök þingmannanefnd við skýrslunni eftir útkomu hennar. Þingmannanefndin var kosin á Alþingi þann 30. desember 2009 og í henni eiga sæti þingmenn úr öllum þingflokkum. Nefndina skipa Atli Gíslason formaður (Vg), Unnur Brá Konráðsdóttir varaformaður (S), Birgitta Jónsdóttir (Hr), Eygló Harðardóttir (F), Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg), Magnús Orri Schram (Sf), Oddný G. Harðardóttir (Sf), Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) og Sigurður Ingi Jóhannsson (F). Margrét Tryggvadóttir (Hr) starfaði með nefndinni í forföllum Birgittu Jónsdóttur, sérstaklega síðustu vikur fyrir skil skýrslu þingmannanefndarinnar.

Samkvæmt lögunum er hlutverk þingmannanefndarinnar að móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndarinnar og í þeim tilgangi skal nefndin gefa Alþingi skýrslu um störf sín, sbr. 26. og 31. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Auk þess getur hún lagt fram tillögur að öðrum þingmálum eftir því sem efni máls krefur og fylgt eftir ábendingum í skýrslunni um úrbætur á reglum með því að vísa þeim til viðkomandi fastanefndar ef ástæða er til. Þá var þingmannefndinni einnig falið það hlutverk með 6. mgr. 15. gr. laganna að taka afstöðu til framgöngu ráðherra í aðdraganda hrunsins og leggja í framhaldinu mat á hvort tilefni sé til málshöfðunar fyrir landsdómi fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð skv. 13. gr. laga um landsdóm, nr. 3/1963.