Tilkynningar

Ný heimasíða landskjörstjórnar kynnt

12.11.2008

Heimasíða með upplýsingum og fréttum af starfi landskjörstjórnar hefur verið opnuð: landskjor.is

Gísli Baldur Garðarsson, formaður landskjörstjórnar, opnaði síðuna en ritstjórar hennar eru Ásmundur Helgason lögfræðingur og Þorkell Helgason stærðfræðingur. Á heimasíðunni verða birt úrslit kosninga og greinar og annað efni sem tengist kosningamálum og kosningafræði.

Landskjörstjórn fer með veigamikið hlutverk við undirbúning og framkvæmd kosninga til Alþingis og gefur út kjörbréf til þingmanna eins og nánar greinir í lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis. Auk þess er á vegum landskjörstjórnar unnið að rannsóknum á kosningamálum og kosningafræði og verða ýmsar fróðlegar greinar um þessi efni birt á síðunni. Á vegum landskjörstjórnar og skrifstofu Alþingis er hafin vinna að almennri upplýsingagjöf um kosningamál, einkum um Alþingiskosningar, og er heimasíðan liður í því starfi.